Hvað getið þið sagt mér um varúlfa? Hver er saga mannúlfsins, hvenær fóru menn að trúa á hann og hvar trúðu menn fyrst á hann?
Samkvæmt ýmis konar þjóðtrú er varúlfur maður, langoftast karlmaður, sem tekur tímabundið á sig gervi úlfs og öðlast á meðan alla eiginleika úlfsins svo sem hraða, styrk og hyggindi. Ýmist breytast menn í þetta ástand af fúsum og frjálsum vilja eða lenda í því á móti vilja sínum fyrir tilstilli álaga eða galdra. Oftast breytast menn í úlfa þegar tungl er fullt eða á ákveðnum árstímum. Varúlfa þyrstir í mannakjöt og nái þeir ekki í lifandi fólk grafa þeir upp lík sér til matar. Á þeim verður ekki unnið nema með því að skjóta þá með silfurkúlum og breytast þeir þá aftur í menn. Sagt er að þeir sem fæddir eru á jólakvöld, fæddir utan hjónabands, eru óvenjulega loðnir á höndunum (og fingralangir) eða eru sambrýndir séu líklegri til að vera varúlfar. Orðið varúlfur er sett saman úr orðunum var sem er sama orðið og ver og merkir maður (á latínu vir) og úlfur, sem sagt mannúlfur. Varúlfa er ekki getið í íslenskum þjóðsögum, en sögur fara af þeim á meginlandi Evrópu. Á hinum Norðurlöndunum eru líka til sögur af mannbjörnum og í Asíu og Afríku eru til hliðstæðar sögur af mannhlébörðum, manntígrum og mannhýenum. Í fornsögunum koma mannúlfar, vargúlfar eða fólk sem tekur á sig úlfa- eða bjarnarhami við sögu til dæmis í Völsunga sögu. Í Egilssögu kemur einnig fram að Skallagrímur og Kveldúlfur, faðir og afi Egils Skallagrímssonar, voru líka einkennilega skapi farnir og hatramir ef svo bar undir. Í írskri þjóðtrú var sagt að varúlfar væru í sérstökum ættum. Guð refsaði þeim sem sýnt höfðu kristniboði heilags Patreks hvað mesta andstöðu með því að leggja á þá og niðja þeirra að þeir yrðu að varúlfum með vissu millibili. Sumir tóku hamskiptum sjöunda hvern vetur, en aðrir voru varúlfar í sjö ár en svo aldrei eftir það næðu þeir að lifa af þann tíma. Í einni sögunni segir að sá sem fyrstur varð fyrir þessum ósköpum hafi verið Laignech Fáelad (Laighneach Fáoilidh) en fáelad merkir úlfhamur. Hann og hans ætt bjó í héraðinu Ossory sem oft kemur við sögu í írskum þjóðsögum.
Minnisvarði um varúlfinn frá Gévaudan í Frakklandi
- Hvað segja vísindin um yfirnáttúrleg fyribæri? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur og Þorstein Vilhjálmsson
- Er það satt að sum dýr tali mannamál á þrettándanum? eftir Rakeli Pálsdóttur
- Var spámaðurinn Merlín til í raun og veru? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Er Lagarfljótsormurinn til? eftir JGÞ
- Eru skoffín og skuggabaldrar til í alvörunni? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson og Jón Má Halldórsson
- Hver var Drakúla? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Grambo, Ronald. Svart kat over veien. Om varsler, tegn og overto. Oslo 1993.
- Holbek, Bengt og Piø, Iørn. Fabeldyr og sagnfolk. Kaupmannahöfn 1979.
- Kulturhistorisk Leksikon for nordisk middelalde. Bind XIX. Reykjavík 1975.
- Pickering, David: Cassel Dictionary of Superstition. London 1995.
- Potter, Carole. Encyklopedia of Superstition. London1983.