Al-Khowârizmî hét fullu nafni Abu Ja'far Mohammed ibn Mûsâ al-Khowârizmî, sem útleggja má sem faðir Ja'fars, Mohammed, sonur Moses, frá Khowârizm, en Khowârizm er nú borgin Khiva í Uzbekistan. Enska og alþjóðlega orðmyndin algorithm er nýleg, sennilega frá miðri tuttugustu öld, og er talin vera afbökun á algorism vegna misskilnings og ruglings við enska orðið arithmetic. Orðið hefur verið aðlagað betur að íslensku máli með því að breyta því í algrím, sem er hvorugkynsorð og beygist eins og rím. Annað íslenskt orð sömu eða svipaðrar merkingar er reiknirit. Af íslensku orðmyndunum er hér mælt með þeirri nýjustu, algrím. Eins og nánar er útskýrt hér þá er algrím forskrift eða lýsing sem segir hvernig leysa megi tiltekið reiknivandamál. Algrím fyrir dagatalsútreikninga, svokölluð fingrarím, voru lengi notuð bæði hérlendis og í öðrum löndum. Notkun þeirra krafðist ekki skriffæra því að menn reiknuðu á fingrum sér eins og nafnið bendir til. Á vefsíðum Almanaks Háskóla Íslands eru reglur um fingrarím, eftir Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðing. Þar kemur fram að Íslendingar stóðu löngum framarlega í fingrarímslistum og Jón Árnason Skálholtsbiskup afrekaði það um miðja átjándu öld, fyrstur manna að því er virðist, að semja og gefa út fingrarímsreglur(sjá mynd hér til hægri, smellið á myndina til að stækka hana) fyrir gregoríanska tímatalið. Tekið skal fram að orðin algrím og fingrarím eru óskyld og af mismunandi uppruna, svo að það er skemmtileg tilviljun að þau skuli ríma bæði í merkingu og hljóðan. Frekara lesefni af Vîsindavefnum:
- Hvað er algrím og hvernig nýtist það í tölvufræði? eftir Snorra Agnarsson
- Hvað felst í vandamálinu ,,P vs. NP''? eftir Erlend S. Þorsteinsson
- Hvert er upphaf algebru og hvenær barst hún til Evrópu? eftir Kristínu Bjarnadóttur
- Hvernig virkar auðkennislykill í heimabanka? eftir Marinó G. Njálsson