Auðkennislykillinn sem við notum í heimabönkum á Íslandi skiptir um tölu samkvæmt sérstöku kerfi í hvert skipti sem lykillinn er notaður.
Báðar tegundir lykla framkalla tölur samkvæmt ákveðnu kerfi. Hver tala á að vera einstök að því leyti að lykillinn velur hana aldrei aftur, og er hún tekin úr forreiknaðri talnaröð, sem einnig er geymd á miðlara. Miðlarinn tengir notandann svo við það upplýsingakerfi sem á í hlut, svo sem vefbanka, notendahugbúnað eða opnar aðgang að notendaumhverfi (til dæmis Windows). Við framköllun talnanna er notað algrím sem framkallar nokkurs konar slembitölu. Talan er þó ekki slembitala í þrengsta skilningi þar sem hún er framkölluð út frá völdu upphafsgildi en það er gildi sem gefið er algrími sem framkallar síðan slembitölur í röð. Slembitöluna er þess vegna hægt að kalla fram aftur, ef maður hefur algrímið og upphafsgildið. Þess háttar slembitölur eru kallaðar gervislembitölur (e. pseudorandom number). Þegar auðkennislykill er tekinn í notkun þarf notandinn fyrst að tengja sig við lykilinn gagnvart miðlaranum, það er að segja að láta miðlarann vita að hann muni nota þennan tiltekna lykil. Notandinn gefur þá upp auðkenni sitt, til dæmis kennitölu eða notandanafn. Síðan gefur hann upp auðkenni lykilsins sjálfs, sem er oftast raðnúmer hans eða eitthvað annað sem á eingöngu við einn tiltekinn lykil. Það segir miðlaranum til um hvaða talnaruna er byggð inn í lykilnn og miðlarinn býst þá við henni þegar notandinn tengist. Svo fær miðlarinn að vita hvar lykillinn er staddur í talnaröðinni. Því næst eru gefnar upp tvær tölur sem auðkennislykillinn framkallar hvora á eftir annarri til að miðillinn geti sannreynt að lykillinn og talnarunan eigi saman. Fleiri en einn lykill geta nefnilega framkallað sömu stöku töluna en ekki tvær eins tölur í röð. Eftir að þessu er lokið, er lykillinn tilbúinn til notkunar.
Hvað gerist ef notandinn slær inn ranga tölu? Slái notandinn inn ranga tölu, þá áttar miðlarinn sig á því að talan er ekki hluti af talnarunu viðkomandi auðkennislykils eða að minnsta kosti ekki á réttum stað í rununni. Innskráningu er hafnað og innskráningarferlið hefst upp á nýtt. Vanalega eru notendum gefnir nokkrir möguleika, oftast á bilinu 3 til 6, til að framkvæma innskráningu á réttan hátt. Sé ítrekað slegin inn röng tala, lokar miðlarinn fyrir aðgang. Þá þarf að tengja auðkennislykil upp á nýtt. Hvað gerist ef notandinn missir af tölu í rununni? Fyrir RSA-lykilinn gerist ekki neitt, þar sem tölurnar breytast jú á 60 sekúndna fresti og algrím miðlarans gerir ráð fyrir að fjölmargar tölur verði aldrei notaðar. Fyrir auðkennislykil bankanna ætti ekkert að gerast nema að hlaupið hafi verið yfir of margar tölur. Ef það gerist, þarf að samstilla lykilinn og miðlarann upp á nýtt á sama hátt og áður var lýst. Hvaða öryggishætta tengist notkun auðkennislykla bankanna? Helsta hættan, sem fylgir notkun lyklanna, er að einhver óviðkomandi komist yfir lykilinn, að óviðkomandi hafi tekist að tengja nýjan lykil við aðgang notanda eða að talnarunan hafi verið uppgötvuð. Allt eru þetta raunverulegar ógnir, en eru umtalsvert ólíklegri en að óviðkomandi hafi komist yfir notandanafn og aðgangsorð. Notkun auðkennislykla eykur því til muna öryggið, en það felst einnig meiri fyrirhöfn í henni. Á heimilum, þar sem til eru margir lyklar, eru alltaf einhverjar líkur á mistökum sem felast í því að rangur lykill er gripinn við innskráningu. Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Hvernig eru tölvur látnar velja sjálfar af hendingu milli nokkurra kosta? eftir Hjálmtý Hafsteinsson
- Hvað er algrím og hvernig nýtist það í tölvufræði? eftir Snorra Agnarsson
- Hvernig er orðið algrím til komið? eftir Snorra Agnarsson