Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getið þið sagt mér frá ferðum Kólumbusar til Ameríku?

Heiða María Sigurðardóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson

Hér er margs að gæta og ekki sama hvernig spurningin er orðuð. Ísland tilheyrir Evrópu landfræðilega þó að það sé ekki áfast við meginland hennar, eins og lesa má nánar um í svari Sigurðar Steinþórssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Er Ísland ekki á milli meginlandsflekanna og telst því hvorki til Evrópu né Ameríku, jarðfræðilega? Ef við hugsum okkur mann sem hefði verið uppi á 13. öld á meginlandi Ameríku og farið í sjóferð til Íslands, þá hefði hann í rauninni „fundið“ Evrópu, séð frá sjónarhóli íbúanna í Ameríku.

Á sama hátt er eðlilegt að segja að Kólumbus hafi „fundið“ Ameríku þegar hann kom að fyrstu eyjunum sem tilheyra þeirri heimsálfu. Enginn hluti Ameríku var þá almennt þekktur í Evrópu á heimaslóðum Kólumbusar. Þessir fyrstu fundir Kólumbusar voru því merkilegir og mikilvægir og sagan sem gerðist í kjölfarið hefur skipt sköpum í mannkynssögunni hvað sem öðru líður. Þorsteinn Vilhjálmsson fer nánar í þetta mál í svari sínu, Hvers vegna er heiminum kennt að Kólumbus hafi fundið Ameríku þegar Leifur Eiríksson kom þangað fyrstur?

Fyrsta Ameríkuferðin

Fyrsta ferð Kólumbusar til Vesturheims hófst 3. ágúst árið 1492 þegar skipin Niña, Pinta og Sankti María héldu frá bænum Palos á Spáni. Þaðan sigldi flotinn meðfram norðvesturströnd Afríku til Kanaríeyja. Þar fengu sæfararnir meðbyr og tóku stefnu í hávestur yfir opið haf 6. september sama ár.

Áður en lagt var af stað hafði Kólumbus reynt að áætla hversu löng sjóferðin yrði. Því miður hafði hann ranga hugmynd um ummál jarðarinnar og ferðin tók því langtum meiri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi. Að auki villtust skipin af leið um tíma vegna óhagstæðrar vindáttar. Við þetta varð kurr í áhöfninni og höfðu menn áhyggjur af því að þeir kæmust ekki heilir heim aftur. Kólumbus gerði sér sjálfur grein fyrir því að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Frá og með 10. september fór hann því vísvitandi að falsa færslur í skipsdagbókina til að villa um fyrir mönnum sínum svo að þeir héldu að þeir hefðu siglt styttra en mælingar gáfu raunverulega til kynna. Reyndar voru mælingarnar það ónákvæmar að fölsuðu gögnin voru nær sannleikanum.

Þegar liðið var nokkuð á októbermánuð var þolinmæði áhafnarinnar á þrotum, og Kólumbus óttaðist uppreisn. En 12. október sigldu Niña, Pinta og Sankti María loks að landi, öllum til mikils léttis, á Bahamaeyjum í Karíbahafi. Ekki er vitað fyrir víst hver eyjan var, en Kólumbus gaf henni nafnið San Salvador. Þar hitti áhöfnin fyrir frumbyggja sem Kólumbus lýsti sem friðelskandi fólki er væri óspillt af vestrænni efnishyggju og yrði móttækilegt fyrir boði um að taka upp nýja trú, kristnina. Um leið gerði hann sér grein fyrir því að auðvelt yrði að notfæra sér góðmennsku eyjaskeggja og gestrisni til að verða sér úti um allt sem hann girntist.


Kólumbus og menn hans stíga á land í nýja heiminum í fyrsta sinn (hugmynd listamanns).

Kólumbus dvaldist ekki lengi á San Salvador þar sem hann var viss um að ríkið Cipangu, eða Japan, þar sem allt flóði í gulli og silfri, væri rétt handan við hornið. Hann sigldi því á milli nokkurra smáeyja og kom að lokum að Kúbu 28. október; þar taldi hann sig loksins hafa fundið Cipangu. Fljótlega virðist hann þó hafa gert sér grein fyrir að það gat ekki staðist, en komst í staðinn á þá skoðun að þetta væri hluti meginlandsins og að hann væri kominn á land í Cathay, eða Kína. Þetta stóðst að sjálfsögðu ekki heldur, og Kólumbus fann aldrei hin miklu menningarsamfélög austursins sem hann leitaði að.


Stækkaði ramminn sýnir í grófum dráttum það svæði sem Kólumbus kannaði í ferðum sínum.

Haldið heim

Kólumbus kom loks að eyjunni Hispaníólu (sem nú skiptist í Haítí og Dóminíska lýðveldið) 6. desember og setti þar upp búðir. Þann 16. janúar 1493 sneri hann loks tilbaka til gamla heimsins, ásamt hluta upphaflegu áhafnarinnar, með skip hlaðin ýmsum nýstárlegum vörum. Sumar þeirra höfðu aldrei áður sést í Evrópu: Kanóar, hengirúm, ananas og tóbak (sem hann vissi að vísu ekki enn til hvers var).

Heimferðin var ekki án áfalla; Kólumbus missti meðal annars Sankti Maríu strax á Hispaníólu, og skip hans, Niña, varð viðskila við Pintu á leiðinni (Pinta komst að vísu á áfangastað, ein og óstudd). Niña náði loks til bæjarins Santa Maria á Asoreyjum 18. febrúar, og til meginlands Evrópu 4. mars. Af ferð sinni hlaut Kólumbus frægð og frama, og var gerður að landstjóra yfir eyjunum sem hann fann í „Indíum“, en svo kallaðist sá hluti Asíu sem ferð Kólumbusar var upprunalega heitið til.

Seinni Ameríkuferðir

Kólumbus hafði nú unnið sér inn fullt traust með því að sýna það og sanna að langferðir yfir Atlantshaf voru ekki draumsýn ein. Hann fékk því án mikilla vandkvæða yfirráð yfir að minnsta kosti 17 skipum, þar á meðal Niñu, og líklega yfir 1300 mönnum. Kólumbus lagði upp í aðra ferðina 25. september strax árið 1493 með það að markmiði að kanna og nema land (að minnsta kosti tímabundið) og koma á fót verslun, til að mynda með bómull, gull og þræla.

Eins og áður sigldi Kólumbus fyrst til Kanaríeyja en í stað þess að stefna í vestur sigldi hann örlítið til suðurs. 3. nóvember 1493 komst hann til eyjunnar Dóminíku í Karíbahafi. Þaðan sigldi hann fram hjá mörgum smáeyjum (og hafði viðkomu í sumum) til Púertó Ríkó og því næst til Hispaníólu. Á leiðinni heyrðu hann og menn hans hræðilegar sögur af eyjaskeggjum sem gengu undir nafninu „Karíbar“ (sbr. Karíbahaf). Þeir voru sagðir mannætur sem tóku konur nauðugar viljugar og átu síðan börn þeirra. Kólumbus kom svo að landi á Hispaníólu 22. nóvember. Þegar áhöfnin komst aftur á móti til búðanna á eynni sem þeir höfðu slegið upp um tíu mánuðum fyrr blasti við þeim ófögur sjón; á þær hafði verið ráðist og allir þar drepnir.

Fyrsta ferð (1492) Önnur ferð (1493)
Þriðja ferð (1498) Fjórða ferð (1502)

Kortin sýna nánar siglingaleiðir í öllum fjórum ferðum Kólumbusar. Upprunalegu spænsku örnefnin eru notuð. Eyjan sem kallaðist áður Júana heitir nú Kúba, Santíagó er Jamaíka, Hispaníóla skiptist í Haítí (á vinstri hluta eyjunnar) og Dóminíska lýðveldið (á hægri hluta eyjunnar), og San Juan Bautista ber núna nafnið Púertó Ríkó. Smellið á kort til að stækka það.

Kólumbus og menn hans stilltu aftur til friðar við indíána og stofnsettu bæinn La Isabella (eftir Ísabellu Spánardrottningu). Sum skipin sneru því næst aftur til Evrópu en seint í apríl og fram í seinni hluta september fór Kólumbus sjálfur með nokkur skip til að kanna Jamaíku og Kúbu, meðal annars til að leita að gulli. 10. mars 1496 sigldi Kólumbus svo á brott frá Hispaníólu og kom til Cadiz á Spáni 11. júní, rétt rúmum mánuði seinna.

Þriðju ferðina fór Kólumbus 30. maí 1498. Í henni komst hann loksins til meginlands Ameríku, nánar tiltekið í Venesúela. Þaðan sigldi hann síðan aftur til Hispaníólu og komst að því að bylting hafði orðið og allt var í lamasessi. Þetta leiddi að lokum til þess að Kólumbus var settur í varðhald og fluttur í járnum til Spánar. Honum tókst aftur á móti að sannfæra velgjörðarmenn sína á Spáni um að hann væri í þann veginn að finna mikla fjársjóði í vesturheimi. Hann var því látinn laus og fékk að fara í fjórðu og síðustu ferð sína 3. apríl 1502 þar sem hann kannaði meðal annars strendur Mið-Ameríku. Þessi ferð, sem átti að vera sú magnaðasta af þeim öllum, varð aftur á móti hálfmisheppnuð. Ekki bætti úr skák að þegar Kólumbus kom heim til Spánar í nóvember lá Ísabella drottning, helsti stuðningsmaður Kólumbusar, á dánarbeði sínum.

Kólumbus var nú sjálfur orðin heilsuveill og dó að lokum úr veikindum sínum 20. maí 1506. Þótt hann væri að sumu leyti vonsvikinn yfir því að ekki hafði allt farið sem skyldi dreymdi hann stóra drauma um fjarlæg lönd alveg til dauðadags.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og frekara lesefni

  • Cohen, J. M. (1969). The Four Voyages of Christopher Columbus. London: Penguin Books.
  • Christopher Columbus. Encyclopædia Britannica Online.
  • Christopher Columbus. Britannica Student Encyclopedia.
  • Fernández-Armesto, F. (1992). Columbus. Oxford, New York: Oxford University Press.

Myndir

  • Myndir af Sankti Maríu og af komu Kólumbusar eru af Christopher Columbus.
  • Heimskortið er breytt útgáfa myndar af Continents. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Litlu kortin eru af Christopher Columbus. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.

Upphaflega spurningin hljómaði svona:

Er það rétt að Kristófer Kólumbus hafi lent í Karíbahafinu áður en hann fann Ameríku? Og þá hvar?

Höfundar

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

17.2.2006

Spyrjandi

Rannveig Garðarsdóttir

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Getið þið sagt mér frá ferðum Kólumbusar til Ameríku?“ Vísindavefurinn, 17. febrúar 2006, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5651.

Heiða María Sigurðardóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2006, 17. febrúar). Getið þið sagt mér frá ferðum Kólumbusar til Ameríku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5651

Heiða María Sigurðardóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Getið þið sagt mér frá ferðum Kólumbusar til Ameríku?“ Vísindavefurinn. 17. feb. 2006. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5651>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér frá ferðum Kólumbusar til Ameríku?
Hér er margs að gæta og ekki sama hvernig spurningin er orðuð. Ísland tilheyrir Evrópu landfræðilega þó að það sé ekki áfast við meginland hennar, eins og lesa má nánar um í svari Sigurðar Steinþórssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Er Ísland ekki á milli meginlandsflekanna og telst því hvorki til Evrópu né Ameríku, jarðfræðilega? Ef við hugsum okkur mann sem hefði verið uppi á 13. öld á meginlandi Ameríku og farið í sjóferð til Íslands, þá hefði hann í rauninni „fundið“ Evrópu, séð frá sjónarhóli íbúanna í Ameríku.

Á sama hátt er eðlilegt að segja að Kólumbus hafi „fundið“ Ameríku þegar hann kom að fyrstu eyjunum sem tilheyra þeirri heimsálfu. Enginn hluti Ameríku var þá almennt þekktur í Evrópu á heimaslóðum Kólumbusar. Þessir fyrstu fundir Kólumbusar voru því merkilegir og mikilvægir og sagan sem gerðist í kjölfarið hefur skipt sköpum í mannkynssögunni hvað sem öðru líður. Þorsteinn Vilhjálmsson fer nánar í þetta mál í svari sínu, Hvers vegna er heiminum kennt að Kólumbus hafi fundið Ameríku þegar Leifur Eiríksson kom þangað fyrstur?

Fyrsta Ameríkuferðin

Fyrsta ferð Kólumbusar til Vesturheims hófst 3. ágúst árið 1492 þegar skipin Niña, Pinta og Sankti María héldu frá bænum Palos á Spáni. Þaðan sigldi flotinn meðfram norðvesturströnd Afríku til Kanaríeyja. Þar fengu sæfararnir meðbyr og tóku stefnu í hávestur yfir opið haf 6. september sama ár.

Áður en lagt var af stað hafði Kólumbus reynt að áætla hversu löng sjóferðin yrði. Því miður hafði hann ranga hugmynd um ummál jarðarinnar og ferðin tók því langtum meiri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi. Að auki villtust skipin af leið um tíma vegna óhagstæðrar vindáttar. Við þetta varð kurr í áhöfninni og höfðu menn áhyggjur af því að þeir kæmust ekki heilir heim aftur. Kólumbus gerði sér sjálfur grein fyrir því að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Frá og með 10. september fór hann því vísvitandi að falsa færslur í skipsdagbókina til að villa um fyrir mönnum sínum svo að þeir héldu að þeir hefðu siglt styttra en mælingar gáfu raunverulega til kynna. Reyndar voru mælingarnar það ónákvæmar að fölsuðu gögnin voru nær sannleikanum.

Þegar liðið var nokkuð á októbermánuð var þolinmæði áhafnarinnar á þrotum, og Kólumbus óttaðist uppreisn. En 12. október sigldu Niña, Pinta og Sankti María loks að landi, öllum til mikils léttis, á Bahamaeyjum í Karíbahafi. Ekki er vitað fyrir víst hver eyjan var, en Kólumbus gaf henni nafnið San Salvador. Þar hitti áhöfnin fyrir frumbyggja sem Kólumbus lýsti sem friðelskandi fólki er væri óspillt af vestrænni efnishyggju og yrði móttækilegt fyrir boði um að taka upp nýja trú, kristnina. Um leið gerði hann sér grein fyrir því að auðvelt yrði að notfæra sér góðmennsku eyjaskeggja og gestrisni til að verða sér úti um allt sem hann girntist.


Kólumbus og menn hans stíga á land í nýja heiminum í fyrsta sinn (hugmynd listamanns).

Kólumbus dvaldist ekki lengi á San Salvador þar sem hann var viss um að ríkið Cipangu, eða Japan, þar sem allt flóði í gulli og silfri, væri rétt handan við hornið. Hann sigldi því á milli nokkurra smáeyja og kom að lokum að Kúbu 28. október; þar taldi hann sig loksins hafa fundið Cipangu. Fljótlega virðist hann þó hafa gert sér grein fyrir að það gat ekki staðist, en komst í staðinn á þá skoðun að þetta væri hluti meginlandsins og að hann væri kominn á land í Cathay, eða Kína. Þetta stóðst að sjálfsögðu ekki heldur, og Kólumbus fann aldrei hin miklu menningarsamfélög austursins sem hann leitaði að.


Stækkaði ramminn sýnir í grófum dráttum það svæði sem Kólumbus kannaði í ferðum sínum.

Haldið heim

Kólumbus kom loks að eyjunni Hispaníólu (sem nú skiptist í Haítí og Dóminíska lýðveldið) 6. desember og setti þar upp búðir. Þann 16. janúar 1493 sneri hann loks tilbaka til gamla heimsins, ásamt hluta upphaflegu áhafnarinnar, með skip hlaðin ýmsum nýstárlegum vörum. Sumar þeirra höfðu aldrei áður sést í Evrópu: Kanóar, hengirúm, ananas og tóbak (sem hann vissi að vísu ekki enn til hvers var).

Heimferðin var ekki án áfalla; Kólumbus missti meðal annars Sankti Maríu strax á Hispaníólu, og skip hans, Niña, varð viðskila við Pintu á leiðinni (Pinta komst að vísu á áfangastað, ein og óstudd). Niña náði loks til bæjarins Santa Maria á Asoreyjum 18. febrúar, og til meginlands Evrópu 4. mars. Af ferð sinni hlaut Kólumbus frægð og frama, og var gerður að landstjóra yfir eyjunum sem hann fann í „Indíum“, en svo kallaðist sá hluti Asíu sem ferð Kólumbusar var upprunalega heitið til.

Seinni Ameríkuferðir

Kólumbus hafði nú unnið sér inn fullt traust með því að sýna það og sanna að langferðir yfir Atlantshaf voru ekki draumsýn ein. Hann fékk því án mikilla vandkvæða yfirráð yfir að minnsta kosti 17 skipum, þar á meðal Niñu, og líklega yfir 1300 mönnum. Kólumbus lagði upp í aðra ferðina 25. september strax árið 1493 með það að markmiði að kanna og nema land (að minnsta kosti tímabundið) og koma á fót verslun, til að mynda með bómull, gull og þræla.

Eins og áður sigldi Kólumbus fyrst til Kanaríeyja en í stað þess að stefna í vestur sigldi hann örlítið til suðurs. 3. nóvember 1493 komst hann til eyjunnar Dóminíku í Karíbahafi. Þaðan sigldi hann fram hjá mörgum smáeyjum (og hafði viðkomu í sumum) til Púertó Ríkó og því næst til Hispaníólu. Á leiðinni heyrðu hann og menn hans hræðilegar sögur af eyjaskeggjum sem gengu undir nafninu „Karíbar“ (sbr. Karíbahaf). Þeir voru sagðir mannætur sem tóku konur nauðugar viljugar og átu síðan börn þeirra. Kólumbus kom svo að landi á Hispaníólu 22. nóvember. Þegar áhöfnin komst aftur á móti til búðanna á eynni sem þeir höfðu slegið upp um tíu mánuðum fyrr blasti við þeim ófögur sjón; á þær hafði verið ráðist og allir þar drepnir.

Fyrsta ferð (1492) Önnur ferð (1493)
Þriðja ferð (1498) Fjórða ferð (1502)

Kortin sýna nánar siglingaleiðir í öllum fjórum ferðum Kólumbusar. Upprunalegu spænsku örnefnin eru notuð. Eyjan sem kallaðist áður Júana heitir nú Kúba, Santíagó er Jamaíka, Hispaníóla skiptist í Haítí (á vinstri hluta eyjunnar) og Dóminíska lýðveldið (á hægri hluta eyjunnar), og San Juan Bautista ber núna nafnið Púertó Ríkó. Smellið á kort til að stækka það.

Kólumbus og menn hans stilltu aftur til friðar við indíána og stofnsettu bæinn La Isabella (eftir Ísabellu Spánardrottningu). Sum skipin sneru því næst aftur til Evrópu en seint í apríl og fram í seinni hluta september fór Kólumbus sjálfur með nokkur skip til að kanna Jamaíku og Kúbu, meðal annars til að leita að gulli. 10. mars 1496 sigldi Kólumbus svo á brott frá Hispaníólu og kom til Cadiz á Spáni 11. júní, rétt rúmum mánuði seinna.

Þriðju ferðina fór Kólumbus 30. maí 1498. Í henni komst hann loksins til meginlands Ameríku, nánar tiltekið í Venesúela. Þaðan sigldi hann síðan aftur til Hispaníólu og komst að því að bylting hafði orðið og allt var í lamasessi. Þetta leiddi að lokum til þess að Kólumbus var settur í varðhald og fluttur í járnum til Spánar. Honum tókst aftur á móti að sannfæra velgjörðarmenn sína á Spáni um að hann væri í þann veginn að finna mikla fjársjóði í vesturheimi. Hann var því látinn laus og fékk að fara í fjórðu og síðustu ferð sína 3. apríl 1502 þar sem hann kannaði meðal annars strendur Mið-Ameríku. Þessi ferð, sem átti að vera sú magnaðasta af þeim öllum, varð aftur á móti hálfmisheppnuð. Ekki bætti úr skák að þegar Kólumbus kom heim til Spánar í nóvember lá Ísabella drottning, helsti stuðningsmaður Kólumbusar, á dánarbeði sínum.

Kólumbus var nú sjálfur orðin heilsuveill og dó að lokum úr veikindum sínum 20. maí 1506. Þótt hann væri að sumu leyti vonsvikinn yfir því að ekki hafði allt farið sem skyldi dreymdi hann stóra drauma um fjarlæg lönd alveg til dauðadags.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og frekara lesefni

  • Cohen, J. M. (1969). The Four Voyages of Christopher Columbus. London: Penguin Books.
  • Christopher Columbus. Encyclopædia Britannica Online.
  • Christopher Columbus. Britannica Student Encyclopedia.
  • Fernández-Armesto, F. (1992). Columbus. Oxford, New York: Oxford University Press.

Myndir

  • Myndir af Sankti Maríu og af komu Kólumbusar eru af Christopher Columbus.
  • Heimskortið er breytt útgáfa myndar af Continents. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Litlu kortin eru af Christopher Columbus. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.

Upphaflega spurningin hljómaði svona:

Er það rétt að Kristófer Kólumbus hafi lent í Karíbahafinu áður en hann fann Ameríku? Og þá hvar?
...