Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvernig er hægt að láta einhvern nákominn sér hætta að reykja t.d. móður?
Nikótín í sígarettum er eitt sterkasta ávanabindandi fíkniefni sem til er. Talið er að með því reykja í tvígang sé táningur í allt að í 70% hættu á að reykja næstu fjörutíu árin. Reykingar eru því ekki eingöngu lærð hegðun heldur líka fíkn, og nikótín veldur því bæði líkamlegri og sálfélagslegri ávanabindingu. Stuðningur með ráðgjöf og samtalsmeðferð er því mikilvægur hluti reykleysismeðferðar en lyfjameðferð er oft líka hluti af meðferð þegar nauðsynlegt er að draga úr líkamlegum fráhvörfum.
Lyfjameðferð er talin auka líkur á langtíma reykleysi um 50-70% miðað við lyfleysu, og þá aðallega með því að slá á fráhvarfseinkenni. Lyfin eru tvenns konar, annars vegar nikótínlyf og hins vegar nikótínlaus lyf. Árangur af þessum lyfjum er óumdeilanlegur. Þannig náðu 15–22% þeirra sem fengu bæði samtalsmeðferð og lyfjameðferð með lyfjum eins og varenicline og bupropion (með eða án nikótínlyfja) að hætta að reykja borið saman við 9% þeirra sem fengu lyfleysu. Notkun fleiri lyfja samtímis kemur til greina, enda virðist árangur þá betri. Nú mæla flestir með notkun samsettrar nikótínlyfjameðferðar sem fyrsta valkosti við reykleysismeðferð, og þá samhliða samtalsmeðferð.
Nikótínlyf í formi tyggjós, plástra, pústs og nefúða eru áhrifarík til að draga úr fráhvarfseinkennum.
Nikótínlyf í formi tyggjós, plástra, pústs og nefúða eru áhrifarík til að draga úr fráhvarfseinkennum. Þau eru ekki jafn ávanabindandi og nikótín í sígarettum og valda ekki krabbameini. Nikótínlyf er hægt að kaupa án lyfseðils í öllum apótekum og sumum verslunum. Tyggigúmmí verkar strax, líkt og nefúði, og eru aukaverkanir oftast vægar, aðallega erting í hálsi og brjóstsviði. Nikótínplástur gefur samfelldari nikótínskammta en tyggjó og púst og eru bæði til 16 og 24 klukkustunda plástrar í þremur styrkleikum. Flestum dugar 16 klukkustunda en sólarhringsplástrar slá betur á nikótínþörf þeirra sem reyktu áður á nóttunni. Plástrarnir eru settir á hárlausa húð að morgni og skipt um staði til að forðast ertingu á húð. Árangur nikótínlyfja til að ná reykleysi er 17% samanborið við 10% af lyfleysu og næst bestur árangur með samhliða reykleysisráðgjöf. Algengt er að nikótínlyf séu notuð í 10-12 vikur.
Varenicline (Chantix® og Champix®) er nikótónlaust lyf sem örvar nikótínviðtaka í miðtaugakerfinu og eykur þannig losun dópamíns sem aftur dregur úr fráhvarfseinkennum. Það letur einnig bindingu nikótíns við nikótínviðtaka og dregur þannig úr löngun og vellíðan sem fylgir reykingum. Varenicline fæst aðeins með lyfseðli en 11-26% ná að hætta reykingum innan 6 mánaða. Byrjað er að taka lyfið 1-2 vikum áður en hætt er að reykja og tekur meðferðin oft 12 vikur. Bestur árangur næst ef lyfið er tekið samhliða reykleysisráðgjöf. Lyfið má ekki nota á meðgöngu. Helstu aukaverkanir eru höfuðverkur, ógleði, svefntruflanir og í einstaka tilvikum versnun á þunglyndi.
Bupropion (Zyban® og Wellbutrin®) er nikótínlaust lyf og bæði notað sem reykleysislyf og við þunglyndismeðferð. Það fæst eingöngu með lyfseðli og hentar ekki öllum. Lyfið hindrar endurupptöku dópamíns í taugaendum og dregur þannig úr löngun til að reykja, en einnig fráhvarfseinkennum. Fyrstu 10-12 dagana má reykja með lyfinu en síðan er reykingum hætt. Bestur árangur næst með því að nota lyfið samhliða reykleysisráðgjöf, en 19% einstaklinga ná að hætta að reykja innan 6 mánaða borið saman við 11% sem fá lyfleysumeðferð. Lyfið má ekki nota á meðgöngu eða á meðan brjóstagjöf stendur, og heldur ekki með sumum geðlyfjum. Helstu aukaverkanir bupropion eru munnþurrkur og svefntruflanir.
Þótt rafsígarettur séu hættuminni en sígarettur og valdi síður krabbameini, þá er ekki mælt með því að nota þær sem hluta af reykleysismeðferð. Enda skortir rannsóknir sem staðfesta gagnsemi þeirra eða skaðleysi. Vandinn er líka sá að nánast allir sem nota rafsígarettur halda áfram að reykja tóbak og kemur rafsígarettan því oftar en ekki sem viðbót við sígarettur. Auk þess geta rafsígarettur valdið lungnasjúkdómum eins og poppkornslunga. Þótt ekki hafi verið sýnt fram á tengsl nikótínpúða við lungnakrabbamein þá er ekki ráðlagt að nota þá til að hætta að reykja, enda geta þeir aukið nikótínfíkn og líkur á því að reykingar séu teknar upp að nýju.
Vilji til að taka upp reyklausan lífsstíl verður að vera til staðar og til að ná sem bestum árangri þarf að gefa sér góðan tíma til að hætta.
Sumum nýtist nálastungumeðferð og aðrir hafa reynt dáleiðslu með góðum árangri. Þessar meðferðir, líkt og önnur óhefðbundin reykleysisúrræði, eru þó ekki jafn vel rannsökuð og samtalsferðir og reykleysislyfjameðferð, og því erfiðara að leggja mat á árangur þeirra.
Vilji til að taka upp reyklausan lífsstíl verður að vera til staðar og til að ná sem bestum árangri þarf að gefa sér góðan tíma til að hætta. Það getur þurft nokkrar tilraunir en hver tilraun til að hætta er leið að betra lífi án tóbaks. Líkt og á við um aðra fíknisjúkdóma er stærsta áskorunin að falla ekki og fara að reykja að nýju. Því verður samhliða reykleysi að takast á við umhverfi og félagslegar aðstæður sem kveikja löngun í tóbak. Þá gildir að forðast aðstæður og umhverfi sem viðkomandi tengir við reykingar, til dæmis þegar áfengi er haft um hönd, þegar horft er á sjónvarp eða eftir máltíðir.
Myndir:
Þetta svar er fengið úr bæklingnum Hættu nú alveg (ritstjóri og útgefandi Tómas Guðbjartsson). Reykjavík 2024. Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum og birt með góðfúslegu leyfi höfunda og útgefanda.
Tómas Guðbjartsson, Lára G. Sigurðardóttir og Karl Andersen. „Hvaða aðferðir duga best til að hætta að reykja?“ Vísindavefurinn, 10. desember 2024, sótt 22. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=18522.
Tómas Guðbjartsson, Lára G. Sigurðardóttir og Karl Andersen. (2024, 10. desember). Hvaða aðferðir duga best til að hætta að reykja? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=18522
Tómas Guðbjartsson, Lára G. Sigurðardóttir og Karl Andersen. „Hvaða aðferðir duga best til að hætta að reykja?“ Vísindavefurinn. 10. des. 2024. Vefsíða. 22. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=18522>.