Sólin Sólin Rís 05:44 • sest 21:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:13 • Síðdegis: 21:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:15 • Síðdegis: 15:13 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 05:44 • sest 21:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:13 • Síðdegis: 21:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:15 • Síðdegis: 15:13 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða þættir hafa áhrif á sjávarflóð við Ísland?

Sigurður Sigurðarson

Sjávarflóð verða vegna samspils ýmissa þátta bæði frá sjó og landi. Frá sjó eru sjávar- og ölduhæð mikilvægustu þættirnir. Sjávarhæð ræðst síðan af sjávarföllum annars vegar og svokölluðum áhlaðanda hins vegar. Áhlaðandi er af þrennum toga, vegna lágs loftþrýstings, álandsvinds og hækkunar sjávarborðs innan brimgarðsins.

Suðvestan- og vestanlands eru sjávarföllin áhrifamesti þátturinn þegar kemur að sjávarhæð. Þannig er flóðhæð á meðalstórstreymi í Reykjavík +4,0 m á meðan fjaran er +0,2 m. Á smástreymi er meðalflóðhæð í +3,0 m og fjaran í +1,3 m. Þessar tölur eru fyrir meðalstór- og smástreymi, en straumarnir eru misstórir. Þannig náði stórstreymið í sjávarflóðinu í byrjun mars 2025 hæst í +4,4 m. Þessar hæðir eru í hæðarkerfi hafna.

Loftþrýstingur hefur áhrif á sjávarhæð, hár loftþrýstingur ýtir sjávarborði niður en við lágan loftþrýsting hækkar sjávarborð og er það kallað loftþrýstingsáhlaðandi. Í dýpstu lægðum getur loftþrýstingsáhlaðandi mest orðið um 0,8 m hér við land. Við ákveðnar aðstæður getur álandsvindur myndað vindáhlaðanda. Til þess að það geti orðið að einhverju marki þarf aðdýpi að vera lítið á tiltölulega stóru hafsvæði. Víðast hvar verður vindáhlaðandi hér við land ekki meiri en um 0,3 m, aðallega vegna þess að víðast hvar er aðdjúpt. Ekki vantar þó vindinn.

Sjávarflóð verða vegna samspils ýmissa þátta bæði frá sjó og landi. Frá sjó eru sjávar- og ölduhæð mikilvægustu þættirnir. Myndin sýnir afleiðingar sjávarflóðs við Fiskislóð í Reykjavík í mars 2025.

Á meðan áhlaðandi vegna lágs loftþrýstings og vinds er lítið breytilegur á nokkuð stórum svæðum, þá er ölduáhlaðandi mjög staðbundinn. Ölduáhlaðandi myndast innan brimgarðs þar sem hækkað sjávarborð vegna öldubrota á ekki greiðan aðgang á haf út. Ölduáhlaðandi eykst bæði með hækkandi ölduhæð og sveiflutíma öldunnar. Víðast hvar verður ölduáhlaðandi ekki meiri en um 0,5 m en getur orðið meiri við ákveðnar aðstæður. Inni í höfnum þar sem gott skjól er fyrir öldu, eins og í Reykjavíkurhöfn, er hins vegar enginn ölduáhlaðandi.

Sjávarflóð verða síðan þegar há alda nær upp að strönd og sjór gefur yfir náttúrulegan sjávarkamb eða sjóvarnarmannvirki. Víða eru grynningar utan við ströndina og þá verður aldan sem veldur ágjöfinni dýpisháð, því hærri sem sjávarstaðan er þeim mun hærri alda nær upp að ströndinni og ágjöf meiri.

Sjávarflóð eru sem sagt samspil veðurþátta og sjávarfalla sem ráðast af stöðu tungls og sólar. Veðurfarsþættirnir, loftþrýstingur, vindur, ölduhæð og sveiflutími öldunnar eru háðir. Eftir því sem loftþrýstingur er lægri er vindhraði meiri sem kallar á hærri ölduhæð og eftir því sem veðrið stendur lengur yfir lengist sveiflutími öldunnar. Sjávarföllin eru hins vegar óháður þáttur.

Ef við hugsum okkur mjög djúpa lægð sem nálgast landið úr suðvestri þá getur sú lægð komið á smástreymi, eða á lágri sjávarstöðu og ekki valdið neinu sjávarflóði. Mun grynnri lægð sem kemur á háu stórstreymi og hittir á háflóðið getur hins vegar valdið miklu sjávarflóði. Þannig fer ekki saman endurkomutími öldu á hafi og endurkomutími flóðaatburðar.

Vegagerðin hefur skoðað sjávarflóðið sem varð á Reykjanesi og innanverðum Faxaflóa 1. til 3. mars 2025. Hæð kenniöldu[1] utan Faxaflóa var yfir 10 m í nær 24 klukkustundir, frá hádegi 2. mars, og varð hæst um 16,0 m. Sé ekki tekið tillit til öldustefnu hefur 16 m há kennialda endurkomutíma um 20 ár, en hærri endurkomutíma sé tekið tillit til öldustefnu.

Í sjávarflóðinu sem varð á Reykjanesi og innanverðum Faxaflóa 1. til 3. mars 2025 var hæð kenniöldu utan Faxaflóa yfir 10 m í nær 24 klukkustundir, frá hádegi 2. mars, og varð hæst um 16,0 m.

Í Reykjavík og á Akranesi mældist sjávarhæð hæst um +4,6 m sem er um 0,2 m lægra en sjávarhæð með 1 árs endurkomutíma. Í Sandgerði mældist sjávarhæð hæst um +4,5 m sem svarar til um 10 ára endurkomutíma. Þegar þessi texti er skrifaður, í byrjun apríl 2025, hefur Vegagerðin ekki metið endurkomutíma flóðaatburðarins en kemur til með að gera það fljótlega.

Frá landi fer umfang sjávarflóða í fyrsta lagi eftir hæð náttúrlegra sjávarkamba eða sjóvarnarmannvirkja. Náttúrulegir sjávarkambar byggjast oft upp í þá hæð að það gefur yfir þá nokkrum sinnum á ári. Sjóvarnarmannvirki eru annars vegar byggð til að verjast landbroti og hins vegar til að takmarka ágjöf yfir þau. Í öðru lagi ræðst umfang sjávarflóða af landhæð innan sjávarkamba eða mannvirkja. Ef land er lágt og engin greið leið fyrir sjóinn sem gengur á land að renna aftur út í sjó, þá safnast hann upp og flóðhæð á landi verður hærri en sjávarborðið fyrir utan. Fyrir eignatjón skiptir máli að gólfhæð sé ofar en landhæð og hvort land á lágsvæðum við sjó hallar að húsum eða frá þeim.

Mynd sem sýnir aðstæður á hringveginum í Hofsvík á Kjalarnesi að morgni 3. mars 2025.

Vegna hættu sem stafar af sjávarflóðum þá er Vegagerðin umsagnaraðili fyrir aðalskipulag og deiliskipulag á lágsvæðum við sjó. Við umsagnir er litið til viðmiðana Vegagerðarinnar um lágmarks land- og gólfhæðir, sem taka mið af jarðskorpuhreyfingum og sjávarstöðuhækkunum sem ákvarðaðar eru hverju sinni miðað við nýjustu upplýsingar. Þar er tekið tillit til skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og landhæðabreytinga mældum með GPS-mælistöðvum og gervitunglum. Fyrir almennt skipulag miða viðmiðunarreglurnar við 100 ára líftíma mannvirkja og skipulags. Þá er tekið mið af 100 ára endurkomutíma flóðaatburðar og áætlaðri afstöðubreytingu lands og sjávar næstu 100 árin.

Með hækkandi sjávarstöðu vegna hnattrænnar hlýnunar eykst hætta á sjávarflóðum. Ekki aðeins minnkar fríborð sjávarkamba og sjóvarna, þegar sjávarborð hækkar, heldur kemst hærri alda inn á grynningar framan við sjávarkamba og sjóvarnir þar sem aldan er dýpisháð. Hvort tveggja eykur ágjöf og flóðahættu.

Tilvísun:
  1. ^ Kennialda er skilgreind sem meðaltal af hæsta þriðjungi af öllum öldum á ákveðnum tíma.

Myndir:

Höfundur

Sigurður Sigurðarson

strandverkfræðingur hjá Vegagerðinni

Útgáfudagur

9.4.2025

Spyrjandi

Örn Lárusson

Tilvísun

Sigurður Sigurðarson. „Hvaða þættir hafa áhrif á sjávarflóð við Ísland?“ Vísindavefurinn, 9. apríl 2025, sótt 18. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87718.

Sigurður Sigurðarson. (2025, 9. apríl). Hvaða þættir hafa áhrif á sjávarflóð við Ísland? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87718

Sigurður Sigurðarson. „Hvaða þættir hafa áhrif á sjávarflóð við Ísland?“ Vísindavefurinn. 9. apr. 2025. Vefsíða. 18. apr. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87718>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða þættir hafa áhrif á sjávarflóð við Ísland?
Sjávarflóð verða vegna samspils ýmissa þátta bæði frá sjó og landi. Frá sjó eru sjávar- og ölduhæð mikilvægustu þættirnir. Sjávarhæð ræðst síðan af sjávarföllum annars vegar og svokölluðum áhlaðanda hins vegar. Áhlaðandi er af þrennum toga, vegna lágs loftþrýstings, álandsvinds og hækkunar sjávarborðs innan brimgarðsins.

Suðvestan- og vestanlands eru sjávarföllin áhrifamesti þátturinn þegar kemur að sjávarhæð. Þannig er flóðhæð á meðalstórstreymi í Reykjavík +4,0 m á meðan fjaran er +0,2 m. Á smástreymi er meðalflóðhæð í +3,0 m og fjaran í +1,3 m. Þessar tölur eru fyrir meðalstór- og smástreymi, en straumarnir eru misstórir. Þannig náði stórstreymið í sjávarflóðinu í byrjun mars 2025 hæst í +4,4 m. Þessar hæðir eru í hæðarkerfi hafna.

Loftþrýstingur hefur áhrif á sjávarhæð, hár loftþrýstingur ýtir sjávarborði niður en við lágan loftþrýsting hækkar sjávarborð og er það kallað loftþrýstingsáhlaðandi. Í dýpstu lægðum getur loftþrýstingsáhlaðandi mest orðið um 0,8 m hér við land. Við ákveðnar aðstæður getur álandsvindur myndað vindáhlaðanda. Til þess að það geti orðið að einhverju marki þarf aðdýpi að vera lítið á tiltölulega stóru hafsvæði. Víðast hvar verður vindáhlaðandi hér við land ekki meiri en um 0,3 m, aðallega vegna þess að víðast hvar er aðdjúpt. Ekki vantar þó vindinn.

Sjávarflóð verða vegna samspils ýmissa þátta bæði frá sjó og landi. Frá sjó eru sjávar- og ölduhæð mikilvægustu þættirnir. Myndin sýnir afleiðingar sjávarflóðs við Fiskislóð í Reykjavík í mars 2025.

Á meðan áhlaðandi vegna lágs loftþrýstings og vinds er lítið breytilegur á nokkuð stórum svæðum, þá er ölduáhlaðandi mjög staðbundinn. Ölduáhlaðandi myndast innan brimgarðs þar sem hækkað sjávarborð vegna öldubrota á ekki greiðan aðgang á haf út. Ölduáhlaðandi eykst bæði með hækkandi ölduhæð og sveiflutíma öldunnar. Víðast hvar verður ölduáhlaðandi ekki meiri en um 0,5 m en getur orðið meiri við ákveðnar aðstæður. Inni í höfnum þar sem gott skjól er fyrir öldu, eins og í Reykjavíkurhöfn, er hins vegar enginn ölduáhlaðandi.

Sjávarflóð verða síðan þegar há alda nær upp að strönd og sjór gefur yfir náttúrulegan sjávarkamb eða sjóvarnarmannvirki. Víða eru grynningar utan við ströndina og þá verður aldan sem veldur ágjöfinni dýpisháð, því hærri sem sjávarstaðan er þeim mun hærri alda nær upp að ströndinni og ágjöf meiri.

Sjávarflóð eru sem sagt samspil veðurþátta og sjávarfalla sem ráðast af stöðu tungls og sólar. Veðurfarsþættirnir, loftþrýstingur, vindur, ölduhæð og sveiflutími öldunnar eru háðir. Eftir því sem loftþrýstingur er lægri er vindhraði meiri sem kallar á hærri ölduhæð og eftir því sem veðrið stendur lengur yfir lengist sveiflutími öldunnar. Sjávarföllin eru hins vegar óháður þáttur.

Ef við hugsum okkur mjög djúpa lægð sem nálgast landið úr suðvestri þá getur sú lægð komið á smástreymi, eða á lágri sjávarstöðu og ekki valdið neinu sjávarflóði. Mun grynnri lægð sem kemur á háu stórstreymi og hittir á háflóðið getur hins vegar valdið miklu sjávarflóði. Þannig fer ekki saman endurkomutími öldu á hafi og endurkomutími flóðaatburðar.

Vegagerðin hefur skoðað sjávarflóðið sem varð á Reykjanesi og innanverðum Faxaflóa 1. til 3. mars 2025. Hæð kenniöldu[1] utan Faxaflóa var yfir 10 m í nær 24 klukkustundir, frá hádegi 2. mars, og varð hæst um 16,0 m. Sé ekki tekið tillit til öldustefnu hefur 16 m há kennialda endurkomutíma um 20 ár, en hærri endurkomutíma sé tekið tillit til öldustefnu.

Í sjávarflóðinu sem varð á Reykjanesi og innanverðum Faxaflóa 1. til 3. mars 2025 var hæð kenniöldu utan Faxaflóa yfir 10 m í nær 24 klukkustundir, frá hádegi 2. mars, og varð hæst um 16,0 m.

Í Reykjavík og á Akranesi mældist sjávarhæð hæst um +4,6 m sem er um 0,2 m lægra en sjávarhæð með 1 árs endurkomutíma. Í Sandgerði mældist sjávarhæð hæst um +4,5 m sem svarar til um 10 ára endurkomutíma. Þegar þessi texti er skrifaður, í byrjun apríl 2025, hefur Vegagerðin ekki metið endurkomutíma flóðaatburðarins en kemur til með að gera það fljótlega.

Frá landi fer umfang sjávarflóða í fyrsta lagi eftir hæð náttúrlegra sjávarkamba eða sjóvarnarmannvirkja. Náttúrulegir sjávarkambar byggjast oft upp í þá hæð að það gefur yfir þá nokkrum sinnum á ári. Sjóvarnarmannvirki eru annars vegar byggð til að verjast landbroti og hins vegar til að takmarka ágjöf yfir þau. Í öðru lagi ræðst umfang sjávarflóða af landhæð innan sjávarkamba eða mannvirkja. Ef land er lágt og engin greið leið fyrir sjóinn sem gengur á land að renna aftur út í sjó, þá safnast hann upp og flóðhæð á landi verður hærri en sjávarborðið fyrir utan. Fyrir eignatjón skiptir máli að gólfhæð sé ofar en landhæð og hvort land á lágsvæðum við sjó hallar að húsum eða frá þeim.

Mynd sem sýnir aðstæður á hringveginum í Hofsvík á Kjalarnesi að morgni 3. mars 2025.

Vegna hættu sem stafar af sjávarflóðum þá er Vegagerðin umsagnaraðili fyrir aðalskipulag og deiliskipulag á lágsvæðum við sjó. Við umsagnir er litið til viðmiðana Vegagerðarinnar um lágmarks land- og gólfhæðir, sem taka mið af jarðskorpuhreyfingum og sjávarstöðuhækkunum sem ákvarðaðar eru hverju sinni miðað við nýjustu upplýsingar. Þar er tekið tillit til skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi og landhæðabreytinga mældum með GPS-mælistöðvum og gervitunglum. Fyrir almennt skipulag miða viðmiðunarreglurnar við 100 ára líftíma mannvirkja og skipulags. Þá er tekið mið af 100 ára endurkomutíma flóðaatburðar og áætlaðri afstöðubreytingu lands og sjávar næstu 100 árin.

Með hækkandi sjávarstöðu vegna hnattrænnar hlýnunar eykst hætta á sjávarflóðum. Ekki aðeins minnkar fríborð sjávarkamba og sjóvarna, þegar sjávarborð hækkar, heldur kemst hærri alda inn á grynningar framan við sjávarkamba og sjóvarnir þar sem aldan er dýpisháð. Hvort tveggja eykur ágjöf og flóðahættu.

Tilvísun:
  1. ^ Kennialda er skilgreind sem meðaltal af hæsta þriðjungi af öllum öldum á ákveðnum tíma.

Myndir:...