Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig skrifar maður bók?

Rúnar Helgi Vignisson

Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:
Hvernig skrifar maður bók? Er einhver ein leið til, með punkta og þess háttar, eða er það bara 1. kafli og svo framvegis? Getið þið bent mér á eina góða leið?

Rithöfundar segja oft að þeir þurfi að finna upp hjólið í hvert skipti sem þeir skrifa nýja bók, sama hve mikla reynslu þeir hafa. Hver bók kalli á ný efnistök, nýtt form og ný vinnubrögð. Hér skiptir þó máli hvers konar bók ætlunin er að skrifa. Ljóðskáld ber sig öðruvísi að en ævisagnaritari eða fræðibókahöfundur.

Þegar bandaríski Nóbelsverðlaunahöfundurinn William Faulkner hóf að skrifa bókina Ljós í ágúst vissi hann að sögn það eitt að ung barnshafandi kona var á göngu eftir sveitavegi. Þrátt fyrir það varð til stór og margslungin skáldsaga sem er gjarnan talin til höfuðverka í bandarískri sagnagerð á 20. öld. Faulkner virðist því hafa spunnið söguna áfram, hvern kaflann af öðrum, þar til heildarmynd var komin á verkið. Þannig vinna margir höfundar, þeir vita ekki hvernig sögunni mun vinda fram og mæta því spenntir til vinnu á hverjum degi: Hvaða hugmynd skyldi ég fá í dag? Í því felst að þeir nýta sér þá sköpun sem felst í ritunarferlinu í stað þess að skrifa inn í fyrirframgefið skapalón.

Mynd tekin í ágúst 1935 af ungri stúlku í Lauderdale-sýslu í Mississippi. Bókin Ljós í ágúst eftir William Faulkner kom út þremur árum fyrr og sögusviðið er skáldaða sýslan Yoknapatawpha í Mississippi.

Aðrir byrja ekki á bók fyrr en þeir hafa góða hugmynd um hvað eigi að standa í henni, hvernig hún eigi að vera byggð upp og hvernig henni eigi að ljúka. Ef við tökum skáldsögu sem dæmi þá vilja höfundar sem beita þeirri aðferð vita um hvað sagan eigi að snúast, hvernig atburðarásin eigi að vera í henni, hvers konar persónur eigi að vera í aðalhlutverkum og hvernig andrúmsloft eigi að ríkja í henni. Þetta á gjarnan við um spennusagnahöfunda. Yrsa Sigurðardóttir hefur til dæmis lýst því í blaðaviðtali að hún ákveði hvernig upphafið og endirinn eigi að vera áður en hún byrjar að skrifa. „Til þess að hafa góða yfirsýn set ég atburðarásina upp í Excel-töflu,“ segir hún. Þessi aðferð er árangursrík fyrir marga en sumir sem beita henni eru þó tilbúnir að breyta töflunni ef enn betri hugmynd kviknar þegar á hólminn er komið.

Um leið og höfundur byrjar á bók þarf hann að ákveða hver lesendahópurinn eigi að vera. Það skiptir máli hvort skrifað er fyrir börn eða fullorðna, almenning eða sérfróða, Íslendinga eða útlendinga. Bókmenntagreinin sem skrifað er inn í hefur síðan áhrif á skrifin líka, þær hefðir sem tilheyra tiltekinni bókmenntagrein geta ósjálfrátt beint skrifunum í ákveðinn farveg en reyndar getur höfundurinn einnig haft sín áhrif á bókmenntagreinina, látið reyna á þanþol hennar. Form smásögunnar er til dæmis býsna mótað og kallar á ákveðnar væntingar. Þó með öðrum hætti sé er fræðirit enn fastara í forminu, þar er gerð stíf krafa um ákveðna uppbyggingu, ákveðna tóntegund og viðurkenndan frágang heimilda. Svo eru að verða til ný bókmenntaform í seinni tíð, til dæmis í gegnum samfélagsmiðla; margir lesa Facebook á hverjum degi, hafa hana jafnvel með sér upp í rúm, og að henni eru margir höfundar.

Annað sem þarf að ákveða, og gerist stundum ómeðvitað, er hvaða frásagnaraðferð eigi að nota. Á að segja söguna í fyrstu, annarri eða þriðju persónu? Hversu fyrirferðarmikill á sögumaðurinn að vera? Í hvaða tón á hann að tala? Á hann að fara með veggjum eða hrópa á torgum? Í fræðilegum skrifum er sögumaðurinn iðulega látinn tala í hlutlægum tóni, eins og trúverðugur sérfræðingur. En auðvitað er alltaf einhver vitund að baki hverjum texta, sama í hvaða gervi hún bregður sér.

Eitt af því sem fylgir bókaskrifum er óvissa, höfundurinn reynir fyrir sér með eitt og annað og er á tíðum fullur efasemda um að honum takist ætlunarverk sitt. Efasemdir geta þó verið af hinu góða því að þær kveikja spurningar og spurningar fá mann til að hugsa.

Eitt af því sem fylgir bókaskrifum er óvissa, höfundurinn reynir fyrir sér með eitt og annað og er á tíðum fullur efasemda um að honum takist ætlunarverk sitt. Efasemdir geta þó verið af hinu góða því að þær kveikja spurningar og spurningar fá mann til að hugsa. Um að gera að halda sig að verki, hafa hugann við verkið daglega til að tryggja að hann haldist í sköpunargír og hugmyndirnar flæði greiðlegar. Ef mikið rof verður í ritunarferlinu er hætta á að höfundur missi tengslin við handritið og vaxi jafnvel frá því. Þegar uppkast er komið getur hins vegar verið gott að leggja handritið frá sér í nokkrar vikur eða mánuði og koma síðan með fersk augu að því aftur. Þá sést oft hvað má betur fara.

Ef ætlunin er að skrifa bók sem byggir á heimildum þarf að vinna mikla undirbúningsvinnu áður en ritstörf hefjast. Sumum hættir til að festast í heimildavinnunni og ná ekki að hefja skrif fyrr en seint og um síðir og komast þá jafnvel að því að heimildirnar eru óþarflega viðamiklar. Ef grunur er um slíkan vanda gæti verið gott að setja sér að byrja að skrifa eftir ákveðinn tíma og afla heimilda að hluta til meðfram skrifunum. Stundum skrifa menn svokallaðar sannsögur (e. creative nonfiction) þar sem þeir gera ákveðna tilraun á sjálfum sér og setja hana fram í söguformi, kona klæðir sig til dæmis upp sem karlmann og skrifar svo um þá reynslu. Í slíkum tilfellum getur tilraunin staðið yfir í langan tíma en auðvitað hripa menn hjá sér minnispunkta á leiðinni, halda jafnvel ítarlegar dagbækur. Ferðasögur eru af svipuðum meiði, þá þarf höfundurinn að ferðast um svæðið sem hann fjallar um og færa þá reynslu yfir á blaðið, nýta jafnvel sjálfan sig sem persónu til þess að spegla það sem ber fyrir augu.

Ekki er óalgengt að bækur verði til fyrir eins konar tilviljun, höfundur sjái til dæmis tengingar á milli ritsmíða sem í fyrstu virtust óskyldar. Þá getur það gerst að lokakaflinn sé jafnvel skrifaður fyrstur en upphafið síðast. Oft kemur líka fyrir að höfundar skrifa sig frá upprunalegu hugmyndinni, hún umbreytist í ferlinu, og þá verður nauðsynlegt að umrita upphafið eða skera það niður. Margir rithöfundar hafa líka lýst því að þeir hafi orðið að henda uppkasti og byrja upp á nýtt, jafnvel án þess að hafa upphaflega handritið til hliðsjónar. Sumar bækur eru langar í frumdrögum en eru síðan skornar töluvert niður í eftirvinnslunni, rétt eins og þegar kvikmynd er klippt, aðrar lengjast og dýpka. Á lokametrunum getur glöggur ritstjóri eða yfirlesari gert gæfumuninn; góð bók er sjaldnast eins manns verk.

Heimildir:

Myndir:

Höfundur

Rúnar Helgi Vignisson

rithöfundur, þýðandi og prófessor í ritlist

Útgáfudagur

23.6.2016

Síðast uppfært

18.12.2017

Spyrjandi

Garðar Hafsteinsson

Tilvísun

Rúnar Helgi Vignisson. „Hvernig skrifar maður bók?“ Vísindavefurinn, 23. júní 2016, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=12262.

Rúnar Helgi Vignisson. (2016, 23. júní). Hvernig skrifar maður bók? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=12262

Rúnar Helgi Vignisson. „Hvernig skrifar maður bók?“ Vísindavefurinn. 23. jún. 2016. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=12262>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig skrifar maður bók?
Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:

Hvernig skrifar maður bók? Er einhver ein leið til, með punkta og þess háttar, eða er það bara 1. kafli og svo framvegis? Getið þið bent mér á eina góða leið?

Rithöfundar segja oft að þeir þurfi að finna upp hjólið í hvert skipti sem þeir skrifa nýja bók, sama hve mikla reynslu þeir hafa. Hver bók kalli á ný efnistök, nýtt form og ný vinnubrögð. Hér skiptir þó máli hvers konar bók ætlunin er að skrifa. Ljóðskáld ber sig öðruvísi að en ævisagnaritari eða fræðibókahöfundur.

Þegar bandaríski Nóbelsverðlaunahöfundurinn William Faulkner hóf að skrifa bókina Ljós í ágúst vissi hann að sögn það eitt að ung barnshafandi kona var á göngu eftir sveitavegi. Þrátt fyrir það varð til stór og margslungin skáldsaga sem er gjarnan talin til höfuðverka í bandarískri sagnagerð á 20. öld. Faulkner virðist því hafa spunnið söguna áfram, hvern kaflann af öðrum, þar til heildarmynd var komin á verkið. Þannig vinna margir höfundar, þeir vita ekki hvernig sögunni mun vinda fram og mæta því spenntir til vinnu á hverjum degi: Hvaða hugmynd skyldi ég fá í dag? Í því felst að þeir nýta sér þá sköpun sem felst í ritunarferlinu í stað þess að skrifa inn í fyrirframgefið skapalón.

Mynd tekin í ágúst 1935 af ungri stúlku í Lauderdale-sýslu í Mississippi. Bókin Ljós í ágúst eftir William Faulkner kom út þremur árum fyrr og sögusviðið er skáldaða sýslan Yoknapatawpha í Mississippi.

Aðrir byrja ekki á bók fyrr en þeir hafa góða hugmynd um hvað eigi að standa í henni, hvernig hún eigi að vera byggð upp og hvernig henni eigi að ljúka. Ef við tökum skáldsögu sem dæmi þá vilja höfundar sem beita þeirri aðferð vita um hvað sagan eigi að snúast, hvernig atburðarásin eigi að vera í henni, hvers konar persónur eigi að vera í aðalhlutverkum og hvernig andrúmsloft eigi að ríkja í henni. Þetta á gjarnan við um spennusagnahöfunda. Yrsa Sigurðardóttir hefur til dæmis lýst því í blaðaviðtali að hún ákveði hvernig upphafið og endirinn eigi að vera áður en hún byrjar að skrifa. „Til þess að hafa góða yfirsýn set ég atburðarásina upp í Excel-töflu,“ segir hún. Þessi aðferð er árangursrík fyrir marga en sumir sem beita henni eru þó tilbúnir að breyta töflunni ef enn betri hugmynd kviknar þegar á hólminn er komið.

Um leið og höfundur byrjar á bók þarf hann að ákveða hver lesendahópurinn eigi að vera. Það skiptir máli hvort skrifað er fyrir börn eða fullorðna, almenning eða sérfróða, Íslendinga eða útlendinga. Bókmenntagreinin sem skrifað er inn í hefur síðan áhrif á skrifin líka, þær hefðir sem tilheyra tiltekinni bókmenntagrein geta ósjálfrátt beint skrifunum í ákveðinn farveg en reyndar getur höfundurinn einnig haft sín áhrif á bókmenntagreinina, látið reyna á þanþol hennar. Form smásögunnar er til dæmis býsna mótað og kallar á ákveðnar væntingar. Þó með öðrum hætti sé er fræðirit enn fastara í forminu, þar er gerð stíf krafa um ákveðna uppbyggingu, ákveðna tóntegund og viðurkenndan frágang heimilda. Svo eru að verða til ný bókmenntaform í seinni tíð, til dæmis í gegnum samfélagsmiðla; margir lesa Facebook á hverjum degi, hafa hana jafnvel með sér upp í rúm, og að henni eru margir höfundar.

Annað sem þarf að ákveða, og gerist stundum ómeðvitað, er hvaða frásagnaraðferð eigi að nota. Á að segja söguna í fyrstu, annarri eða þriðju persónu? Hversu fyrirferðarmikill á sögumaðurinn að vera? Í hvaða tón á hann að tala? Á hann að fara með veggjum eða hrópa á torgum? Í fræðilegum skrifum er sögumaðurinn iðulega látinn tala í hlutlægum tóni, eins og trúverðugur sérfræðingur. En auðvitað er alltaf einhver vitund að baki hverjum texta, sama í hvaða gervi hún bregður sér.

Eitt af því sem fylgir bókaskrifum er óvissa, höfundurinn reynir fyrir sér með eitt og annað og er á tíðum fullur efasemda um að honum takist ætlunarverk sitt. Efasemdir geta þó verið af hinu góða því að þær kveikja spurningar og spurningar fá mann til að hugsa.

Eitt af því sem fylgir bókaskrifum er óvissa, höfundurinn reynir fyrir sér með eitt og annað og er á tíðum fullur efasemda um að honum takist ætlunarverk sitt. Efasemdir geta þó verið af hinu góða því að þær kveikja spurningar og spurningar fá mann til að hugsa. Um að gera að halda sig að verki, hafa hugann við verkið daglega til að tryggja að hann haldist í sköpunargír og hugmyndirnar flæði greiðlegar. Ef mikið rof verður í ritunarferlinu er hætta á að höfundur missi tengslin við handritið og vaxi jafnvel frá því. Þegar uppkast er komið getur hins vegar verið gott að leggja handritið frá sér í nokkrar vikur eða mánuði og koma síðan með fersk augu að því aftur. Þá sést oft hvað má betur fara.

Ef ætlunin er að skrifa bók sem byggir á heimildum þarf að vinna mikla undirbúningsvinnu áður en ritstörf hefjast. Sumum hættir til að festast í heimildavinnunni og ná ekki að hefja skrif fyrr en seint og um síðir og komast þá jafnvel að því að heimildirnar eru óþarflega viðamiklar. Ef grunur er um slíkan vanda gæti verið gott að setja sér að byrja að skrifa eftir ákveðinn tíma og afla heimilda að hluta til meðfram skrifunum. Stundum skrifa menn svokallaðar sannsögur (e. creative nonfiction) þar sem þeir gera ákveðna tilraun á sjálfum sér og setja hana fram í söguformi, kona klæðir sig til dæmis upp sem karlmann og skrifar svo um þá reynslu. Í slíkum tilfellum getur tilraunin staðið yfir í langan tíma en auðvitað hripa menn hjá sér minnispunkta á leiðinni, halda jafnvel ítarlegar dagbækur. Ferðasögur eru af svipuðum meiði, þá þarf höfundurinn að ferðast um svæðið sem hann fjallar um og færa þá reynslu yfir á blaðið, nýta jafnvel sjálfan sig sem persónu til þess að spegla það sem ber fyrir augu.

Ekki er óalgengt að bækur verði til fyrir eins konar tilviljun, höfundur sjái til dæmis tengingar á milli ritsmíða sem í fyrstu virtust óskyldar. Þá getur það gerst að lokakaflinn sé jafnvel skrifaður fyrstur en upphafið síðast. Oft kemur líka fyrir að höfundar skrifa sig frá upprunalegu hugmyndinni, hún umbreytist í ferlinu, og þá verður nauðsynlegt að umrita upphafið eða skera það niður. Margir rithöfundar hafa líka lýst því að þeir hafi orðið að henda uppkasti og byrja upp á nýtt, jafnvel án þess að hafa upphaflega handritið til hliðsjónar. Sumar bækur eru langar í frumdrögum en eru síðan skornar töluvert niður í eftirvinnslunni, rétt eins og þegar kvikmynd er klippt, aðrar lengjast og dýpka. Á lokametrunum getur glöggur ritstjóri eða yfirlesari gert gæfumuninn; góð bók er sjaldnast eins manns verk.

Heimildir:

Myndir:

...