Þessar sömu heimildir segja líka frá því að nokkrir nafngreindir norrænir menn, svo sem Naddoður, Garðar Svavarsson og Hrafna-Flóki, hafi komið til Íslands. Einhver þeirra væri þess vegna betur að því kominn að teljast hafa fundið Ísland fyrstur. Auk þess er sérstaklega fjallað um Náttfara, sem var þræll Garðars Svavarssonar samkvæmt heimildum og settist hér að, í svari Helga Þorlákssonar við spurningunni Hvers vegna hefur Náttfara ekki verið hampað sem fyrsta landnámsmanninum?. Hins vegar er í reynd sjaldan talað um einhvern tiltekinn mann sem eigi að hafa fundið Ísland fyrstur. Ástæðan til þess er öðru fremur sú að erfitt er að nefna slíkan mann með góðum rökum. Við gerum ráð fyrir að Papar, það er að segja írskir munkar, hafi verið hér á undan norrænum mönnum og kannski hafa Norðurlandabúar frétt af landinu frá þeim. Auk þess er ekki lengra frá Færeyjum til Íslands en svo að menn hlutu að verða varir við land í norðvestri frá Færeyjum eftir að varanleg byggð hófst þar upp úr 800. Hins vegar bendir ekkert til þess að sá sem þannig fann Ísland fyrstur verði nokkurn tímann nafngreindur. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver gaf Íslandi það nafn? eftir Vigni Má Lýðsson
- Hvers vegna er Ingólfur Arnarson talinn fyrsti landnámsmaðurinn þegar Papar og fleiri menn fundu Ísland á undan honum? eftir JGÞ
- Hvaða vitneskju höfðu erlendar þjóðir um Ísland fyrir landafundi norrænna manna? eftir Gísla Gunnarsson
- Wikipedia.is. Sótt 4.8.2010.