Við ræsingu notendaforrits hleður stýrikerfið því fyrst inn í minni tölvunnar og síðan þarf það að láta örgjörvann keyra skipanirnar sem mynda forritið. Á hverjum tíma eru mörg forrit í keyrslu á tölvunni, þar með talið stýrikerfið sjálft! Hægt er að sjá hvaða forrit eru í keyrslu í MS Windows-stýrikerfinu með því að keyra upp verkstjórann (e. Task Manager). Hægt er að opna hann með því að hægrismella á valröndina neðst á skjánum og velja Task Manager. Í Linux heitir sambærilegt forrit System Monitor eða System Guard. Hvert forrit, eða verk (e. process), fær aðgang að örgjörvanum í tiltekinn tíma, algeng tímalengd er 10 millisekúndur, það er einn hundraðasti úr sekúndu. Það er verkraðari (e. scheduler) sem ræður því hvaða verk fær næst aðgang að örgjörvanum. Verkraðarinn er hluti af kjarnanum (e. kernel) sem er innsti og mikilvægasti hluti stýrikerfisins. Kjarninn sér um úthlutun minnis, aðgang að örgjörvanum, samskipti milli verka og ýmislegt fleira. Snúum okkur aftur að Firefox-vafranum sem er nú að hefja keyrslu. Það er búið að hlaða keyrsluskránni inn í minni og forritið (verkið) hefur fengið aðgang að örgjörvanum. Þá þarf það ýmsa þjónustu frá stýrikerfinu. Forritið þarf að tengjast við Internetið og það þarf einnig að fá úthlutað meira minni til að geta geymt vefsíður og myndir sem það mun hlaða niður. Það eru því ekki síður notendaforritin en mannlegir notendur tölvunnar sem nota stýrikerfið. Þetta útskýrir hvers vegna ekki er hægt að taka forrit sem er skrifað fyrir MS Windows og keyra það á Linux. Flest ólík stýrikerfi nota mismunandi aðferðir við að láta forrit biðja um minni, ná í gögn á harða diskinn og til að sýna niðurstöður á skjánum. Þannig þarf oftast að endurskrifa stóra hluta af forritinu til að það virki á öðru stýrikerfi. Þetta er væntanlega ástæðan fyrir því að Microsoft hefur verið frekar tregt til að umskrifa Office-forritin fyrir önnur stýrikerfi, til dæmis Mac OS.
Kröfurnar sem gerðar eru til stýrikerfa í dag eru mjög miklar. Þegar við stingum USB-minnislykli í tölvuna okkar ætlumst við til þess að stýrikerfið skynji það og leyfi okkur að vinna með minnislykilinn eins og hann væri harður diskur, þó að hann sé byggður á allt annarri tækni og geymi gögnin á allt annan hátt en harðir diskar. Sömuleiðis ætlumst við til þess að stýrikerfið geti á auðveldan hátt tengst við Internetið, hvort sem við erum tengd með netkapli við staðarnet eða við þráðlaust net heima hjá okkur eða í skólanum. Við viljum einnig geta haft mörg forrit opin samtímis og jafnvel verið að vinna í þeim sitt á hvað. Allt þetta krefst flókins hugbúnaðar sem bregst skynsamlega við ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Það er því augljóslega ekki hrist fram úr erminni að skrifa stýrikerfi frá grunni. Einn þeirra sem hefur þó gert það er finnski tölvunarfræðingurinn Linus Torvalds, sem skrifaði fyrstu útgáfuna af Linux-stýrikerfinu árið 1991. Sú útgáfa var þó mjög frumstæð og hafði fáa af þeim eiginleikum sem við ætlumst nú til að stýrikerfi hafi. Linux hefur síðan smátt og smátt verið endurbætt. Þúsundir sjálfboðliða hafa tekið þátt í þessum endurbótum og er jafnvel talið að Linus Torvalds eigi aðeins um 2% af kóðanum sem myndar kjarna Linux-stýrikerfisins. Sama má segja um stýrikerfin frá Microsoft. Þeirra fyrsta stýrikerfi, MS-DOS, var upphaflega skrifað af einum manni, Tim Paterson, en Microsoft keypti það af honum og endurbætti það smátt og smátt. En Microsoft hefur endurskrifað allan stýrikerfiskóðann oftar en einu sinni. Það er talið að yfir 1000 forritarar hjá Microsoft hafi tekið þátt í að skrifa nýjasta stýrikerfið þeirra, Windows 7. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver eru aðalstýrikerfin í tölvum í dag? eftir EÖÞ og ÞV
- Hvað er UNIX? eftir Erlend S. Þorsteinsson
- Hver eru einkenni stýrikerfa með myndrænu notendaviðmóti? eftir Ebbu Þóru Hvannberg
- Væri hægt að búa til einfaldara og notendavænna stýrikerfi fyrir tölvur ef gömlum hug- og vélbúnaði væri hent? eftir Bergþór Jónsson
- Hvað er tölva? eftir Hjálmtý Hafsteinsson
- Hvað er POSIX? eftir Hjálmtý Hafsteinsson
- Wikipedia.com - Windows 7. Sótt 19.7.2010.
- Wikipedia.com - Mac OS X. Sótt 19.7.2010.