Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er ákveðnum vankvæðum bundið að tilgreina einungis einn einstakling sem á að hafa fundið upp flugvélina. Svarið fer meðal annars eftir því hversu þröng skilgreining er notuð; hvort eingöngu er átt við hver bjó til fyrsta vélknúna farartækið sem gat flogið með mann innanborðs og hægt var að stýra eða hvort taka á með í dæmið þá sem á undan komu og gerðu tilraunir með flug, vélknúið eða svifflug.
Margir hafa komið fram með ýmsar tegundir af svifflugum, svifdrekum og loftbelgjum í aldanna rás. Ekki hafa öll þau tæki getað borið menn en sumar svifflugur gátu það. Sem dæmi má nefna að árið 559 smíðaði Kínverjinn Yuan Huangtou frá borginni Ye svifdreka sem bar mann. Á 15. öld fylgdist Leonardó da Vinci (1452-1519) með flugi fugla og teiknaði í kjölfarið gervivæng.
Fyrsta "vestræna" svifflugan leit dagsins ljós árið 1853 en þar var að verki enski verkfræðingurinn Sir George Cayley (1773-1857). Hann hefur verið nefndur faðir nútímaflugs því hann gerði fjölmargar rannsóknir á eiginleikum flugs, aflfræði þess og hannaði grunngerð af væng. Flugvélar síðari tíma eru byggðar á rannsóknum Cayley.
Árið 1890 smíðaði franski verkfræðingurinn Clément Ader vél sem flaug 50 metra fyrir eigin vélarafli en henni var ekki hægt að stýra. Bræðurnir Orwille (1871-1948) og Wilbur Wright (1867-1912) eru hins vegar þekktastir fyrir fyrsta heppnaða flug sem knúið var áfram af hreyfli og hægt var að stýra að einhverju marki. Þeir settu sprengihreyfil í ákveðna gerð af flugvél sem kallast tvíþekja. Fyrsta flug Wright-bræðra var 17. desember 1903.
Orwille Wright flýgur vélknúinni flugvél í fyrsta sinn í sögunni þann 17. desember 1903. Bróðir hans, Wilbur, fylgist með.
Í fyrsta fluginu fór vélin 40 m á 12 sekúndum og var hraðinn um 11 km á klukkustund miðað við jörð. Wright-bræður framleiddu einnig reiðhjól en hreyfilinn sem þeir notuðu í flugvélina smíðuðu þeir á reiðhjólaverkstæði sínu.
Fyrsta flug á Íslandi var árið 1919.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
Birkir Fannar Snævarrsson og Vignir Már Lýðsson. „Hver fann upp flugvélina?“ Vísindavefurinn, 27. september 2007, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6820.
Birkir Fannar Snævarrsson og Vignir Már Lýðsson. (2007, 27. september). Hver fann upp flugvélina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6820
Birkir Fannar Snævarrsson og Vignir Már Lýðsson. „Hver fann upp flugvélina?“ Vísindavefurinn. 27. sep. 2007. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6820>.