Ef ég stend á tunglinu, í hvaða átt rís sólin? (Í austri, held ég eftir að hafa hugsað málið)Það er rétt að sólin rís í austri á tunglinu. Hins vegar gerist það miklu hægar en á jörðinni, þar sem einn sólarhringur á tunglinu er heill mánuður, eða 29,53 jarðardagar. Ástæðan er sú að tunglið snýr alltaf sömu hlið að jörðinni og snýst því einn hring um sjálft sig á sama tíma og það snýst einn hring um jörðina (sjá nánar í þessu svari eftir Stefán Inga Valdimarsson). Þetta sést best á myndinni. Þar sem tunglið snýr alltaf sömu hlið að jörðinni hefur það snúist hálfhring um sjálft sig á leiðinni frá A til E því að þá snýr það öfugt miðað við upphaflega stefnu. Þegar það er komið aftur á A hefur það þá snúist heilan hring. Við A er nótt á nærhlið tunglsins en einhvers staðar milli B og C rís sólin í austri ef við erum stödd á þeim stað á tunglinu sem er næstur jörðinni. Þeir sem gera sér vonir um morgunroða við sólarupprás eða kvöldroða við sólsetur á tunglinu munu verða fyrir vonbrigðum. Þessi fyrirbæri hér á jörð eiga upptök sín í lofthjúpi jarðar en á tunglinu er enginn lofthjúpur. Þess vegna er þar hvorki morgunroði né kvöldroði. Hins vegar er jörðin tilkomumikil og síbreytileg sjón frá tunglinu.
Sjá einnig:
Hvernig er staða sólar, jarðar og tungls á nýju tungli?
Er fullt tungl á sama tíma um allan heim?