Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er saga?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Orðið saga er skylt sögninni segja og hefur upphaflega vísað til þess sem var sagt, óháð innihaldi þess. Leifar þeirrar merkingar höfum við í orðum eins og fiskisaga, sem er frekar frétt af fiskigöngu heldur en eiginleg saga. En strax í fornu máli norrænu var tekið að nota orðið sérstaklega í tveim merkingum sem skipta sagnfræðinga máli.

Annars vegar var það notað um frásögn, sagða eða skráða, sanna eða skáldaða. Þannig var talað um lygisögur sem sérstaka tegund sagna, og sýnir það að sögur gátu talist hvort sem var sannar eða ósannar. Á miðöldum var þó oft gerður lítill og óljós greinarmunur á sönnum sögum og skálduðum, enda ríkir um margar miðaldasögur, eins og til dæmis Íslendingasögur, óvissa um það að hve miklu leyti þær töldust segja frá raunverulegum atburðum.

Hins vegar var orðið notað um atburðarás sem gerðist í raun og veru, hvort sem einhver sagði frá henni eða ekki. "Hann var þá mjög hniginn á efra aldur, er sjá saga gerðist," segir á einum stað í fornu riti. Þarna gerist sagan, það er að segja saga verður til við það eitt að atburðarás verður.

Í þessum tveimur merkingum náði orðið nokkurn veginn yfir hugtakið sem fólst í grískættaða orðinu historia (upphaflega: könnun og frásögn af henni), latneska orðinu res gestae (bókstaflega: hlutir sem hafa gerst) og þýska orðinu Geschichte (af sögninni geschehen: gerast, sbr. dönsku sögnina ske).

Frá lokum miðalda og fram á 19. öld var smám saman tekið að gera skýrari greinarmun á þeim sögum sem voru skáldaðar og hinum sem áttu að segja frá raunverulegum atburðum. Þessi greinarmunur þróaðist að hluta til í framhaldi af því að Evrópumenn tóku þá trú að tilveran fylgdi óbreytanlegum náttúrulögmálum sem settu því alger mörk hvað gæti gerst og hvað ekki. Þannig skerptust skilin milli raunveruleika og óraunveruleika. Á sama tíma varð skáldsagan til sem meðvituð, viðurkennd og afar vinsæl listgrein, og list hennar fólst í að semja sögu með atburðum sem hefðu ekki gerst.

Auðvitað eru samt enn þá - og verða líklega alltaf - óglögg skil milli sannra frásagna og ósannra. Á annan bóginn getur skáldskapur vissulega falið í sér mikinn sannleik. Á hinn bóginn halda sumir því fram að engin saga geti strangt tekið flutt sannleik; sá sem segi eða skrifi sögu af atburðum taki óhjákvæmilega ákvarðanir um að segja frá einu en þegja yfir öðru, nota falleg orð um eitt en ljót um annað, raða einstökum atriðum saman undir flokkunarhugtök eins og miðaldir, endurreisn, upplýsing, rómantík, fasismi. Mörg slík hugtök voru ekki til á þeim tíma sem þau eru notuð um núna (miðaldafólk vissi auðvitað ekki að það væri uppi á miðöldum), og því geta flokkunarhugtökin í vissum skilningi kallast tilbúningur þess sem segir söguna.

Eftir sem áður situr sagnfræðin uppi með orðið sögu (á ensku: history, þýsku: Geschichte, dönsku: historie) í tveimur ólíkum merkingum sem hefur þó ekki reynst auðvelt að halda skýrt aðgreindum.

Annars vegar er orðið notað enn eins og að fornu um það sem gerist, sérstaklega um það sem er talið afdrifaríkt og mikilvægt á einhvern hátt. Við getum til dæmis sagt að 11. september 2001 hafi eitthvað gerst í fyrsta skipti í sögunni. Líka er hægt að segja: sagan á eftir að sanna að við höfum rétt fyrir okkur. Í þessari merkingu er saga atburðarás, framvinda mannlegra athafna. Í fræðunum er þetta stundum kallað saga-1.

Hins vegar er orðið saga svo notað um frásagnir af samfélögum manna, einkum frásagnir sem gerast í fortíð, oft fjarlægri. Í þeirri merkingu tölum við um sögu Íslendinga, sögu kirkjunnar, sögu landbúnaðar eða sögu matargerðar. Hvað sem fólk hefur gert getur orðið viðfangsefni sögu, sérstaklega það sem fólk lærir hvert af öðru að gera, gerir í félagi og á ólíkan hátt frá einum tíma til annars. Í þessari merkingu er stundum talað um sögu-2.

Þess má geta til gamans að ég tók áður fyrr andardráttinn stundum sem dæmi um það sem fólk gerði alltaf og alls staðar á sama hátt og ætti sér þess vegna enga sögu. En svo las ég einhvers staðar að það væri breytilegt, bæði menningarbundið og kynbundið, hvort fólk andaði fremur með því að þenja brjóstkassann út eða þindina niður, þannig að það væri líklega eftir allt saman hægt að skrifa sögu andardráttarins!

Sérstaka merkingu fær orðið saga svo í samsetningum eins og jarðsaga. En hún stendur utan við það sem heitir í daglegu tali saga. Þannig byrjar saga Íslands ekki fyrr en fólk flyst til landsins, þó að landið hafi þá verið búið að standa upp úr sjó í milljónir ára. Rökréttara er auðvitað að tala um sögu Íslendinga, eins og stundum er gert, en hitt helgast af algengri venju; Danir tala líka um Danmarks historie og Bretar um History of Scotland. Sú venja helgast kannski að einhverju leyti af því að landaheitin eru líka notuð um ríkin í þessum löndum, og saga var oft einkum saga ríkisins fremur en þjóðarinnar.

Í tungumálum allra grannþjóða okkar er orðið sem samsvarar orðinu saga hjá okkur líka notað um fræðigreinina sem fæst við að rannsaka sögu, skrifa sögu og miðla henni. Á ensku leggur fólk stund á history í háskólum og rannsóknarstofnunum og er þá meðal annars að rannsaka history-1 og skrifa um hana history-2. En í íslensku hefur rutt sér til rúms sá siður að nota fremur orðið sagnfræði um fræðigreinina þannig að við þurfum ekki að rugla henni saman við söguna í þeim tveimur merkingum sem áður var lýst.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

22.4.2002

Spyrjandi

Guðbjörg Ösp Einarsdóttir, f. 1984
Hrefna Daníelsdóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað er saga?“ Vísindavefurinn, 22. apríl 2002, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2326.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2002, 22. apríl). Hvað er saga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2326

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvað er saga?“ Vísindavefurinn. 22. apr. 2002. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2326>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er saga?
Orðið saga er skylt sögninni segja og hefur upphaflega vísað til þess sem var sagt, óháð innihaldi þess. Leifar þeirrar merkingar höfum við í orðum eins og fiskisaga, sem er frekar frétt af fiskigöngu heldur en eiginleg saga. En strax í fornu máli norrænu var tekið að nota orðið sérstaklega í tveim merkingum sem skipta sagnfræðinga máli.

Annars vegar var það notað um frásögn, sagða eða skráða, sanna eða skáldaða. Þannig var talað um lygisögur sem sérstaka tegund sagna, og sýnir það að sögur gátu talist hvort sem var sannar eða ósannar. Á miðöldum var þó oft gerður lítill og óljós greinarmunur á sönnum sögum og skálduðum, enda ríkir um margar miðaldasögur, eins og til dæmis Íslendingasögur, óvissa um það að hve miklu leyti þær töldust segja frá raunverulegum atburðum.

Hins vegar var orðið notað um atburðarás sem gerðist í raun og veru, hvort sem einhver sagði frá henni eða ekki. "Hann var þá mjög hniginn á efra aldur, er sjá saga gerðist," segir á einum stað í fornu riti. Þarna gerist sagan, það er að segja saga verður til við það eitt að atburðarás verður.

Í þessum tveimur merkingum náði orðið nokkurn veginn yfir hugtakið sem fólst í grískættaða orðinu historia (upphaflega: könnun og frásögn af henni), latneska orðinu res gestae (bókstaflega: hlutir sem hafa gerst) og þýska orðinu Geschichte (af sögninni geschehen: gerast, sbr. dönsku sögnina ske).

Frá lokum miðalda og fram á 19. öld var smám saman tekið að gera skýrari greinarmun á þeim sögum sem voru skáldaðar og hinum sem áttu að segja frá raunverulegum atburðum. Þessi greinarmunur þróaðist að hluta til í framhaldi af því að Evrópumenn tóku þá trú að tilveran fylgdi óbreytanlegum náttúrulögmálum sem settu því alger mörk hvað gæti gerst og hvað ekki. Þannig skerptust skilin milli raunveruleika og óraunveruleika. Á sama tíma varð skáldsagan til sem meðvituð, viðurkennd og afar vinsæl listgrein, og list hennar fólst í að semja sögu með atburðum sem hefðu ekki gerst.

Auðvitað eru samt enn þá - og verða líklega alltaf - óglögg skil milli sannra frásagna og ósannra. Á annan bóginn getur skáldskapur vissulega falið í sér mikinn sannleik. Á hinn bóginn halda sumir því fram að engin saga geti strangt tekið flutt sannleik; sá sem segi eða skrifi sögu af atburðum taki óhjákvæmilega ákvarðanir um að segja frá einu en þegja yfir öðru, nota falleg orð um eitt en ljót um annað, raða einstökum atriðum saman undir flokkunarhugtök eins og miðaldir, endurreisn, upplýsing, rómantík, fasismi. Mörg slík hugtök voru ekki til á þeim tíma sem þau eru notuð um núna (miðaldafólk vissi auðvitað ekki að það væri uppi á miðöldum), og því geta flokkunarhugtökin í vissum skilningi kallast tilbúningur þess sem segir söguna.

Eftir sem áður situr sagnfræðin uppi með orðið sögu (á ensku: history, þýsku: Geschichte, dönsku: historie) í tveimur ólíkum merkingum sem hefur þó ekki reynst auðvelt að halda skýrt aðgreindum.

Annars vegar er orðið notað enn eins og að fornu um það sem gerist, sérstaklega um það sem er talið afdrifaríkt og mikilvægt á einhvern hátt. Við getum til dæmis sagt að 11. september 2001 hafi eitthvað gerst í fyrsta skipti í sögunni. Líka er hægt að segja: sagan á eftir að sanna að við höfum rétt fyrir okkur. Í þessari merkingu er saga atburðarás, framvinda mannlegra athafna. Í fræðunum er þetta stundum kallað saga-1.

Hins vegar er orðið saga svo notað um frásagnir af samfélögum manna, einkum frásagnir sem gerast í fortíð, oft fjarlægri. Í þeirri merkingu tölum við um sögu Íslendinga, sögu kirkjunnar, sögu landbúnaðar eða sögu matargerðar. Hvað sem fólk hefur gert getur orðið viðfangsefni sögu, sérstaklega það sem fólk lærir hvert af öðru að gera, gerir í félagi og á ólíkan hátt frá einum tíma til annars. Í þessari merkingu er stundum talað um sögu-2.

Þess má geta til gamans að ég tók áður fyrr andardráttinn stundum sem dæmi um það sem fólk gerði alltaf og alls staðar á sama hátt og ætti sér þess vegna enga sögu. En svo las ég einhvers staðar að það væri breytilegt, bæði menningarbundið og kynbundið, hvort fólk andaði fremur með því að þenja brjóstkassann út eða þindina niður, þannig að það væri líklega eftir allt saman hægt að skrifa sögu andardráttarins!

Sérstaka merkingu fær orðið saga svo í samsetningum eins og jarðsaga. En hún stendur utan við það sem heitir í daglegu tali saga. Þannig byrjar saga Íslands ekki fyrr en fólk flyst til landsins, þó að landið hafi þá verið búið að standa upp úr sjó í milljónir ára. Rökréttara er auðvitað að tala um sögu Íslendinga, eins og stundum er gert, en hitt helgast af algengri venju; Danir tala líka um Danmarks historie og Bretar um History of Scotland. Sú venja helgast kannski að einhverju leyti af því að landaheitin eru líka notuð um ríkin í þessum löndum, og saga var oft einkum saga ríkisins fremur en þjóðarinnar.

Í tungumálum allra grannþjóða okkar er orðið sem samsvarar orðinu saga hjá okkur líka notað um fræðigreinina sem fæst við að rannsaka sögu, skrifa sögu og miðla henni. Á ensku leggur fólk stund á history í háskólum og rannsóknarstofnunum og er þá meðal annars að rannsaka history-1 og skrifa um hana history-2. En í íslensku hefur rutt sér til rúms sá siður að nota fremur orðið sagnfræði um fræðigreinina þannig að við þurfum ekki að rugla henni saman við söguna í þeim tveimur merkingum sem áður var lýst.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:...