2 H2 + O2 -> 2 H2OHér hafa öll táknin þegar verið skýrð nema það síðasta en margir vita væntanlega að H2O táknar vatnssameind. Svarið við spurningunni er því vatn. Mikil orka myndast við bruna vetnis. Hún kemur fram sem varmi og vatnið er því mjög heitt, svo heitt að það er í gasham, sem vatnsgufa. Það að vetni myndar einmitt vatn við bruna er ein af ástæðum þess að menn horfa vonaraugum til vetnis sem eldsneytis í framtíðinni. Vatnsgufan sem verður til við brunann þéttist í lofthjúpnum og fellur til jarðar sem hreint og ómengað vatn. Efnin sem mest hafa verið notuð sem eldsneyti fram að þessu, kol, olía og jarðgas, eiga það sammerkt að uppistaða þeirra er kolefni og mestöll orkan losnar þegar það brennur og myndar að lokum koltvísýring, CO2, sem er ein helsta gróðurhúsalofttegundin. En auk þess er kolefnið í þessum efnum ekki hreint og ýmis óæskileg efnasambönd myndast þegar önnur efni í eldsneytinu brenna. Menn telja þess vegna að umhverfisáhrif af notkun vetnis sem eldsneytis, til dæmis í farartækjum, verði miklu minni en af jarðefnaeldsneytinu sem nú er notað.
Mynd: HB