En öll rök virðast hafa verið leyfileg í kalda stríðinu. Sennilega var loftárásin á Dresden þáttur í algengu og sígildu stríðsbrjálæði. Loftárásir eru „hentugar“ fyrir þann sem árásina gerir; flugvélarnar geta gert mikinn skaða án þess að flugmennirnir séu í mjög mikilli hættu, allavega miðað við þá hættu er hermenn sem berjast á jörðu niðri mega búa við. Oftast er loftárásum fyrst og fremst beint gegn eigum óbreyttra borgara og öðrum borgaralegum skotmörkum og beinn hernaðartilgangur þeirra er því lítill. Það virðist hins vegar vera trú stjórnvalda, svo og fjölmiðla og þar með almennings, að loftárásir veiki siðferðisþrek andstæðingsins og traust hans á eigin stjórnvöldum. En þetta er gagnstætt allri reynslu. Miklar loftárásir Þjóðverja á England 1940 styrktu samstöðu Englendinga gegn Þjóðverjum og ýttu undir hefndarhug. Stöðugar loftárásir enskra flugvéla á þýskar íbúðabyggðir síðar í heimsstyrjöldinni virðast raunar hafa verið dulbúin hefnd að miklu leyti. En sennilega hefur ekkert styrkt stöðu nasista meðal þýsku þjóðarinnar eins mikið og loftárásir þessar. Leyfi hafði verið gefið fyrr í stríðinu til ótakmarkaðra loftárása á Þýskaland og þýsk hernaðaryfirvöld gáfu út svipað leyfi. Brjálæði loftárása í styrjöld má vel lýsa með eftirfarandi sögu sem skjalaverðir í Hamborg sögðu mér. Ég var þá að leita að skjölum um ákveðna verslun Altonumanna á Íslandi á seinni hluta 18. aldar en engin skjöl fundust. Saga þessi hefur hvergi verið skrifuð því að saga loftárásanna er enn þá eiginlega bannhelg í Þýskalandi. Um svipað leyti og Dresden var lögð í rúst var bresk herflugvél á sveimi yfir Altona, sem var orðinn hluti Hamborgar. Allar loftvarnabyssur voru horfnar því að þýskar hersveitir voru svo til flúnar frá borginni en breskar hersveitir voru skammt undan og vitað að þær myndu innan skamms hertaka borgina. Herflugmaðurinn horfði yfir borgina og við blasti fögur sjón frá sjónarhóli sprengjuflugmanns; öll sjáanleg hús voru sundurskotin. Nema við eina götu stóð eitt hús með öllu óskemmt. Af einskærri fullkomnunaráráttu sá flugmaðurinn að við svo búið mátti ekki standa. Hann sprengdi þetta eina hús sundur og saman. Þar sprakk skjalasafn Altonaborgar með skjölum allt frá 17. öld. Það er auðvitað ekki hægt að finna neinn hernaðartilgang í slíkri athöfn fremur en í lofthernaði yfirleitt. Hér er á ferðinni afvegaleidd tæknihyggja í bland við hefndarhug. Sennilega má með slíkri sálfræði skýra loftárásina á Dresden vorið 1945 þegar hundruð þúsunda óbreyttra borgara létu lífið. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig töpuðu Þjóðverjar seinni heimsstyrjöldinni? eftir Skúla Sæland
- Hvað getið þið sagt mér um orrustuna við Midway? eftir Skúla Sæland
- Wikipedia.com - Dresden. Sótt 22.6.2010.