Þar sem Bretar réðu ríkjum óku menn (og aka víða enn) vinstra megin á vegum eins og á Bretlandi. Á Indlandi, í Eyjaálfu og í nýlendum Breta í Afríku var hvarvetna tekin upp vinstri umferð. Þó á þetta ekki við um Egyptaland, sem herir Napóleons lögðu undir sig og innleiddu þar hægri umferð áður en Bretar komust þar til valda. Í nokkrum landluktum ríkjum í Afríku, sem áður voru breskar nýlendur, hafa yfirvöld samt tekið upp hægri umferð til samræmis við það sem tíðkast í löndum allt í kring. Framan af var vinstri umferð ráðandi í Bandaríkjunum. Fyrstu lög um hægri umferð þar í landi voru sett 1792 og tóku aðeins til aksturs um tollbrú í Pennsylvaníu, á milli Lancaster og Fíladelfíu. Hægri umferð var svo lögleidd í New York-ríki 1804 og í New Jersey 1813. Í Kanada, sem laut breskri stjórn, var víðast vinstri umferð þar til upp úr 1920. Eftir miðja 19. öld þvinguðu Bretar og Bandaríkjamenn Japana til að opna hafnir sínar erlendum kaupmönnum, og 1859 var tekin upp vinstri umferð í landinu að kröfu Breta. Yfirgangur Breta í Kína á 19. öld varð einnig til þess að Kínverjar tóku upp vinstri akstur í lok ópíumstríðanna, en þeir færðu sig yfir á hægri kantinn 1946. Í nýlendum flestra annarra Evrópuþjóða var farið að fordæmi nýlenduherranna. Í Indónesíu aka menn enn vinstra megin þótt Hollendingar legðu þann sið af 1795. Rússar tóku upp hægri umferð rétt fyrir byltingu kommúnista, en flestar aðrar þjóðir héldu óbreyttum akstri eftir að fyrri heimsstyrjöld lauk. Þótt Austurrísk-ungverska keisaradæmið leystist upp, héldu Tékkar, Júgóslavar og Ungverjar áfram að víkja til vinstri. Portúgalar tóku upp hægri akstur á þriðja tug síðustu aldar. Napóleon lagði undir sig hluta Austurríkis og innleiddi þar hægri umferð, en annars staðar í landinu var sem fyrr ekið vinstra megin. Eftir að Napóleon lagði vesturhluta landsins, Tíról, undir Bæjaraland, töldust fáir vegir með hægri umferð til Austurríkis. Þegar Þjóðverjar innlimuðu Austurríki í mars 1938 lögleiddi Hitler hægri umferð í landinu á einni nóttu. Þetta olli öngþveiti í umferð, því mörg umferðarskilti sneru þannig að að ökumenn sáu ekki á þau. Það tók nokkrar vikur að laga sporvagnakerfið í Vínarborg að nýju reglunum, og á meðan var sporvögnunum ekið vinstra megin en önnur umferð vék til hægri. Eftir að Þjóðverjar hernámu Tékkóslóvakíu og Ungverjaland var vinstri akstur aflagður þar. Síðasta vígið á meginlandi Evrópu féll svo 1967. Þá tóku Svíar upp hægri akstur eftir rækilegan undirbúning. Um svipað leyti kom til tals að taka upp hægri umferð í Pakistan. Áformin strönduðu einkum á því að þar í landi eru úlfaldalestir oft á ferli um nætur án tilsagnar manna, meðan riddararnir móka í söðlum sínum, og menn treystust ekki til að kenna gömlum úlföldum nýjar umferðarreglur. Sá sem þetta skráir veit aðeins eitt dæmi þess að umferð á vegum hafi færst frá hægri til vinstri. Þegar Argentínumenn hernámu Falklandseyjar í apríl 1982 flýttu þeir sér að lögfesta þar hægri umferð, íbúunum til mikillar skapraunar. Þeir fengu svo að taka upp fyrra aksturslag eftir að breskt herlið náði eyjunum aftur í júní sama ár. Nú er svo komið að ökumenn þurfa óvíða að skipta um vegarhelming þegar þeir aka yfir landamæri. Stærstu og fjölförnustu vegakerfin með vinstri umferð eru á eyjum – Bretlandseyjum, Japan og Indónesíu. Á skipaskurðum og vatnaleiðum gilda sömu reglur og um siglingu á höfum: Þar er hægri umferð. Sama á við um flugumferð, jafnt innanlands sem milli landa.
- Hvort keyra fleiri bílar í heiminum hægra eða vinstra megin á götunni? eftir Árna Frey Helgason
- Mick Hamer. Left is right on the road. New Scientist - Jólablað 1986.
- Wikipedia, the free encyclopedia:
- Driving on the left or right. Sótt 13.12.2007.
- Maximilien Robespierre. Sótt 13.12.2007.
- Napoleon I of France. Sótt 13.12.2007.
- Nationalsozialismus.de. Sótt 13.12.2007.
Þessi grein birtist síðast í Örnólfsbók: afmælisriti sem er tileinkað Örnólfi Thorlacius 75 ára, sem út kom 2006. Hér er textinn lítillega breyttur.
Upprunalegu spurningarnar eru:
- Hvers vegna er stýrið „öfugu megin“ í bílum Breta?
- Af hverju keyra Bretar og fyrrverandi nýlendur þeirra vinstra megin á götunni?