Eins og nafnið undirstöðusetning gefur til kynna er fullyrðingin sönn, og sérhver margliða sem er ekki föst hefur rót í mengi tvinntalnanna. Það tók langan tíma að sanna fullyrðinguna; til er bók frá 1629 þar sem hún er sett fram, en fyrsta sönnunin sem stenst kröfur nútímans um nákvæmni birtist ekki fyrr en 1806. Í dag er til aragrúi sannana á undirstöðusetningunni, sem byggja á mörgum mismunandi hugmyndum, og fjöldinn er slíkur að stundum spaugast stærðfræðingar með að góður mælikvarði á hvort setning sé einhvers virði eða ekki, sé hvort það sé hægt að nota hana til að sanna undirstöðusetningu algebrunnar. Vegna þess að setningin er svo víðtæk, og vegna fjölda mismunandi sannana, er nokkuð erfitt að benda á einhverja ákveðna eiginleika margliðanna og tvinntalnanna sem ástæðu fyrir því að undirstöðusetningin er sönn. Ef maður skoðar nokkrar sannanir kemur í ljós að margar þeirra sem byggja á greiningu nota tvinnfallagreiningu, og þá staðreynd að margliður eru fáguð föll, en það þýðir að þær eru deildanlegar með tilliti til tvinnbreytunnar z. Þessar sannanir byggja oft á þeirri staðreynd að tölugildi fallgilda margliðu stefna á óendanlegt þegar tölugildi punktanna sem við reiknum gildin í gera það sama, það er að
\(\left | p(z) \right | \to \infty\), þegar \(\left | z \right | \to \infty \)Með þetta að vopni, auk þess að afleiða margliðu er margliða af lægra stigi, og því að margliða af stigi n hefur í mesta lagi n núllstöðvar, má sanna undirstöðusetninguna án þess að grípa til megin niðurstaðna tvinnfallagreiningar. Það er því hægt að segja að þessar þrjár staðreyndir um margliður, eða alla vega þeir eiginleikar margliðna sem liggja að baki þeim, séu hluti ástæðunnar fyrir því að undirstöðusetningin er sönn. Þetta segir ekki alla söguna, því til eru sannanir sem byggja frekar á algebru, og nota hvorki vaxtarskilyrðið að ofan né einhverjar niðurstöður tvinnfallagreiningar. Þetta verður þó að nægja okkur, því það að ætla að fara í gegnum hverja einustu sönnun og átta sig á nákvæmlega hvaða eiginleika margliðanna og tvinntalnanna er verið að nota hverju sinni er efni í nokkuð stórt rannsóknarverkefni, sem tæki sennilega einhverja mánuði eða ár að ljúka. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Er mengi rauntalna hlutmengi í mengi tvinntalna? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Ögmund Jónsson.
- Er tölugildið af X margliða? eftir Þorstein Vilhjálmsson.
- Hvað eru heildun og deildun og hvernig nýtast þær í leik og starfi? eftir Kristínu Bjarnadóttur.