Hvað er átt við þegar talað er um dökku hlið tunglsins? Er það eitthvað sem við sjáum aldrei frá jörðu?Þeir sem horfa reglulega með sjónauka á tunglið og virða fyrir sér yfirborð þess geta tekið eftir því að þeir sjá alltaf sömu mynd. Að vísu sjá þeir ekki alla myndina nema einu sinni í mánuði. Annars sjá þeir aðeins misstóran hluta myndarinnar - en ávallt sömu myndina vegna þess að tunglið snýr alltaf sömu hlið í átt að jörðu. Sú staðreynd að ekki er alltaf fullt tungl byggist á breytilegri afstöðu sólar, jarðar og tungls. Sólarljósið lýsir alltaf upp hálft tunglið en aðeins einu sinni í mánuði, við fullt tungl, getum við séð alla upplýstu hliðina af jörðu. Annars blasir við okkur hluti af upplýstu hliðinni og hluti þeirrar óupplýstu, sem við sjáum varla. Eðlilegt væri að skilja hugtakið "dökka hlið tunglsins" þannig að það vísaði á hverjum tíma til óupplýstu hliðarinnar vegna þess að þaðan kemur ekkert ljós. Þetta er þó vafasamt vegna þess að það er síbreytilegt á hvaða hlið tunglsins sólarljósið fellur. Ástæðuna fyrir því að við sjáum alltaf sömu hlið tunglsins (sú hlið sem við sjáum er kölluð nærhlið og hin fjærhlið) er að finna í þeim kröftum sem valda sjávarföllum. Rétt eins og tungl veldur sjávarföllum á jörð veldur jörðin sjávarföllum á tungli. Að vísu er ekkert vatn á tunglinu og þar veldur sjávarfallakrafturinn ekki flóði og fjöru eins og á jörðinni heldur togar hann í yfirborð tunglsins svo það bungar örlítið út. Sjávarföllin valda núningi þegar þessi bunga hreyfist eftir yfirborðinu og þess vegna eyða þau orku. Til þess að lágmarka þessa orkueyðslu snýr tunglið alltaf sömu hlið að jörðinni. Þannig hreyfast sjávarfallabylgjur ekki eftir yfirborði þess. Sjá nánar um sjávarföll í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvers vegna gætir sjávarfalla tvisvar á sólarhring? Sjávarföll vegna tungls valda líka núningi á jörðinni og til að lágmarka þau mun snúningstími jarðarinnar á endanum verða þannig að jörðin snýr alltaf sömu hlið að tunglinu. Ekki er nákvæmlega vitað hversu langur tími mun líða þangað til þessi staða kemur upp. Tunglið hefur hins vegar verið læst í svona stöðu mestan hluta þeirra 4,6 milljarða ára sem það hefur gengið um jörðina. Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt er í raun hægt að sjá meira en 50% af yfirborði tunglsins frá jörðinni vegna þess að braut tunglsins er ekki fullkominn hringur og vegna þess að brautin hallar aðeins miðað við jörðu. Því er í raun hægt að ná myndum af 59% tunglyfirborðsins af jörðu. Jaðrar þessarar myndar verða þó alltaf frekar óskýrir. Þeir hlutar tunglins sem ekki sjást frá jörðu voru órannsakanlegir þar til mönnum tókst að senda geimför á braut um tunglið. Þannig bárust fyrstu myndirnar af fjærhlið tunglsins til jarðar frá hinu ómannaða sovéska geimfari Luna 3 sem sent var til tunglsins árið 1959.
Hvað er átt við þegar talað er um dökku hlið tunglsins?
Útgáfudagur
26.7.2000
Spyrjandi
Örnólfur Lárusson
Tilvísun
Stefán Ingi Valdimarsson. „Hvað er átt við þegar talað er um dökku hlið tunglsins?“ Vísindavefurinn, 26. júlí 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=692.
Stefán Ingi Valdimarsson. (2000, 26. júlí). Hvað er átt við þegar talað er um dökku hlið tunglsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=692
Stefán Ingi Valdimarsson. „Hvað er átt við þegar talað er um dökku hlið tunglsins?“ Vísindavefurinn. 26. júl. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=692>.