Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Halógenar skipa sautjánda flokk lotukerfisins (áður kallaður 7. flokkur). Þeir eru flúor (F), klór (Cl), bróm (Br), joð (I), astat (At) og frumefni númer 117 en enn á eftir að staðfesta tilvist þess og gefa því viðurkennt nafn samkvæmt Alþjóðasamtökum um hreina og hagnýta efnafræði (IUPAC). Samheiti mínushlaðinna jóna þeirra (anjóna) er halíðjón, X-. Efnasambönd halógenanna og vetnis kallast vetnishalíð (e. hydrogen halide), HX. Ýmsar upplýsingar um eiginleika þeirra má finna í töflu 1.
Tafla 1. Eiginleikar vetnishalíða.
Astat fyrirfinnst í náttúrunni. Allar samsætur (e. isotopes) astats eru þó geislavirkar og er lengsti helmingunartími þeirra 8,1 klukkutími. Vinna með vetnisastatíð er afar takmörkuð þar sem það sundrast fljótt í vetni (H2) og astat (At2) auk þess sem astat umbreytist fljótt í önnur frumefni vegna geislavirkni.
Frumefni númer 117 finnst ekki í náttúrunni, tilvist þess er því einungis af mannavöldum, það er afleiðing kjarnasamruna í eindahröðlum. Þar sem einungis örfáar frumeindir af frumefninu hafa verið búnar til og allar samsætur frumefnisins eru skammlífar (minni en 0,08 sekúndur) vegna geislavirkni þá eru engar upplýsingar um vetnishalíð fyrir frumefni númer 117.
Myndin sýnir rafeindaþéttleika vetnishalíðsameindanna með vetni sem bláar kúlur og halógen sem litaðar kúlur. Rafdrægni (e. electronegativity) halógenanna og skautun vetnishalíðanna minnkar niður lotuna í lotukerfinu. Flúorfrumeindin heldur því best í sína vetnisfrumeind.
Best þekkta vetnishalíðið er eflaust vetnisklóríð HCl(g) sem er lofttegund við herbergisaðstæður. Mörgum kemur eflaust í hug saltsýra þegar þeir sjá formúluna HCl, en vetnisklóríðið sem slíkt er ekki saltsýra, heldur er vatnslausn af því saltsýra, HCl(aq).
Öll hin vetnishalíðin mynda líka súrar vatnslausnir en það er athyglisverður munur á remmu sýranna sem myndast, sérstaklega sker HF(aq) sig úr. Sýruremma er gefin til kynna með svokölluðum sýrufasta, Ka, sem segir til um hversu mikið sýran klofnar í jónir sínar í vatni. Ka fyrir HX(aq) (almennt tákn fyrir vatnslausn af vetnishalíði) gefur því til kynna hversu mikið HX er til staðar í vatnslausn og hversu mikið er af H+ og X-, það er að segja hvort jafnvægið fyrir hvarfið hér að neðan liggi mikið til vinstri eða hægri.\[HX_{(aq)}\rightleftharpoons H^{+}_{(aq)}+X^{-} _{(aq)}\]Ka er reiknað á eftirfarandi hátt:
\[K_{a}=\frac{[H^{+}][X^{-}]}{[HX]}\]þar sem [H+], [X-] og [HX] eru mólstyrkir (e. molarity) viðkomandi efna eða jóna í vatnslausninni.
Oft þykir þreytandi að vinna með tölur með veldisvísum, því er einnig notað svokallað pKa í stað Ka sem fæst með því að taka mínus logrann af Ka gildinu:\[pK_{a} = -log K_{a}\]Tafla 2 sýnir sýrufasta og pKa vatnslausna vetnishalíðanna. HCl(aq), HBr(aq) og HI(aq) eru allar mjög rammar sýrur (há gildi sýrufastanna), sem þýðir að þær eru í raun 100% klofnar í vatnslausn. Það stingur þess vegna í stúf að flúrsýran (einnig kölluð flússýra eða flúorsýra) hafi miklu lægri sýrufasta, \(K_{a} = 6,61\cdot 10^{-4}\), sem þýðir að hún er um 8% klofin í H+ og F- í 0,1 M lausn. Þetta hefur verið skýrt á þann hátt að í vatnslausn hanga HF-sameindirnar saman í nokkurra sameinda keðjum vegna vetnistengja, sem á þann hátt draga úr klofnun einstakra sameinda.
Tafla 2. Sýrueiginleikar vatnslausna af vetnishalíðum.