Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Dýpsta lægð sem komið hefur yfir Ísland síðan mælingar hófust var 919,7 mb.
Loftþrýstingur er nú að jafnaði tilfærður í einingu sem nefnist hektópaskal eða hPa og er hún hluti af alþjóðlega einingakerfinu SI. Ástæða þess að forskeytið hektó- er notað er sú að eitt hPa er sama og eldri eining, millibarinn (mb), þannig að 1000hPa eru 1000mb. Þrýstitölur í textanum hér á eftir eru því hinar sömu hvort sem við tölum um hPa eða mb. Millibarinn er hluti af eldra einingakerfi, svokölluðu cgs-kerfi þar sem sentimetri (cm), gramm (g) og sekúnda (s) voru grunneiningar, en ekki metri (m), kílógramm (kg) og sekúnda sem eru í SI-kerfinu.
Þegar talað er um loftþrýsting í sambandi við dýpt lægða eða þrýsting í öðrum veðurkerfum er ætíð átt við þrýsting við sjávarmál. Lægsti þrýstingur við sjávarmál sem vitað er um hér á landi, og þar með dýpsta lægð sem komið hefur yfir Ísland síðan mælingar hófust, mældist í Vestmannaeyjum 2. desember 1929 kl. 9:20 og var 919,7 hPa.
Svo vel vildi til að Gunnar Þ. Jónatansson athugunarmaður mældi þrýstinginn á 10 mínútna fresti um það bil sem hann var lægstur. Loftvogin á Stórhöfða var talin í 122 m hæð yfir sjávarmáli og því er hæðarleiðrétting nokkur. Samanburðarathuganir gefa til kynna að loftvogin sem í notkun var hafi verið nokkuð rétt og leiðréttingartöflurnar sömuleiðis.
Annað atriði truflar þó þessa mælingu nokkuð. Ofsarok var af austri og síðar suðaustri þennan morgun. Mikil hvassviðri valda minniháttar sveiflum í loftþrýstingi vegna sogs í húsum auk þess sem athugunarstöðin er á höfða eins og nafnið bendir til og loftið þarf að lyftast yfir hann eða framhjá honum. Höfðinn verkar því í hvassviðri á svipaðan hátt og flugvélarvængur, loftið þarf að fara lengri leið en ella og þrýstingur fellur því við yfirborð hans eins og við efra borð vængja og er lægri þar en umhverfis. Í miklum vindi geta þessi áhrif verið umtalsverð.
Páll Bergþórsson veðurfræðingur reiknaði á sínum tíma hver þessi lækkun ætti að vera við mismunandi vindhraða. Með nákvæmri athugun á veðurkortum áætlaði hann síðan þrýsting í Vestmannaeyjum út frá bæði vindi á svæðinu og þrýstingi og þrýstibreytingum á öðrum nálægum stöðvum. Áætlaður þrýstingur var þá borinn saman við athugaðan þrýsting og mismunur athugaður. Í ljós kom að mismunurinn var raunverulega háður vindhraða, en þó var hann ívið minni en hin fræðilega lækkun gaf til kynna. Þessi þrýstileiðrétting Páls er nú notuð við greiningu á veðurkortum á Veðurstofunni og reyndar nota fáeinar erlendar veðurstofur hana líka.
Í desember 1929 var enginn vindhraðamælir til í Vestmannaeyjum og vindur kl. 8 um morguninn áætlaður 11 vindstig eða 30 m/s. Hafi sami vindur eða svipaður verið kl. 9:20 þegar loftþrýstingur mældist lægstur, ætti leiðrétting samkvæmt töflu Páls að vera um 3,9 hPa. „Réttur“ þrýstingur hafi því verið 923,6 hPa. Þetta væri samt lægsti þrýstingur við sjávarmál á Íslandi. Rúmum þremur árum síðar (3. janúar 1933) mældist þrýstingur í Vestmannaeyjum 923,9 hPa.
Allt fram til 1986 var metið frá 1929 talið lægsti þrýstingur á norðurhveli utan hitabeltisins. Í desember það ár mældust 920 hPa á bauju fyrir suðvestan land, en hún var ekki forrituð til að senda lægri þrýsting. Lægðin sú er talin hafa verið 914 hPa í lægðarmiðju. Ámóta lægð eða jafnvel dýpri var á ferðinni fyrir sunnan og suðaustan land í janúar 1993 og er talið að þrýstingur í lægðarmiðju hafi verið 910 hPa eða lægri.
Mynd: Mats: Myndagallerí
Trausti Jónsson. „Hvað er dýpsta lægð í mb sem komið hefur yfir Ísland síðan mælingar hófust?“ Vísindavefurinn, 23. maí 2005, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5014.
Trausti Jónsson. (2005, 23. maí). Hvað er dýpsta lægð í mb sem komið hefur yfir Ísland síðan mælingar hófust? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5014
Trausti Jónsson. „Hvað er dýpsta lægð í mb sem komið hefur yfir Ísland síðan mælingar hófust?“ Vísindavefurinn. 23. maí. 2005. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5014>.