Þetta er allt saman allt öðruvísi með Ísland sem er eyja úti í miðju Atlantshafi. Ísland sést ekki frá neinu öðru landi og þess vegna var dálítill vandi að finna það og enn þá erfiðara að sigla yfir hafið og koma á reglubundinni umferð til þess að menn gætu búið hér. Þetta gerðist líka á sögulegum tíma sem kallað er, það er að segja eftir að menn höfðu lært að lesa og skrifa og þess vegna eru til skrifaðar heimildir um mennina sem fóru fyrstir til Íslands og við getum nefnt þá með nafni (Naddoður, Garðar Svavarsson, Hrafna-Flóki, Ingólfur Arnarson). Kannski er svolítið fróðlegt að bera þetta saman við heimsálfuna Ameríku. Sumir segja að Kólumbus hafi fundið Ameríku árið 1492 af því að hann sigldi þangað og steig þar á land fyrstur Evrópumanna að því er þá var almennt talið í Evrópu. Svo koma Íslendingar og aðrir Norðurlandabúar og halda því fram að Leifur heppni hafi verið langt á undan Kólumbusi, næstum fimm hundruð árum, en hins vegar vissi enginn utan Norðurlandanna um það sem hann hafði fundið. En hvorki Kólumbus né Leifur heppni voru fyrstu mennirnir í Ameríku því að Indíánar og Ínúítar höfðu búið þar löngu, löngu á undan og meira að segja byggt þar upp merkileg menningarríki. Þess vegna er í rauninni ekkert frekar hægt að segja til um hver fann Ameríku heldur en hver fann Danmörku. Það er bara hægt að reyna að segja til um hvaða nafngreindur Evrópumaður kom fyrstur til Ameríku. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Ingólfur Arnarson á að hafa fundið Ísland en hafði enginn komið til Íslands áður? eftir ÞV
- Hvers vegna er heiminum kennt að Kólumbus hafi fundið Ameríku þegar Leifur Eiríksson kom þangað fyrstur? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvor var á undan að finna Ameríku, Leifur heppni eða Bjarni Herjólfsson? eftir Gunnar Karlsson