Hvers vegna fer mæld greind fólks sífellt vaxandi?Þótt ótrúlegt megi virðast hefur frammistaða fólks á greindarprófum batnað með hverri kynslóð, alls staðar í heiminum. Þetta nefnist Flynn-hrif eftir nýsjálenska stjórnmálafræðingnum James R. Flynn, sem uppgötvaði þau fyrstur manna. Aukningin hefur verið gífurleg; meðalmaður nútímans hefði fyrir 100 árum líklega mælst með yfirburðagreind. Hver er skýringin á þessu furðulega fyrirbæri? Erfðir Það fyrsta sem manni gæti dottið í hug er að mannkynið sé að þróast í átt að meiri greind. Þetta virðist ekki svo ólíklegt þar sem vitað er að mæld greind ræðst að miklu leyti af erfðum. Að auki er mesta aukningin í svokallaðri eðlisgreind (fluid intelligence), en það er hæfileikinn til að leysa óhlutbundin verkefni sem ekki reyna á tungumálahæfileika (ómálleg greind) og er talin að miklu leyti meðfædd, en síður í reynslugreind (crystallized intelligence) sem er að miklu leyti lærð og því meira háð formlegri menntun. Þróunarskýring er þó afar langsótt, ef ekki ómöguleg, þar sem breytingarnar eru mjög örar; að jafnaði hækkar meðalgreindarvísitala um þrjú stig á hverjum áratug sem er mikil aukning ef haft er í huga að 95% fólks mælist með greind á milli 70 og 130 stiga. Líffræðileg þróun er alltof hæg til að geta skýrt svo öra hækkun. Þegar skýra á Flynn-hrifin horfir fólk þess vegna aðallega til áhrifa umhverfis. Þeir umhverfisþættir sem oftast hafa verið nefndir eru lengri skólaganga, öðruvísi uppeldi, flóknara samfélag og betri næring. Lengri skólaganga Það er vel þekkt að þeir sem ganga í skóla mælast með hærri greind en fólk sem ekki fær menntun. Því er hugsanlegt að hærra menntunarstig sé ástæða Flynn-hrifanna. Þrír þættir stríða þó gegn þessari skýringu. Fyrir það fyrsta er jafnmikil aukning í greind barna og fullorðinna, þrátt fyrir að grunnskólamenntun hafi verið almenn frá upphafi greindarmælinga. Í öðru lagi virðist aukningin vera hjá fólki af öllum menntunarstigum og í þriðja lagi er aukningin í eðlisgreind fremur en reynslugreind eins og áður var sagt. Ef lengri skólaganga væri aðalástæða Flynn-hrifanna ætti reynslugreindin að breytast mest, þar sem hún verður fyrir mestum áhrifum af fyrri þekkingu. Öðruvísi uppeldi Á þeim 100 árum sem liðin eru síðan franski sálfræðingurinn Alfred Binet (1857 – 1911) og félagi hans Herbert Simon (1873 – 1961) gáfu út fyrsta nothæfa greindarprófið hafa uppeldisaðferðir foreldra breyst til muna. Nú til dags er lögð mikil áhersla á að örva börn og ýta þannig undir andlegan þroska þeirra. Þrátt fyrir það virðist markviss örvun á unga aldri hafa takmörkuð áhrif á greind, að minnsta kosti til langframa. Því er ólíklegt að þetta sé fullnægjandi skýring á Flynn-hrifunum. Flóknara samfélag Barnauppeldi er ekki það eina sem hefur breyst á undanförnum áratugum heldur hefur allt samfélagið tekið miklum stakkaskiptum. Þau verkefni sem fólk þarf að takast á við dags daglega verða sífellt flóknari; störf verða sérhæfðari og tækninni fleygir fram. Á meðan amma og afi eiga í mestu vandræðum með að senda tölvupóst er æska landsins upptekin við að hanna heimasíður, spila tölvuleiki og jafnvel forrita sína eigin leiki. Það getur vel verið að samfélag þar sem sífellt þarf að takast á við nýja hluti ýti undir eðlisgreind, en eðlisgreind virðist einmitt vera forsenda þess að leysa nýstárleg og flókin verkefni. Betri næring Lengri skólaganga, annað uppeldi og flóknara samfélag eru allt dæmi um félagslega umhverfisþætti, en áhrif umhverfis á greind geta allt eins verið líffræðileg, án þess þó að erfðir komi við sögu. Dæmi um þetta er betri næring. Vitað er að vannæring hamlar vitsmunaþroska og að vannæring var mun algengari hér áður fyrr. Mataræði fólks nú til dags er aftur á móti mun betra og næringarríkara. Margir þeir sem hefðu fyrir nokkrum áratugum verið vannærðir fá nú nægt fæði og eru ef til vill greindari af þeim sökum. Í samræmi við þessa tilgátu eru Flynn-hrifin sterkust hjá fólki á lægstu stigum greindar. Með öðrum orðum hækkar mæld greind mest hjá þeim sem hefðu mælst lægstir áður fyrr en greindasta fólkið nú á dögum er ekkert miklu greindara en "gáfnaljósin" fyrr á tímum.
Betri næring nú á dögum er hugsanleg ástæða þess að meðalgreind virðist fara hækkandi.
- Colom, R., Lluis-Font, J. M. og Andrés-Pueyo, A. (2005). The generational intelligence gains are caused by decreasing variance in the lower half of the distribution: Supporting evidence for the nutrition hypothesis. Intelligence, 33, 83-91.
- Flynn effect. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
- Neisser, U. (1997). Rising scores on intelligence tests. American Scientist, 85, 440-447.
- Wicherts, J. M. o.fl. (2004). Are intelligence tests measurement invariant over time? Investigating the nature of the Flynn effect. Intelligence, 32, 509-537.
- Mynd af heila í höfði er af Medicine and health. The New Zealand Edge.
- Mynd af heilanæringu er af Brain Food. U.S. Army HOOAH4Health.