Frakkland er fjórða fjölmennasta ríki Evrópu á eftir Rússlandi, Þýskalandi og Bretlandi. Árið 2001 voru Frakkar tæplega 59 milljónir talsins. Eru þá ekki taldar með þær 1,7 milljónir manna sem búa á svæðum utan Evrópu sem tilheyra franska ríkinu (Guadeloupe og Martinique í Vestur-Indíum, Franska-Gínea í Suður-Ameríku og Réunion í Indlandshafi). Á síðustu 50 árum hefur Frökkum fjölgað um rúmlega 40%, úr tæpum 42 milljónum í 59 milljónir. Á sama tíma hefur heildarfjölgun íbúa í þeim löndum sem nú mynda Evrópusambandið verið um 27%. Frökkum fjölgaði mest á árunum 1950-1975 en síðan þá hefur nokkuð dregið úr fólksfjölgun. Ólíkt mörgum öðrum ríkjum Evrópu má að stórum hluta rekja fólksfjölgun í Frakklandi undanfarin ár til náttúrlegrar fjölgunar frekar en til innflytjenda. Á síðasta áratug var árleg fjölgun Frakka nálægt 250.000. Þar af var náttúruleg fjölgun (munurinn á fæðingartíðni og dánartíðni) um 200.000 og innflytjendur um 50.000. Um 9,6 milljónir (rúmlega 16% Frakka) búa á stórhöfuðborgarsvæðinu öllu en í París sjálfri búa rúmlega tvær milljónir manna. Þrjú önnur stórborgarsvæði hafa yfir eina milljón íbúa. Í Marseilles og svæðinu þar í kring búa um 1,35 milljónir, þar af búa um 800 þúsund inni í Marseilles. Í Lyon og nágrenni búa álíka margir og á Marseilles svæðinu þó íbúar borgarinnar sjálfrar séu töluvert færri eða tæplega 450 þúsund. Rétt um ein milljón manna býr í eða umhverfis Lille (185 þúsund í borginni). Önnur stærstu borgarsvæði Frakklands eru Nice með 889 þúsund íbúa, þar af tæplega 350 þúsund í borginni sjálfri, Toulouse og nágrenni með 761 þúsund íbúa, þar af 390 þúsund manns í borginni, og Bordeaux svæðið með 754 þúsund íbúa, þar af 215 þúsund innan borgarmarkanna.
Skoðið einnig önnur svör á Vísindavefnum:
- Hvað búa margir í heiminum? eftir TÞ
- Hve margir íbúar eru í þriðja heiminum? eftir Brynhildi Ólafsdóttur
- Hver eru fimm þéttbýlustu lönd í heimi? eftir Ulriku Andersson
- Hversu margir búa í Afríku? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
Kort: The University of Texas at Austin - General Libraries - UT Library Online Mynd af Eifel turninum: Lycée Atl@antique - Le tourisme en France Mynd af París: Living on the Net