Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið er já.
Málið er þó ekki svona einfalt. Í rannsókn sem gerð var á handahófsvöldu úrtaki ungs fólks 20-44 ára á Reykjavíkursvæðinu (n= 545) árið 1990 töldu 77 (14%) að þeir væru með lyfjaofnæmi. Við nánari eftirgrennslan fækkaði þó í hópnum. Það náðist ekki í alla, en 51 staðfestu lyfjaofnæmi og af þeim nefndu 34 sýklalyf sem orsök. Samkvæmt því töldu að minnsta kosti 6,2% að þeir væru með sýklalyfjaofnæmi. Sá hópur sem taldi sig með lyfjaofnæmi skar sig að því leyti frá hinum að konur voru í miklum meirihluta (69%). Þessi hópur var líka oftar með ofnæmi fyrir loftbornum ofnæmisvökum, hafði oftar ofnæmiseinkenni í nefi, hafði oftar sögu um exem eða ofsakláða og varð oftar illt af ákveðinni fæðu.[1]
Þetta bendir til þess að víðtæk viðkvæmni einkenni þá sem telja sig með lyfjaofnæmi. Þegar mið er tekið af áðurnefndri rannsókn má gera ráð fyrir því að allt að 20.000 manns telji sig hafa sýklalyfjaofnæmi hér á landi, og það er ekki einfalt mál að rannsaka þá alla. Reynslan er þó sú að af þeim sé aðeins um tíundi hver með ofnæmi þegar betur er að gáð.
Útbrot geta verið eitt af einkennum lyfjaofnæmis.
Fyrir allnokkrum árum skrifaði höfundur ásamt fleirum grein í Læknablaðið um ofnæmi fyrir beta-lactam lyfjum. Þar var birt flæðiskema um það hvernig rannsaka beri sjúklinga þar sem grunur er um þetta ofnæmi.[2] Beta-lactam lyf er mikilvægur lyfjaflokkur og því sjálfsagt að rannsaka alla sem grunaðir eru um ofnæmi fyrir honum nema einkennin bendi til þess að hættulegt sé að gera slíka rannsókn. Það á við um sjaldgæf en mjög alvarleg ofnæmiseinkenni svo sem blöðrumyndun í húð, truflun í beinmerg, æðabólgu og rauðkyrningabólgur.[3] Alla slíka sjúklinga ætti að merkja með MedicAlert-merki án frekari rannsókna.
Beta-lactam lyf eru, líkt og mörg önnur lyf, of smáar sameindir til að vekja mótefnasvar, en þau bindast öðrum sameindum í líkamanum og geta þá kallað fram ofnæmi. Ofnæmissvarið getur verið vessabundið eða T-frumumiðlað og getur því verið af öllum gerðum ofnæmisviðbragða, þótt langoftast sé um bráðaofnæmi að ræða, sem miðlað er af svonefndum sértækum IgE-mótefnum. Það sem er sameiginlegt öllum beta-lactam lyfjum er β-lactam hringur í efnaformúlu þessara lyfja, samsettur af þremur kolefnisatómum og einu köfnunarefnisatómi (sjá mynd hér fyrir neðan). Penisillín hafa einnig í sinni formúlu svonefndan thiazolidine-hring, og saman nefnast þessir hringir 6-aminopenisillínsýru-kjarni (6-APS). Auk penisillíns eru cephalosporin, carbapenem, monobactam og carbacephem beta-lactam lyf.
Penisillín- og cephalósporín sameindir og tengingar við prótín, sem mynda mismunandi mótefnavaka.
Við efnahvörf opnast beta-lactam hringurinn, tengist prótínsameindum og myndar penisilloýl-sameind. Um 95% þess penisillíns sem bundið er í vefjunum er í þessu formi og kallast því aðalafleiður eða 'major antigenic determinant'. Hliðarkeðjur þessara lyfja geta einnig tengst prótínum og mynda sameindir sem kallast aukaafleiður (penicilloate eða minor antigen determinants). Þar sem sumar þessara sameinda geta verið sameiginlegar milli beta-lactam lyfja er krossofnæmi mögulegt milli lyfja með svipaðar hliðarkeðjur. Í eina tíð trúðu menn því að krossofnæmi milli penisillíns og cephalaosporín-lyfja væri allt að 10%, en það er nú miklu sjaldgæfara og getur fyrst og fremst komið fyrir í eldri cephalosporin-lyfjum svo sem Keflex og Kefzol. Það er talið ósennilegt fyrir yngri lyf eins og Zinacef, Rocephalín og Fortun. Það er því varla ástæða til að prófa fyrir þessum lyfjum hjá þeim sem reynst hafa jákvæðir fyrir penisillíni.[4] Hins vegar er skynsamlegt að prófa fyrir penisillíni hjá öllum sem reynst hafa með ofnæmi fyrir öðrum beta-lactam lyfjum.
Spurning um sýklalyfjaofnæmi kemur yfirleitt fyrst til kasta heimilislæknis eða læknis sjúklingsins á sjúkrahúsi. Þá er afar mikilvægt að öll skráning sé nákvæm. Um hvaða lyf er að ræða og hvers vegna var það gefið? Hvað var sjúklingurinn búinn að taka það lengi og hvenær fékk hann síðustu lyfjagjöf miðað við fyrstu ofnæmiseinkenni? Hver voru ofnæmiseinkennin? Einnig er mikilvægt að vita til hvaða ráðstafana var gripið og hvernig einkennin þróuðust. Hafa ber í huga að hafi sjúklingurinn verið með einkirningasótt þegar hann fékk penisillín eru miklar líkur á að það skýri útbrotin. Yfirleitt er sjúklingurinn, eða fylgdarmaður hans, með farsíma á sér og getur tekið myndir af útbrotum sem segja meira en mörg orð.
Hægt er að mæla sértæk IgE-mótefni í sermi fyrir penisillíni sem segja til um bráðaofnæmi. Sértækni þessara prófa er mjög góð og ef þau eru jákvæð er gengið út frá því að sjúklingurinn sé með penisillín-ofnæmi. Líði langur tími frá því einkennin komu fram og þar til rannsóknin er gerð er hætt við að ofnæmismótefnin hafi minnkað eða jafnvel horfið úr sermi sjúklingsins. Þess vegna er heppilegt að sjúklingurinn komi fljótlega til rannsóknar og besti tíminn er 1-3 mánuðum eftir að ætluð ofnæmsviðbrögð áttu sér stað.
Rannsókn á ofnæmi fyrir beta-lactam lyfjum er vel þróuð og fylgir ákveðnum reglum. Þegar um er að ræða grun um ofnæmi fyrir öðrum sýklalyfjum verður að meta það í hverju einstöku tilfelli hvort það sé líklegt að rannsóknin komi sjúklingnum að notum eða hvort hún feli í sér áhættu sem ekki sé rétt að taka.
Þeir sem vilja kynna sér málið betur skal bent á greinina í Læknablaðinu um ofnæmi fyrir beta-lactam lyfjum.
Tilvísanir:
Davíð Gíslason. „Þarf að rannsaka mann betur ef grunur leikur á að maður hafi ofnæmi fyrir sýklalyfjum?“ Vísindavefurinn, 23. maí 2019, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=11026.
Davíð Gíslason. (2019, 23. maí). Þarf að rannsaka mann betur ef grunur leikur á að maður hafi ofnæmi fyrir sýklalyfjum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=11026
Davíð Gíslason. „Þarf að rannsaka mann betur ef grunur leikur á að maður hafi ofnæmi fyrir sýklalyfjum?“ Vísindavefurinn. 23. maí. 2019. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=11026>.