Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju keyra sumar þjóðir vinstra megin og aðrar hægra megin?

Örnólfur Thorlacius (1931-2017)

Vinstri umferð á sér mjög langa sögu. Þegar vopnaðir menn mættust, gangandi eða ríðandi, var tryggast að hafa höndina sem sverðinu brá sömu megin og sá var, sem á móti kom. Örvhentir riddarar urðu sjaldan ellidauðir.

Þegar Bónifasíus áttundi páfi bauð pílagrímum árið 1300 að víkja til vinstri, var hann aðeins að staðfesta ævaforna umferðarreglu. Meðal annars má telja fullvíst að Rómverjar hafi virt þennan sið, enda oft þröng á þingi á götum Rómar svo umferðin hefur orðið að fara að föstum reglum.

Hægri umferð verður rakin til frönsku stjórnarbyltingarinnar. Fram að henni náði stéttaskiptingin til umferðarinnar í Frakklandi. Aðallinn ók vögnum sínum vinstra megin á vegunum og bolaði alþýðunni út á hægri kantinn. Gangandi almúgamenn héldu sig til hægri og viku út á vegkant fyrir umferð höfðingjanna. Eftir byltinguna 1789 töldu aðalsmenn tryggara að láta lítt á sér bera og slógust því í för með borgurunum. Þar kom að Robespierre (1758-1794) lögfesti hægri umferð í París.

Napóleon breiddi síðan þessa venju út og festi í sessi með því að fara með sveitir sínar hægra megin á vegunum. Sigurganga herja hans í Evrópu varð til þess að hægri umferð var tekin upp í Niðurlöndum, Sviss, Þýskalandi, Ítalíu, Póllandi og á Spáni. Þar sem Napóleon náði ekki ítökum – í Bretlandi, Austurrísk-ungverska keisaradæminu, Rússlandi og Portúgal – ferðuðust menn sem fyrr vinstra megin. Danir, sem stóðu með Frökkum, lögfestu hægri umferð 1793. Breytingin náði samt ekki til útnára konungsríkisins, Íslands, enda ekki af mikilli umferð að státa þar.



Helstu forvígismenn hægri umferðar Evrópu verða víst seint orðaðir við manngæsku: Maximilian Robespierre (1758-1794), Napóleon Bonaparte (1769-1821) og Adolf Hitler (1889-1945).

Þar sem Bretar réðu ríkjum óku menn (og aka víða enn) vinstra megin á vegum eins og á Bretlandi. Á Indlandi, í Eyjaálfu og í nýlendum Breta í Afríku var hvarvetna tekin upp vinstri umferð. Þó á þetta ekki við um Egyptaland, sem herir Napóleons lögðu undir sig og innleiddu þar hægri umferð áður en Bretar komust þar til valda. Í nokkrum landluktum ríkjum í Afríku, sem áður voru breskar nýlendur, hafa yfirvöld samt tekið upp hægri umferð til samræmis við það sem tíðkast í löndum allt í kring.

Framan af var vinstri umferð ráðandi í Bandaríkjunum. Fyrstu lög um hægri umferð þar í landi voru sett 1792 og tóku aðeins til aksturs um tollbrú í Pennsylvaníu, á milli Lancaster og Fíladelfíu. Hægri umferð var svo lögleidd í New York-ríki 1804 og í New Jersey 1813. Í Kanada, sem laut breskri stjórn, var víðast vinstri umferð þar til upp úr 1920.

Eftir miðja 19. öld þvinguðu Bretar og Bandaríkjamenn Japana til að opna hafnir sínar erlendum kaupmönnum, og 1859 var tekin upp vinstri umferð í landinu að kröfu Breta. Yfirgangur Breta í Kína á 19. öld varð einnig til þess að Kínverjar tóku upp vinstri akstur í lok ópíumstríðanna, en þeir færðu sig yfir á hægri kantinn 1946. Í nýlendum flestra annarra Evrópuþjóða var farið að fordæmi nýlenduherranna. Í Indónesíu aka menn enn vinstra megin þótt Hollendingar legðu þann sið af 1795. Rússar tóku upp hægri umferð rétt fyrir byltingu kommúnista, en flestar aðrar þjóðir héldu óbreyttum akstri eftir að fyrri heimsstyrjöld lauk.

Þótt Austurrísk-ungverska keisaradæmið leystist upp, héldu Tékkar, Júgóslavar og Ungverjar áfram að víkja til vinstri. Portúgalar tóku upp hægri akstur á þriðja tug síðustu aldar.

Napóleon lagði undir sig hluta Austurríkis og innleiddi þar hægri umferð, en annars staðar í landinu var sem fyrr ekið vinstra megin. Eftir að Napóleon lagði vesturhluta landsins, Tíról, undir Bæjaraland, töldust fáir vegir með hægri umferð til Austurríkis. Þegar Þjóðverjar innlimuðu Austurríki í mars 1938 lögleiddi Hitler hægri umferð í landinu á einni nóttu. Þetta olli öngþveiti í umferð, því mörg umferðarskilti sneru þannig að að ökumenn sáu ekki á þau. Það tók nokkrar vikur að laga sporvagnakerfið í Vínarborg að nýju reglunum, og á meðan var sporvögnunum ekið vinstra megin en önnur umferð vék til hægri. Eftir að Þjóðverjar hernámu Tékkóslóvakíu og Ungverjaland var vinstri akstur aflagður þar. Síðasta vígið á meginlandi Evrópu féll svo 1967. Þá tóku Svíar upp hægri akstur eftir rækilegan undirbúning.

Um svipað leyti kom til tals að taka upp hægri umferð í Pakistan. Áformin strönduðu einkum á því að þar í landi eru úlfaldalestir oft á ferli um nætur án tilsagnar manna, meðan riddararnir móka í söðlum sínum, og menn treystust ekki til að kenna gömlum úlföldum nýjar umferðarreglur.

Sá sem þetta skráir veit aðeins eitt dæmi þess að umferð á vegum hafi færst frá hægri til vinstri. Þegar Argentínumenn hernámu Falklandseyjar í apríl 1982 flýttu þeir sér að lögfesta þar hægri umferð, íbúunum til mikillar skapraunar. Þeir fengu svo að taka upp fyrra aksturslag eftir að breskt herlið náði eyjunum aftur í júní sama ár.

Nú er svo komið að ökumenn þurfa óvíða að skipta um vegarhelming þegar þeir aka yfir landamæri. Stærstu og fjölförnustu vegakerfin með vinstri umferð eru á eyjum – Bretlandseyjum, Japan og Indónesíu. Á skipaskurðum og vatnaleiðum gilda sömu reglur og um siglingu á höfum: Þar er hægri umferð. Sama á við um flugumferð, jafnt innanlands sem milli landa.



Lönd með hægri umferð eru merkt rauð en lönd með vinstri umferð eru merkt blá. Þó vinstri umferð sé í mikið færri löndum en hægri umferð er það samt svo að um 34% mannkyns býr í þeim löndum þar sem keyrt er vinstra megin. Þar munar miklu um mjög fjölmenn ríki eins og Indland og Indónesíu.

Umferð á járnbrautum er yfirleitt eins og á akvegum viðkomandi lands. Þó er vinstri umferð á frönskum járnbrautum, og er skýringin sú að breskur verkfræðingur stjórnaði lögn þeirra. Samt er hægri umferð á öllu jarðlestakerfinu í París. Og lestir í Alsace-Lorraine renna líka á hægri teinum, enda réðu Þjóðverjar héraðinu (Elsass-Lothringen) frá 1870 til loka fyrri heimsstyrjaldar og aftur á árum hinnar síðari. Á gömlu landamærunum milli Frakklands og Þýskalands mynda járnbrautarteinarnir slaufur (f. saut de mouton, „sauðastökk“), þar sem lestirnar skipta um brautarhelming.

Um Ísland er það að segja að þó hægri umferð hafi verið tekin upp í Danmörku í lok 18. aldar náði það ekki til Íslands eins og áður hefur komið fram enda kannski ekki mikil þörf fyrir slíkar reglur hér á landi á þeim tíma. Til gamans má geta þess að bent hefur verið á það að konur sneru til vinstri í íslenskum söðlum, og ef tvær hefðarfrúr hefðu mæst í þröngu einstigi og vikið til hægri, hefðu þær átt á hættu að krækja fótunum saman.

Í upphafi síðari heimsstyrjaldar stóð til að breyta umferðinni á Íslandi, en hernám Breta gerði þau áform að engu, enda var umferð hermanna mun meiri en heimamanna á vegum landsins. Það var ekki fyrr en árið 1968 að Íslendingar fetuðu í fótspor flestra annarra Evrópuríkja og tóku um hægri umferð. Breytingin tók gildi klukkan 6:00 sunnudaginn 26. maí það ár og nutum við í því máli góðs af reynslu Svía sem tekið höfðu upp hægri umferð árið áður.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimild og myndir:


Þessi grein birtist síðast í Örnólfsbók: afmælisriti sem er tileinkað Örnólfi Thorlacius 75 ára, sem út kom 2006. Hér er textinn lítillega breyttur.


Upprunalegu spurningarnar eru:
  • Hvers vegna er stýrið „öfugu megin“ í bílum Breta?
  • Af hverju keyra Bretar og fyrrverandi nýlendur þeirra vinstra megin á götunni?
Fyrri spurningunni er ef til vill ekki svarað til fulls hér á undan. Til viðbótar því sem þar er sagt felst skýringin í því að það þykir betra að hafa stýrið þeim megin í bílnum sem er nær vegarmiðju, til að mynda þegar bílstjóri vill aka fram úr bíl sem er á undan honum.

Höfundur

líffræðingur, fyrrv. rektor Menntaskólans við Hamrahlíð

Útgáfudagur

13.12.2007

Spyrjandi

Elías Jóhannesson
Sævar Helgason
Bjarki Þór Þorkelsson

Tilvísun

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Af hverju keyra sumar þjóðir vinstra megin og aðrar hægra megin?“ Vísindavefurinn, 13. desember 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6959.

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). (2007, 13. desember). Af hverju keyra sumar þjóðir vinstra megin og aðrar hægra megin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6959

Örnólfur Thorlacius (1931-2017). „Af hverju keyra sumar þjóðir vinstra megin og aðrar hægra megin?“ Vísindavefurinn. 13. des. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6959>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju keyra sumar þjóðir vinstra megin og aðrar hægra megin?
Vinstri umferð á sér mjög langa sögu. Þegar vopnaðir menn mættust, gangandi eða ríðandi, var tryggast að hafa höndina sem sverðinu brá sömu megin og sá var, sem á móti kom. Örvhentir riddarar urðu sjaldan ellidauðir.

Þegar Bónifasíus áttundi páfi bauð pílagrímum árið 1300 að víkja til vinstri, var hann aðeins að staðfesta ævaforna umferðarreglu. Meðal annars má telja fullvíst að Rómverjar hafi virt þennan sið, enda oft þröng á þingi á götum Rómar svo umferðin hefur orðið að fara að föstum reglum.

Hægri umferð verður rakin til frönsku stjórnarbyltingarinnar. Fram að henni náði stéttaskiptingin til umferðarinnar í Frakklandi. Aðallinn ók vögnum sínum vinstra megin á vegunum og bolaði alþýðunni út á hægri kantinn. Gangandi almúgamenn héldu sig til hægri og viku út á vegkant fyrir umferð höfðingjanna. Eftir byltinguna 1789 töldu aðalsmenn tryggara að láta lítt á sér bera og slógust því í för með borgurunum. Þar kom að Robespierre (1758-1794) lögfesti hægri umferð í París.

Napóleon breiddi síðan þessa venju út og festi í sessi með því að fara með sveitir sínar hægra megin á vegunum. Sigurganga herja hans í Evrópu varð til þess að hægri umferð var tekin upp í Niðurlöndum, Sviss, Þýskalandi, Ítalíu, Póllandi og á Spáni. Þar sem Napóleon náði ekki ítökum – í Bretlandi, Austurrísk-ungverska keisaradæminu, Rússlandi og Portúgal – ferðuðust menn sem fyrr vinstra megin. Danir, sem stóðu með Frökkum, lögfestu hægri umferð 1793. Breytingin náði samt ekki til útnára konungsríkisins, Íslands, enda ekki af mikilli umferð að státa þar.



Helstu forvígismenn hægri umferðar Evrópu verða víst seint orðaðir við manngæsku: Maximilian Robespierre (1758-1794), Napóleon Bonaparte (1769-1821) og Adolf Hitler (1889-1945).

Þar sem Bretar réðu ríkjum óku menn (og aka víða enn) vinstra megin á vegum eins og á Bretlandi. Á Indlandi, í Eyjaálfu og í nýlendum Breta í Afríku var hvarvetna tekin upp vinstri umferð. Þó á þetta ekki við um Egyptaland, sem herir Napóleons lögðu undir sig og innleiddu þar hægri umferð áður en Bretar komust þar til valda. Í nokkrum landluktum ríkjum í Afríku, sem áður voru breskar nýlendur, hafa yfirvöld samt tekið upp hægri umferð til samræmis við það sem tíðkast í löndum allt í kring.

Framan af var vinstri umferð ráðandi í Bandaríkjunum. Fyrstu lög um hægri umferð þar í landi voru sett 1792 og tóku aðeins til aksturs um tollbrú í Pennsylvaníu, á milli Lancaster og Fíladelfíu. Hægri umferð var svo lögleidd í New York-ríki 1804 og í New Jersey 1813. Í Kanada, sem laut breskri stjórn, var víðast vinstri umferð þar til upp úr 1920.

Eftir miðja 19. öld þvinguðu Bretar og Bandaríkjamenn Japana til að opna hafnir sínar erlendum kaupmönnum, og 1859 var tekin upp vinstri umferð í landinu að kröfu Breta. Yfirgangur Breta í Kína á 19. öld varð einnig til þess að Kínverjar tóku upp vinstri akstur í lok ópíumstríðanna, en þeir færðu sig yfir á hægri kantinn 1946. Í nýlendum flestra annarra Evrópuþjóða var farið að fordæmi nýlenduherranna. Í Indónesíu aka menn enn vinstra megin þótt Hollendingar legðu þann sið af 1795. Rússar tóku upp hægri umferð rétt fyrir byltingu kommúnista, en flestar aðrar þjóðir héldu óbreyttum akstri eftir að fyrri heimsstyrjöld lauk.

Þótt Austurrísk-ungverska keisaradæmið leystist upp, héldu Tékkar, Júgóslavar og Ungverjar áfram að víkja til vinstri. Portúgalar tóku upp hægri akstur á þriðja tug síðustu aldar.

Napóleon lagði undir sig hluta Austurríkis og innleiddi þar hægri umferð, en annars staðar í landinu var sem fyrr ekið vinstra megin. Eftir að Napóleon lagði vesturhluta landsins, Tíról, undir Bæjaraland, töldust fáir vegir með hægri umferð til Austurríkis. Þegar Þjóðverjar innlimuðu Austurríki í mars 1938 lögleiddi Hitler hægri umferð í landinu á einni nóttu. Þetta olli öngþveiti í umferð, því mörg umferðarskilti sneru þannig að að ökumenn sáu ekki á þau. Það tók nokkrar vikur að laga sporvagnakerfið í Vínarborg að nýju reglunum, og á meðan var sporvögnunum ekið vinstra megin en önnur umferð vék til hægri. Eftir að Þjóðverjar hernámu Tékkóslóvakíu og Ungverjaland var vinstri akstur aflagður þar. Síðasta vígið á meginlandi Evrópu féll svo 1967. Þá tóku Svíar upp hægri akstur eftir rækilegan undirbúning.

Um svipað leyti kom til tals að taka upp hægri umferð í Pakistan. Áformin strönduðu einkum á því að þar í landi eru úlfaldalestir oft á ferli um nætur án tilsagnar manna, meðan riddararnir móka í söðlum sínum, og menn treystust ekki til að kenna gömlum úlföldum nýjar umferðarreglur.

Sá sem þetta skráir veit aðeins eitt dæmi þess að umferð á vegum hafi færst frá hægri til vinstri. Þegar Argentínumenn hernámu Falklandseyjar í apríl 1982 flýttu þeir sér að lögfesta þar hægri umferð, íbúunum til mikillar skapraunar. Þeir fengu svo að taka upp fyrra aksturslag eftir að breskt herlið náði eyjunum aftur í júní sama ár.

Nú er svo komið að ökumenn þurfa óvíða að skipta um vegarhelming þegar þeir aka yfir landamæri. Stærstu og fjölförnustu vegakerfin með vinstri umferð eru á eyjum – Bretlandseyjum, Japan og Indónesíu. Á skipaskurðum og vatnaleiðum gilda sömu reglur og um siglingu á höfum: Þar er hægri umferð. Sama á við um flugumferð, jafnt innanlands sem milli landa.



Lönd með hægri umferð eru merkt rauð en lönd með vinstri umferð eru merkt blá. Þó vinstri umferð sé í mikið færri löndum en hægri umferð er það samt svo að um 34% mannkyns býr í þeim löndum þar sem keyrt er vinstra megin. Þar munar miklu um mjög fjölmenn ríki eins og Indland og Indónesíu.

Umferð á járnbrautum er yfirleitt eins og á akvegum viðkomandi lands. Þó er vinstri umferð á frönskum járnbrautum, og er skýringin sú að breskur verkfræðingur stjórnaði lögn þeirra. Samt er hægri umferð á öllu jarðlestakerfinu í París. Og lestir í Alsace-Lorraine renna líka á hægri teinum, enda réðu Þjóðverjar héraðinu (Elsass-Lothringen) frá 1870 til loka fyrri heimsstyrjaldar og aftur á árum hinnar síðari. Á gömlu landamærunum milli Frakklands og Þýskalands mynda járnbrautarteinarnir slaufur (f. saut de mouton, „sauðastökk“), þar sem lestirnar skipta um brautarhelming.

Um Ísland er það að segja að þó hægri umferð hafi verið tekin upp í Danmörku í lok 18. aldar náði það ekki til Íslands eins og áður hefur komið fram enda kannski ekki mikil þörf fyrir slíkar reglur hér á landi á þeim tíma. Til gamans má geta þess að bent hefur verið á það að konur sneru til vinstri í íslenskum söðlum, og ef tvær hefðarfrúr hefðu mæst í þröngu einstigi og vikið til hægri, hefðu þær átt á hættu að krækja fótunum saman.

Í upphafi síðari heimsstyrjaldar stóð til að breyta umferðinni á Íslandi, en hernám Breta gerði þau áform að engu, enda var umferð hermanna mun meiri en heimamanna á vegum landsins. Það var ekki fyrr en árið 1968 að Íslendingar fetuðu í fótspor flestra annarra Evrópuríkja og tóku um hægri umferð. Breytingin tók gildi klukkan 6:00 sunnudaginn 26. maí það ár og nutum við í því máli góðs af reynslu Svía sem tekið höfðu upp hægri umferð árið áður.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimild og myndir:


Þessi grein birtist síðast í Örnólfsbók: afmælisriti sem er tileinkað Örnólfi Thorlacius 75 ára, sem út kom 2006. Hér er textinn lítillega breyttur.


Upprunalegu spurningarnar eru:
  • Hvers vegna er stýrið „öfugu megin“ í bílum Breta?
  • Af hverju keyra Bretar og fyrrverandi nýlendur þeirra vinstra megin á götunni?
Fyrri spurningunni er ef til vill ekki svarað til fulls hér á undan. Til viðbótar því sem þar er sagt felst skýringin í því að það þykir betra að hafa stýrið þeim megin í bílnum sem er nær vegarmiðju, til að mynda þegar bílstjóri vill aka fram úr bíl sem er á undan honum....