Eru til íslensk Mensa-samtök eða er hægt að taka Mensa-próf á íslensku og fá það gilt til inngöngu?
Mensa eru alþjóðleg samtök fólks með háa greind, stofnuð árið 1946. Hugmyndin var að skapa þessu fólki vettvang til að hittast og skiptast á skoðunum, og að hvetja til frekari rannsókna á mannlegri greind. Meðlimir Mensa eru nú um 100.000 talsins í um 100 löndum. Mensa hefur að auki sérstakar deildir eða útibú í meira en 40 löndum, þar á meðal á Íslandi. Mensa Ísland heldur úti heimasíðunni is.mensa.org. Í greindarprófum er notaður mismunandi einkunnakvarði, svo ekki er víst að einkunnir úr tveimur ólíkum prófum séu fyllilega sambærilegar. Inntökuskilyrði Mensa miðast því ekki við ákveðna greindarvísitölu heldur við það hvernig fólk stendur sig á prófinu miðað við aðra. Mensa tekur þannig til greina niðurstöður úr stöðluðum greindarprófum, það er prófum sem lögð hafa verið fyrir tiltekinn viðmiðunarhóp. Standi fólk sig betur en 98% próftaka í viðmiðunarhópnum er því heimilt að ganga í samtökin. Að lokum er rétt að minnast á að greind er yfirgripsmikið hugtak sem greindarpróf geta ef til vill aldrei náð fyllilega utan um. Greindarpróf geta samt sem áður gefið mikilvægar upplýsingar og spáð fyrir um velgengni í námi og starfi. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Af hverju eru sumir gáfaðri en aðrir? eftir Sigurð J. Grétarsson.
- Er sannað að greindarpróf verki? eftir Sigurð J. Grétarsson.
- Hafa tilgátur Howards Gardners um fjölgreindir verið sannaðar? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Hvað er greind? eftir Sigurð J. Grétarsson.
- Hvað er tilfinningagreind? Er hún mikilvæg? eftir Orra Smárason.
- Hver er greindarvísitala meðalmanneskju og hvenær er hún orðin óeðlilega lág eða há? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Hvers vegna verður mannfólkið sífellt gáfaðra? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.
- Mensa Iceland.
- Mensa International.
- Mensa International. Wikipedia: The Free Encyclopedia.
- Myndin er fengin af síðunni Image:Mensa-logo.jpg. Wikipedia: The Free Encyclopedia. Myndin er í eigu Mensa.