Eru til einhverjar sannanir fyrir því að vitsmunalíf þrífist úti í alheimnum? (Hinrik Bergs) Hvers vegna er talið að það sé ekkert líf í þessu sólkerfi nema á jörðinni? (Árný Yrsa) Hvaða rök hafið þið fyrir því að það sé alls engin lífvera á Mars eða einhverjum öðrum plánetum í sólkerfinu þegar það er ekki búið að rannsaka allar pláneturnar alveg? (Karitas Helga) Hvers vegna er sagt að ekki sé líf á öðrum plánetum? (Jón Auðunn Haraldsson) Eru til aðrar lífverur á öðrum hnöttum? (Harpa Rún Eysteinsdóttir)Við vitum ekki glöggt hverjir halda því fram að alls ekki geti verið líf á öðrum hnöttum. Raunvísindamenn gera yfirleitt fyllilega ráð fyrir þeim möguleika þó að ekki hafi ennþá fundist skýr merki um líf utan jarðar. Aðstandendur Vísindavefsins eru sömu skoðunar og hafa sett hana fram í nokkrum svörum hér á vefnum. Ef einhverjir hópar manna telja sig vita að hvergi sé líf úti í geimnum, þá gæti verið að það tengdist einhverjum tilteknum trúarbrögðum. Slík afstaða er hins vegar engan veginn vísindaleg því að vísindin forðast einmitt að fullyrða eitthvað um það sem ekki er vitað á hverjum tíma. Margir virðast halda að vísindamenn almennt telji einhvern veginn fyrir fram útilokað að líf sé úti í geimnum. Þetta kann að stafa af því að vísindamenn benda statt og stöðugt á þá staðreynd að örugg merki um þetta líf hafa enn ekki fundist og neita að taka mark á sögusögnum eða óstaðfestum fregnum þar að lútandi. Þessu má þó alls ekki rugla saman við þá fullyrðingu að líf sé alls ekki til í geimnum eða að það muni aldrei finnast! Þess konar fullyrðing er víðs fjarri flestum vísindamönnum.
Hvers vegna er sagt að ekki sé líf á öðrum hnöttum?
Útgáfudagur
12.11.2000
Spyrjandi
Ólafur Gíslason, fæddur 1981
Tilvísun
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna er sagt að ekki sé líf á öðrum hnöttum?“ Vísindavefurinn, 12. nóvember 2000, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1121.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 12. nóvember). Hvers vegna er sagt að ekki sé líf á öðrum hnöttum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1121
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna er sagt að ekki sé líf á öðrum hnöttum?“ Vísindavefurinn. 12. nóv. 2000. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1121>.