Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ég geri ráð fyrir að þú sért að velta fyrir þér hvaða einstök spurning af öllum þeim, sem menn hafa raunverulega glímt við, sé erfiðust (hvað sem það nú þýðir!). En það má líka hugleiða almennt og heimspekilega, hvaða spurning er eða gæti verið erfiðust.
Fyrst skulum við snúa okkur að því, hvaða spurningar hafa reynst erfiðar viðfangs. Áður en vísindin í núverandi mynd urðu til, það er löngu fyrir daga Krists, veltu Forn-Grikkir því fyrir sér, hvernig heimurinn hefði orðið til og úr hverju hann væri. Þannig hélt heimspekingurinn Þales frá Míletos (sem var á vesturströnd Litlu-Asíu, sem nú er Tyrkland) því fram að allur heimurinn hefði orðið til af vatni, sem er í rauninni alls ekki svo galin hugmynd (frumefnið vetni er til staðar í öllum lífrænum efnasamböndum), og Anaxímander, sem líka var frá Míletos, sagði að allt væri úr lofti sem ummyndaðist við þéttingu og þynningu.
Nú á dögum vitum við auðvitað, að efnisheimurinn er úr því sem eðlisfræðingar kalla „frumeindir“ eða „atóm“ (eða enn smærri eindum), en venjulegt fólk veit í rauninni ekki nákvæmlega hvað þetta er vegna þess að það þarf ansi flókna stærðfræði til að lýsa því nákvæmlega. Auk þess þyrfti líka að setja fram eðlisfræðilega svar við spurningunni hvað það merkir að eitthvað sé „úr“ einhverju. Jafnvel eðlisfræðingar, sem geta auðvitað útskýrt stærðfræðina og eðlisfræðina á bak við atóm (og önnur hugtök), eru ekki á einu máli um það hvernig beri að lýsa atómum og þeim enn smærri einingum sem þau eru sett saman úr. Hér er því ein erfið spurning: „Úr hverju er heimurinn, að minnsta kosti efnisheimurinn, settur saman?“.
Annað erfitt úrlausnarefni tengist sálinni, eða huganum. Við gerum okkur öll grein fyrir því að við höfum eins konar „aðgang“ að okkar eigin tilfinningum og hugsunum sem aðrir hafa ekki og geta ekki haft; ef ég hef til dæmis tannpínu þá finn ég til eins og enginn annar getur fundið til (sumir myndu segja: sem betur fer!). En hvað er þá þessi tannpína?
Nú virðist blasa við, að sálarlíf okkar sé háð líkamanum, eða nánar tiltekið taugakerfinu; þegar ég finn til virðist það vera vegna einhvers sem gerist í taugakerfinu, heilanum. Með öðrum orðum, þá virðist sálarlífið ekkert vera annað en önnur hlið á taugakerfinu, taugakerfið „séð innan frá“. En segjum að ég hafi tannpínu, og heilaskurðlæknir hafi sett tæki inn í heilann á mér þar sem hann getur séð breytingar í heilanum sem við myndum kalla „tannpínu“. Er þetta sama fyrirbærið? Hvernig getur það verið, þegar það sem ég og skurðlæknirinn sjáum er svona gerólíkt, og við upplifum það á svo gerólíkan hátt? Hér er önnur erfið spurning: „Hver eru tengslin á milli sálarinnar og líkamans?“
Enn aðrar erfiðar spurningar sem við getum nefnt eru: „Er til einhver hlutlægur mælikvarði á gott og illt?“, „Er sálin ódauðleg?“, „Er Guð til, og ef svo er, og hann er bæði algóður og almáttugur, af hverju lætur hann þá vera til illt í heiminum?“, „Er heimurinn óendanlega stór, hefur hann verið til óendanlega lengi, og mun hann verða til óendanlega lengi?“, „Hvað eru rúm og tími?“, „Af hverju er eitthvað til í heiminum?“, og svo mætti lengi telja. Það er erfitt að segja hvaða spurning er erfiðust, og hvort hægt er að ímynda sér einhverja erfiðustu spurningu í heiminum, en að þessu sný ég mér nú í seinni hluta svarsins.
Orðið „erfiður“ tjáir fremur loðið hugtak, eins og alkunna er getur einum veist erfitt það sem öðrum veitist auðvelt. Þannig var til dæmis þýski stærðfræðingurinn Karl Friedrich Gauss látinn sitja eftir þegar hann var í barnaskóla í refsingarskyni og fengið það verkefni að leggja saman allar tölur frá 1 upp í 100. Flestum hefði reynst þetta erfitt, en hann var svo snjall stærðfræðingur þegar á unga aldri að hann gat leyst þetta verkefni á stuttum tíma. Nú getum við sennilega sagt, að ýmsar spurningar séu erfiðari en aðrar, vegna þess að snjöllustu hugsuðir hafa glímt við þær í hundruð eða jafnvel þúsundir ára án þess þó að nokkur hafi komist til botns í þeim. Meðal slíkra spurninga má nefna spurningar eins og þær sem koma fram hér að framan, bara svo að nefnt sé örlítið brot af þeim spurningum sem heimspekingar hafa glímt við, án þess að nefndar séu allar þær spurningar sem aðrir fræðimenn, til dæmis náttúrufræðingar, eðlisfræðingar eða guðfræðingar, hafa brotið heilann um. Hver þessara spurninga er erfiðust?
Hvað gerir eina spurningu erfiðari en aðra? Eins og við sögðum er ekki til neinn skarpur og einhlítur mælikvarði á „erfiðleika“ í þessu sambandi, en við gætum til dæmis sagt að spurning A sé „erfiðari“ en spurning B ef meiri tíma og orku þarf til að svara A en B, miðað við að sami aðili reyni að svara þeim. En ef hvorki A né B hefur enn verið svarað er ekki auðvelt að beita þessum mælikvarða: við vitum ekki enn hversu miklum tíma og orku þarf að beita til að svara A og B. Við vitum þó, að ef A er spurning og B er spurning, þá er erfiðara að svara spurningunni, sem er sett saman úr þeim báðum, það er spurningunni: „hvert er svarið við A og B?“ en hvorri um sig.
Þess vegna getum við búið til þá spurningu, sem er örugglega mjög erfið, með því að taka saman allar spurningar, sem hafa reynst erfiðar, og tengja þær saman í eina. Einnig mætti hugsa sér að við tengdum saman allar hugsanlegar spurningar, sem eru reyndar óendanlega margar, í eina óendanlega langa spurningu, og þá kæmi örugglega út erfiðasta spurning sem til er „í heiminum“. Sú spurning væri reyndar sennilega jafngild spurningunni: „Hvernig er heimurinn?“, þar sem krafist væri tæmandi lýsingar á öllum heiminum, ekki aðeins efnisheiminum, heldur líka heimi sálarinnar, stærðfræðinnar, siðfræðinnar og svo framvegis.
Erlendur Jónsson. „Hver er erfiðasta spurningin í heiminum?“ Vísindavefurinn, 24. júlí 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=683.
Erlendur Jónsson. (2000, 24. júlí). Hver er erfiðasta spurningin í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=683
Erlendur Jónsson. „Hver er erfiðasta spurningin í heiminum?“ Vísindavefurinn. 24. júl. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=683>.