Þagnarrök er stutt heiti á því sem líka er kallað ályktun af þögn heimilda. Sem sagt ályktun í þá veru að úr því að einhvers sé ekki getið í heimildum, þá hafi það aldrei gerst eða verið. Slík rök eru oft gagnleg, en þarf að nota með gát. Í manntalinu 1703 er til dæmis ekki getið neinna íbúa í Viðey. Af því að manntalið átti að geta allra íbúa landsins, og virðist yfirleitt bera með sér að vera gert mjög samviskusamlega, hafa menn ályktað af þessari þögn heimildarinnar að engin föst búseta hafi verið í Viðey um þær mundir. Þetta eru þó bara líkindarök. Af því að Viðey var í Seltjarnarneshreppi, en tilheyrði búrekstri amtmannsembættisins á Bessastöðum í Álftaneshreppi, kann vel að vera að hreppstjórarnir, sem tóku manntalið, hafi ruglast í því hvor hreppurinn ætti að telja fram íbúana þar. Annað þekkt dæmi má sækja í Íslendingabók Ara fróða. Þar segir frá kristniboði Þangbrands, en engum fyrri kristniboðum, hvorki Þorvaldi víðförla né Stefni Þorgilssyni. Ef ályktað er af þögn Ara að hann hafi annaðhvort aldrei heyrt þessara manna getið eða ekki talið sögur af þeim trúverðugar, þá eru það þagnarrök sem styðja þá tilgátu (staðreynd væri of mikið sagt) að kristniboð Þorvalds og Stefnis sé einber þjóðsaga. En svo kann þögn Ara að eiga sér aðrar skýringar, kannski að honum hafi fundist hæfilegt að nefna aðeins áhrifaríkasta kristniboðann, eða að hann hafi haft meiri áhuga á þeim héruðum og þeim höfðingjaættum sem Þangbrandur hafði kristnað. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er leif í sagnfræði? eftir Helga Skúla Kjartansson
- Hvað er saga? eftir Gunnar Karlsson
- Hvaða hlutverki gegnir saga og sagnfræði? eftir Gunnar Karlsson
- Hvað nær mannkynssagan langt aftur í tímann? eftir Guðmund Hálfdanarson
- Wikipedia.is. Sótt 6.8.2010.