Flugvélum má skipta í 3 flokka eftir hæðarstaðsetningu vængja þeirra:
- Miðþekja: vængur er staðsettur á miðju skrokks.
- Lágþekja: vængur er staðsettur við botn skrokks.
- Háþekja: vængur er staðsettur við topp skrokks.
Miðþekja býður upp á minnstu loftmótstöðuna en er ekki hagkvæm í farþega- og flutningavélum þar sem vængirnir tveir eru tengdir saman með burðarbita sem þyrfti að ganga í gegnum miðja vél.
Lágþekja (sjá 1. mynd) hentar vel sem stór farþegavél. Skrokkur stórra flugvéla er yfirleitt hringlaga í þversniði og er farþegagólfið haft svo hátt að nóg pláss er fyrir burðarbita vængjanna neðan þess. Einnig hentar vel að nýta vænginn fyrir hjólabúnað á stórum vélum, vængurinn verndar búkinn fyrir hnjaski í nauðlendingu og verkar sem flotholt við nauðlendingu á vatni. Helstu gallar þessa fyrirkomulags eru að hátt er í búkinn og hleðslurýmin og því þarf dýrari búnað til að hlaða og afhlaða vélina, eldsneytisgeymar í vængjum geta orðið fyrir hnjaski í nauðlendingu og vængurinn skemmir fyrir útsýni sumra farþega.
Háþekja (sjá 2. mynd) hentar ef skrokkur vélarinnar þarf að vera nálægt jörðu því að þá hafa hreyflarnir það pláss sem hæð skrokksins gefur. Þetta þýðir að hjólastellið getur verið stutt og ekki þarf mikinn útbúnað til að hlaða og afhlaða vélina. Því hentar þetta fyrirkomulag vel á minni farþegavélum sem lenda oft á flugvöllum án stórra flugstöðva. Einnig hentar þetta vel á flutningavélum því að þá er mikilvægt að einfalt sé að hlaða/afhlaða vélina, til dæmis er þá hægt að keyra farartæki beint inn og út úr vélinni án aukabúnaðar á jörðu niðri. Af öðrum kostum háþekju má nefna að farþegar njóta góðs útsýnis úr öllum sætum og að eldsneytisgeymar í vængjum verða síður fyrir hnjaski við nauðlendingu. Helstu gallar háþekju eru að vængbitinn tekur frá loftrými í farþegarými, við nauðlendingu tekur skrokkurinn við mestöllu álagi en vængirnir nýtast lítið og erfitt getur verið að finna pláss fyrir hjólabúnað á stórum vélum.
Frekara lesefni af Vísindavefnum:- Hvernig getur sviffluga haldist á lofti og flogið? eftir Tryggva Þorgeirsson
- Hvað er flugvél lengi að fljúga kringum jörðina? eftir Snorra Björn Gunnarsson
- Úr því að að „svarti kassinn” í flugvélum eyðileggst ekki, af hverju er þá ekki öll flugvélin úr sama efni? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hver fann upp flugvélina? eftir Birki Fannar Snævarrsson og Vigni Má Lŷðsson