Aftur á móti er komin löng reynsla á virkjanir sem nýta fallhæð. Sem dæmi má nefna virkjunina í La Rance í Frakklandi sem er búin að vera í notkun síðan 1967 og hefur gefið afar góða raun. Sú virkjun er 240 MW að uppsettu afli með 24 hverfla af perugerð (e. bulb turbine). Til þess að nota þessa aðferð þarf munur á flóði og fjöru að vera mikill og einnig þurfa ákjósanlegar landfræðilegar aðstæður að vera fyrir hendi, eins og fjörður sem hægt er að stífla og nota sem eins konar lón. Þó munu full vatnsskipti verða tryggð því vatnið sem flæðir inn er notað til að knýja hverflana á útleið. Því meira vatn þeim mun meiri orka. Virkjun sem notar útfall til þess að framleiða rafmagn virkar þannig að sjór streymir inn í lónið þegar flæðir að og þegar byrjar að fjara út er lokað fyrir og sjónum er haldið í lóninu þar til réttur hæðarmunur fyrir innan og utan stífluna hefur náðst, þá er opnað fyrir hverflana og raforkuframleiðsla hefst. Lágmarkshæðarmunur er um 1 1/2 metri. Auðvelt er að tímasetja framleiðsluna nákvæmlega eins langt fram í tímann og þörf er á. Stundum eru hverflarnir hannaðir á þann hátt að þeir geta unnið í báðar áttir.
Í dag eru engar sjávarfallavirkjanir á Íslandi en árið 1901 var byggð lítil mylla í Brokey í Hvammsfirði. Þessi mylla var notuð til að mala korn og var í notkun til ársins 1924.
Litlar nákvæmar upplýsingar eru til um straumhraða á íslensku hafsvæði en fyrir liggur í þeim upplýsingum sem til eru, að straumhraði er almennt ekki mikill eða í kringum metri á sekúndu. Þó eru til afmörkuð svæði þar sem straumhraði er mun meiri eins og í röstinni í Hvammsfirði. Eftir því sem straumhraðinn er meiri því hagstæðari eru sjávarmyllurnar. Aflið er í raun í hlutfalli við þriðja veldi straumhraðans, þannig að tvöföldun hraðans þýðir áttföldun aflsins. Vegna virkjana sem byggja á fallhæð koma eingöngu svæði í Breiðafirði til greina. Má þar nefna Þorskafjörð og Gilsfjörð sem hagstæða kosti en þar er flóðahæð með því mesta sem gerist á Íslandi. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvers vegna gætir sjávarfalla tvisvar á sólarhring? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Verða firðir og víkur einhvern tímann virkjuð með því að nota flóð og fjöru? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Er ekki hægt að nýta varmaorkuna í andrúmsloftinu til orkuframleiðslu? eftir Þorstein I. Sigfússon
- Hversu miklu rafmagni skilar virkjun af sér á mínútu? eftir HG
- Hvaðan kemur orkan sem býr í vatninu? Þeirri sem er breytt í raforku? eftir Sólrúnu Höllu Einarsdóttur
- Mynd af sjávarmyllu: Hammerfest Strøm AS. Sótt 16. 12.2010.
- Teikning af sjávarfallavirkjun: Bjarni M. Jónsson
- Mynd frá Brokey: ljósmyndari Jón V. Hjaltalín
- Eru einhverjar sjávarfallavirkjanir á Íslandi og ef svo er hvar á landinu og hver er sú stærsta? Eru þær hagstæðar hér á landi?