Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þessa spurningu mætti ef til vill skilja sem svo að spyrjandi vilji vita af hverju það sé bandaríski fáninn sem blaktir þarna en ekki eitthvað annað. En við gerum ráð fyrir að spyrjandi sé allvel að sér, meðal annars eftir að hafa kynnt sér ýmsa hluti á Vísindavefnum. Hann viti þess vegna að á tunglinu er ekkert loft og enginn vindur og því ætti fáninn ekki að blakta; þess vegna spyr hann.
En hvers vegna blaktir fáninn þá? Mönnum hafa dottið í hug ýmsar skýringar á þessu og sett þær fram með ýmsum hætti, meðal annars á prenti, á vefsetrum eins og títt er um slíkar skýringar, og í kvikmyndum. Sumar skýringarnar geta staðist samkvæmt vísindum en aðrar ekki og sumar gera ráð fyrir óvenjulegu eðli manna og stofnana sem koma við sögu, samsærum og öðru þess háttar. Eins og lesendur vita kannski er Veraldarvefurinn vinsæll vettvangur slíkra hugmynda.
Kannski verður lesandinn sjálfur að lokum að gera upp við sig hvaða skýring honum finnst eðlilegust, einföldust og nærtækust. Hér eru nokkrar hugmyndir til að moða úr:
Mennirnir fóru aldrei til tunglsins og myndin er ekki tekin þar, heldur búin til eftir góðum myndum úr sterkum sjónaukum á jörðu niðri. Sumir segja að skuggarnir á myndunum stangist á eins og þær séu teknar í myndveri (stúdíó). Þetta var allt saman liður í að blekkja heimsbyggðina í átökum kalda stríðsins um sálir mannanna.
Mennirnir fóru til tunglsins en það gleymdist að taka fánann með svo að mynd af blaktandi fána á jörðu niðri var límd inn í myndina sem tekin var á tunglinu. Bandaríkjamenn vildu ekki sýna myndina nema fáni þeirra sæist. Þannig unnu þeir sér inn punkta í fyrrnefndu stríði og stuðluðu að því að bandarískir skattborgarar sættu sig við útgjöldin til NASA.
Það voru ekki menn heldur geimverur frá öðrum hnöttum sem tóku myndirnar og sendu þær til jarðar. Geimverurnar héldu að fáninn ætti að blakta til þess að menn mundu taka myndirnar trúanlegar. NASA vill hins vegar ekki ljóstra þessu upp því að hugmyndir almennings um geimverur eru taldar hættulegar valdhöfum.
Vísindamenn NASA vissu fyrirfram að fáninn mundi bara lafa niður og verða æði tilkomulítill ef ekkert væri að gert. Þeir brugðu því á það ráð að láta smíða sérstakar stengur til að halda honum útbreiddum og strekktum. Hins vegar tókst ekki betur til en svo að stengurnar stóðu á sér þegar til átti að taka. Fáninn strekktist ekki að fullu og sýnist því blakta.
Tengd svör má finna með því að skrifa orðið 'tungl' í leitarvél okkar.
Þetta svar er svokallað "föstudagssvar" af hálfu ritstjórnar og ber því ekki að taka því sem fúlustu alvöru.
Ritstjórn Vísindavefsins. „Af hverju blaktir bandaríski fáninn á myndinni af Apollo 11 á tunglinu 1969?“ Vísindavefurinn, 15. júní 2001, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1710.
Ritstjórn Vísindavefsins. (2001, 15. júní). Af hverju blaktir bandaríski fáninn á myndinni af Apollo 11 á tunglinu 1969? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1710
Ritstjórn Vísindavefsins. „Af hverju blaktir bandaríski fáninn á myndinni af Apollo 11 á tunglinu 1969?“ Vísindavefurinn. 15. jún. 2001. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1710>.