Eru ekki til fleiri stýrikerfi en Linux og Windows?Ef við skoðum hvaða stýrikerfi gestir Vísindavefsins nota kemur í ljós að Windows stýrikerfið hefur mikla yfirburði í vinsældum. Af um 4400 gestum vikuna 6. - 12. janúar nota 94,5% einhverja útgáfu af Windows stýrikerfi, 2,5% gesta nota Linux og jafn stórt hlutfall notar MacOS sem er gert fyrir Macintosh-tölvur. Hálft prósent notar svo önnur eða óþekkt stýrikerfi.
Það má því segja að Windows, Linux og MacOS séu þau stýrikerfi sem kalla má aðalstýrikerfin í dag. Þó eru til mun fleiri stýrikerfi, en flest eru þau sérhæfðari og ekki í mikilli almennri notkun. Má þar nefna FreeBSD, IRIX, Solaris, HP-UX og QNX RTOS. Einnig má geta þess að til eru nokkrar mismunandi útgáfur af Windows, svo sem Windows 2000, Millennium og XP, og einnig af Linux og MacOS. Þá má nefna til gamans að mörg og ólík stýrikerfi hafa komið við sögu í vinnslu Vísindavefsins ásamt mismunandi tölvum. Vinnan við hann fer öll fram með vafraforritum sem eru að miklu leyti óháð vélartegund. Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Hvað er UNIX? eftir Erlend S. Þorsteinsson
- Væri hægt að búa til einfaldara og notendavænna stýrikerfi fyrir tölvur ef gömlum hug- og vélbúnaði væri hent? eftir Bergþór Jónsson
- Hver eru einkenni stýrikerfa með myndrænu notendaviðmóti? eftir Ebbu Þóru Hvannberg