Sólin Sólin Rís 07:49 • sest 19:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 07:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:41 • Síðdegis: 19:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 12:55 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:49 • sest 19:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 07:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:41 • Síðdegis: 19:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 12:55 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hefur íslenskt samfélag einhvern tíma verið stéttlaust?

Axel Kristinsson

Svarið við spurningunni veltur á tvennu. Annars vegar því hvaða skilning við leggjum í orðið stéttleysi og þar með stéttskiptingu og hins vegar því hver raunveruleikinn var á ýmsum tímabilum Íslandssögunnar. Um hríð hefur sú hugmynd verið nokkuð útbreidd meðal almennings að Ísland sé og hafi verið stéttlaust samfélag.[1] Fáir fræðimenn myndu þó taka undir það og hafa rannsóknir sýnt fram á verulegan ójöfnuð bæði í nútíð og fortíð.[2] Á fyrri tímum áttu fáir bændur jarðir sínar sjálfir heldur voru þær í eigu stórjarðeigenda, konungs og kirkju. Stórauðugar ættir einokuðu oftast embætti og nutu að auki fríðinda sem þeim tengdust, eins og skattfrelsis.

Stéttskiptingu af þessu tagi getum við séð í íslenskum ritheimildum eins langt aftur og þær ná eða til 12. aldar. Aftur á móti eru flestir fræðimenn, sem um það hafa fjallað, sammála um að ójöfnuður meðal bænda hafi farið vaxandi á þjóðveldisöld (930-1262).[3] Þannig virðist líklegt að um 1100 hafi mun fleiri bændur átt jarðir sínar en síðar varð.[4] Því er raunhæfur möguleiki á því að stéttskipting á fyrri hluta þjóðveldisaldar (fyrir 1100) hafi verið enn minni og við séum að horfa á samfellda þróun í átt til meiri stéttskiptingar sem hefur hafist eftir að landið varð fullbyggt. Það gæti þýtt að fyrst eftir landnám hafi íslenskt samfélag í raun verið stéttlaust.

Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal. Fyrirmynd bæjarins er Stöng sem fór í eyði eftir Heklugos árið 1104.

Hér verður að slá þann varnagla að kerfisbundinn mannamunur hefur áreiðanlega alltaf tíðkast í einhverjum mæli. Munur var á stöðu karla og kvenna, frjáls fólks og ánauðugs, barna og fullorðinna, svo eitthvað sé nefnt. Þessi mannamunur er þó mest áberandi innan fjölskyldna og heimila. En ef við viljum líta á heimili sem grunneiningar samfélagsins og við teljum að staða þeirra hafi verið tiltölulega jöfn, fyrst í stað, þá gæti það réttlætt að tala um stéttlaust samfélag þrátt fyrir mismunun innan heimila. Spurningin verður þá aðeins hvort ástæða sé til að ætla að heimili á Íslandi hafi í raun haft tiltölulega jafna stöðu og, ef svo var, af hverju það breyttist.

Ritheimildir okkar um elstu tíma eru fáar sem hægt er að treysta, varla annað en Íslendingabók Ara fróða (frá um 1130) sem ætti að vera nokkuð trúverðug um 11. öld en ekki mikið lengra aftur en það. Íslendingasögur eru miklar að vöxtum en ekki trúverðugar sem heimildir um samfélag sögutímans. Fátt er hægt að ráða um stéttskiptingu á elstu tíð af frásögnum þessara heimilda. Fornleifar gefa ekki til kynna stéttskipt samfélag fyrr en í fyrsta lagi á 11. öld.[5] Aftur á móti geyma öll samfélög einhver merki um fortíð sína þannig að hægt er að leita vísbendinga um það sem á undan fór í því sem við vitum um 12. og 13. öld, þegar heimildir eru orðnar betri. Hér er hægt að sjá ýmsar vísbendingar um að samfélagið hafi áður einkennst af meiri jöfnuði. Þannig tíðkaðist alveg fram til um 1250 að allir vopnfærir karlar voru kallaðir upp þegar höfðingjar höfðu úti herútboð. Slíkir almúgaherir voru afar sjaldgæfir í Evrópu á þessum tíma og eru yfirleitt merki um hefðir sem tengjast jöfnuði.[6]

Það merkilegasta af þessu er þó ef til vill sjálf stjórnskipanin sem á sér engar nánar hliðstæður í heiminum að því er best verður séð. Hún er áreiðanlega sjálfsprottin út frá þeim aðstæðum sem ríktu á Íslandi fyrst eftir landnám og geymir þannig minningu um um þær. Hið takmarkaða höfðingjaveldi sem við sjáum í Íslendingasögum og samtímasögum frá 12. öld og upphafi þeirrar 13. endurspeglar ekki að öllu leyti ákvæði Grágásarlaga um stjórnskipunina. Grágás er að stofni til frá um 1120 og hún gefur mynd af samfélagi þar sem vald höfðingja var talsvert minna en síðar varð. Má þar nefna að goðar gátu misst goðorð sín af litlu tilefni og svo virðist sem þau hafi almennt ekki orðið arfgeng fyrr en á fyrri hluta 12. aldar, sem stangast á við frásagnir Íslendingasagna.[7]

Opna úr Staðarhólsbók (AM 334 fol.) en hún er annað helsta handrit Grágásar. Grágás er elsta lögbók Íslendinga, að stofni til frá um 1120 og hún gefur mynd af samfélagi þar sem vald höfðingja var talsvert minna en síðar varð.

Sterkustu rökin fyrir stéttleysi samfélagsins í upphafi koma þó kannski frá því sem almennt er vitað um landnemasamfélög. Þegar bændur nema land í nýju landi þá er yfirstéttin yfirleitt skilin eftir heima eða nær að minnsta kosti ekki fótfestu fyrr en löngu síðar. Ástæðan er sú að í landbúnaðarsamfélögum byggir yfirstéttin afkomu sína að mestu á því að landrými er takmarkað en hún hefur yfirráð yfir því og getur þannig stýrt því hverjir fá jarðnæði og hverjir ekki. Á móti fær hún umbun af einhverju tagi, landskuld eða þjónustu. En þar sem verið er að nema nýtt land þá er, eðli málsins samkvæmt, nóg landrými og bændafólk þarf ekki að greiða neitt fyrir það. Það getur sest að þar sem því sýnist en yfirstéttin fær ekkert fyrir sinn snúð. Höfðingjar sem þykjast slá eign sinni á stór landvæði eiga erfitt með að fá til sín leiguliða en þurfa þess í stað að kljást við fólk sem sest að í óleyfi. Reynslan af svona landnemasamfélögum er sú að stéttskipting minnkar til mikilla muna eða þurrkast út.[8]

Aftur á móti er ljóst að stéttskipting varð til að nýju og fór vaxandi þegar leið á þjóðveldisöld. Oft hefur það verið rakið til lögtöku tíundar 1097 og má vera að það skipti einhverju máli.[9] Þó getur það ekki verið meginskýringin þar sem stéttskipting er afar almennt fyrirbæri í mannlegum samfélögum og fyrstu merki um hana sjást á Íslandi fyrir daga tíundar. Því verður að leita til almennra kenninga um stéttskiptingu í mannlegum samfélögum en þær eru margar og misjafnar og er ekki rúm til að fjalla um þær hér enda eiga þær misjafnlega vel við Ísland.

Sá sem hér skrifar telur líklegast að hin svokölluðu Matteusaráhrif séu undirrótin en það hugtak má rekja til bandaríska félagsfræðingsins Robert K. Merton.[10] Nafnið er sótt í þessa ritningargrein í Matteusarguðspjalli (25:29): „Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.“ Matteusaráhrifin þýða að gæði af ýmsu tagi (auður, völd, virðing og svo framvegis) er hægt að nota til að sanka að sér enn meiri gæðum. Það leiðir sjálfkrafa til þess að þau safnast á fáar hendur. Margir kannast við þetta í samtímanum, til dæmis í því hvernig kvóti í sjávarútvegi hefur þjappast saman.

Stéttskipting er þannig fyrirbæri sem hefur lengi fylgt mannlegum samfélögum, að minnsta kosti hinum stærri og flóknari og kemur upp aftur og aftur þótt hún geti horfið tímabundið. Litlum og einföldum samfélögum tekst þó oftast að halda henni varanlega niðri.[11]

Tilvísanir:
  1. ^ Guðmundur Ævar Oddsson, „Hugmyndir um stéttleysi Íslendinga.“ Íslenska þjóðfélagið 2 (2011), 27-46.
  2. ^ Bragi Guðmundsson, Efnamenn og eignir þeirra um 1700: Athugun á íslenskum gósseigendum í jarðabók Árna og Páls og fleiri heimildum. Reykjavík 1985; Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson, Ójöfnuður á Íslandi: Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi. Reykjavík 2017.
  3. ^ Til dæmis: Sverrir Jakobsson, „Frá þrælahaldi til landeigendavalds: Íslenskt miðaldasamfélag, 1100-1400.“ Saga LXIII:2 (2005), 99-129, hér 99-100.
  4. ^ Árni Daníel Júlíusson, Landbúnaðarsaga Íslands 1. Reykjavík 2013, 104-105.
  5. ^ Bjarni F. Einarsson, The Settlement of Iceland: A Critical Approach: Granastaðir and Ecological Heritage. Göteborg (1994), 64 og víðar; Douglas J. Bolender, „House, land, and labor in a frontier landscape: The Norse Colonization of Iceland,“ í The Durable House: House Society Models in Archaeology, ritstj. Robin A. Beck. Carbondale (2007), 400–421, hér 402.
  6. ^ Axel Kristinsson, Expansions: Competition and Conquest in Europe Since the Bronze Age. Reykjavík (2010), 219-221.
  7. ^ Axel Kristinsson, „Voru goðorð arfgeng fyrir 1100? Saga LX:2 (2022), 118-144.
  8. ^ R. Cole. Harris, „The simplification of Europe overseas,“ Annals of the Association of American Geographers 67:4 (1977), 469–483.
  9. ^ Til dæmis: Björn Þorsteinsson, Íslensk miðaldasaga. Reykjavík (1978), 105-106.
  10. ^ Robert K. Merton, „The Matthew effect in science.“ Science 159 (1968), 53-63.
  11. ^ Axel Kristinsson, „Af hverju stafar stéttaskipting? Fyrri hluti: Tristan da Cunha og jöfnuður í smáum samfélögum.“ Demos 1 (2023), 101-108.

Myndir:

Höfundur

Axel Kristinsson

sagnfræðingur

Útgáfudagur

13.3.2025

Spyrjandi

Linda Björg

Tilvísun

Axel Kristinsson. „Hefur íslenskt samfélag einhvern tíma verið stéttlaust?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2025, sótt 14. mars 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87643.

Axel Kristinsson. (2025, 13. mars). Hefur íslenskt samfélag einhvern tíma verið stéttlaust? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87643

Axel Kristinsson. „Hefur íslenskt samfélag einhvern tíma verið stéttlaust?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2025. Vefsíða. 14. mar. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87643>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hefur íslenskt samfélag einhvern tíma verið stéttlaust?
Svarið við spurningunni veltur á tvennu. Annars vegar því hvaða skilning við leggjum í orðið stéttleysi og þar með stéttskiptingu og hins vegar því hver raunveruleikinn var á ýmsum tímabilum Íslandssögunnar. Um hríð hefur sú hugmynd verið nokkuð útbreidd meðal almennings að Ísland sé og hafi verið stéttlaust samfélag.[1] Fáir fræðimenn myndu þó taka undir það og hafa rannsóknir sýnt fram á verulegan ójöfnuð bæði í nútíð og fortíð.[2] Á fyrri tímum áttu fáir bændur jarðir sínar sjálfir heldur voru þær í eigu stórjarðeigenda, konungs og kirkju. Stórauðugar ættir einokuðu oftast embætti og nutu að auki fríðinda sem þeim tengdust, eins og skattfrelsis.

Stéttskiptingu af þessu tagi getum við séð í íslenskum ritheimildum eins langt aftur og þær ná eða til 12. aldar. Aftur á móti eru flestir fræðimenn, sem um það hafa fjallað, sammála um að ójöfnuður meðal bænda hafi farið vaxandi á þjóðveldisöld (930-1262).[3] Þannig virðist líklegt að um 1100 hafi mun fleiri bændur átt jarðir sínar en síðar varð.[4] Því er raunhæfur möguleiki á því að stéttskipting á fyrri hluta þjóðveldisaldar (fyrir 1100) hafi verið enn minni og við séum að horfa á samfellda þróun í átt til meiri stéttskiptingar sem hefur hafist eftir að landið varð fullbyggt. Það gæti þýtt að fyrst eftir landnám hafi íslenskt samfélag í raun verið stéttlaust.

Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal. Fyrirmynd bæjarins er Stöng sem fór í eyði eftir Heklugos árið 1104.

Hér verður að slá þann varnagla að kerfisbundinn mannamunur hefur áreiðanlega alltaf tíðkast í einhverjum mæli. Munur var á stöðu karla og kvenna, frjáls fólks og ánauðugs, barna og fullorðinna, svo eitthvað sé nefnt. Þessi mannamunur er þó mest áberandi innan fjölskyldna og heimila. En ef við viljum líta á heimili sem grunneiningar samfélagsins og við teljum að staða þeirra hafi verið tiltölulega jöfn, fyrst í stað, þá gæti það réttlætt að tala um stéttlaust samfélag þrátt fyrir mismunun innan heimila. Spurningin verður þá aðeins hvort ástæða sé til að ætla að heimili á Íslandi hafi í raun haft tiltölulega jafna stöðu og, ef svo var, af hverju það breyttist.

Ritheimildir okkar um elstu tíma eru fáar sem hægt er að treysta, varla annað en Íslendingabók Ara fróða (frá um 1130) sem ætti að vera nokkuð trúverðug um 11. öld en ekki mikið lengra aftur en það. Íslendingasögur eru miklar að vöxtum en ekki trúverðugar sem heimildir um samfélag sögutímans. Fátt er hægt að ráða um stéttskiptingu á elstu tíð af frásögnum þessara heimilda. Fornleifar gefa ekki til kynna stéttskipt samfélag fyrr en í fyrsta lagi á 11. öld.[5] Aftur á móti geyma öll samfélög einhver merki um fortíð sína þannig að hægt er að leita vísbendinga um það sem á undan fór í því sem við vitum um 12. og 13. öld, þegar heimildir eru orðnar betri. Hér er hægt að sjá ýmsar vísbendingar um að samfélagið hafi áður einkennst af meiri jöfnuði. Þannig tíðkaðist alveg fram til um 1250 að allir vopnfærir karlar voru kallaðir upp þegar höfðingjar höfðu úti herútboð. Slíkir almúgaherir voru afar sjaldgæfir í Evrópu á þessum tíma og eru yfirleitt merki um hefðir sem tengjast jöfnuði.[6]

Það merkilegasta af þessu er þó ef til vill sjálf stjórnskipanin sem á sér engar nánar hliðstæður í heiminum að því er best verður séð. Hún er áreiðanlega sjálfsprottin út frá þeim aðstæðum sem ríktu á Íslandi fyrst eftir landnám og geymir þannig minningu um um þær. Hið takmarkaða höfðingjaveldi sem við sjáum í Íslendingasögum og samtímasögum frá 12. öld og upphafi þeirrar 13. endurspeglar ekki að öllu leyti ákvæði Grágásarlaga um stjórnskipunina. Grágás er að stofni til frá um 1120 og hún gefur mynd af samfélagi þar sem vald höfðingja var talsvert minna en síðar varð. Má þar nefna að goðar gátu misst goðorð sín af litlu tilefni og svo virðist sem þau hafi almennt ekki orðið arfgeng fyrr en á fyrri hluta 12. aldar, sem stangast á við frásagnir Íslendingasagna.[7]

Opna úr Staðarhólsbók (AM 334 fol.) en hún er annað helsta handrit Grágásar. Grágás er elsta lögbók Íslendinga, að stofni til frá um 1120 og hún gefur mynd af samfélagi þar sem vald höfðingja var talsvert minna en síðar varð.

Sterkustu rökin fyrir stéttleysi samfélagsins í upphafi koma þó kannski frá því sem almennt er vitað um landnemasamfélög. Þegar bændur nema land í nýju landi þá er yfirstéttin yfirleitt skilin eftir heima eða nær að minnsta kosti ekki fótfestu fyrr en löngu síðar. Ástæðan er sú að í landbúnaðarsamfélögum byggir yfirstéttin afkomu sína að mestu á því að landrými er takmarkað en hún hefur yfirráð yfir því og getur þannig stýrt því hverjir fá jarðnæði og hverjir ekki. Á móti fær hún umbun af einhverju tagi, landskuld eða þjónustu. En þar sem verið er að nema nýtt land þá er, eðli málsins samkvæmt, nóg landrými og bændafólk þarf ekki að greiða neitt fyrir það. Það getur sest að þar sem því sýnist en yfirstéttin fær ekkert fyrir sinn snúð. Höfðingjar sem þykjast slá eign sinni á stór landvæði eiga erfitt með að fá til sín leiguliða en þurfa þess í stað að kljást við fólk sem sest að í óleyfi. Reynslan af svona landnemasamfélögum er sú að stéttskipting minnkar til mikilla muna eða þurrkast út.[8]

Aftur á móti er ljóst að stéttskipting varð til að nýju og fór vaxandi þegar leið á þjóðveldisöld. Oft hefur það verið rakið til lögtöku tíundar 1097 og má vera að það skipti einhverju máli.[9] Þó getur það ekki verið meginskýringin þar sem stéttskipting er afar almennt fyrirbæri í mannlegum samfélögum og fyrstu merki um hana sjást á Íslandi fyrir daga tíundar. Því verður að leita til almennra kenninga um stéttskiptingu í mannlegum samfélögum en þær eru margar og misjafnar og er ekki rúm til að fjalla um þær hér enda eiga þær misjafnlega vel við Ísland.

Sá sem hér skrifar telur líklegast að hin svokölluðu Matteusaráhrif séu undirrótin en það hugtak má rekja til bandaríska félagsfræðingsins Robert K. Merton.[10] Nafnið er sótt í þessa ritningargrein í Matteusarguðspjalli (25:29): „Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.“ Matteusaráhrifin þýða að gæði af ýmsu tagi (auður, völd, virðing og svo framvegis) er hægt að nota til að sanka að sér enn meiri gæðum. Það leiðir sjálfkrafa til þess að þau safnast á fáar hendur. Margir kannast við þetta í samtímanum, til dæmis í því hvernig kvóti í sjávarútvegi hefur þjappast saman.

Stéttskipting er þannig fyrirbæri sem hefur lengi fylgt mannlegum samfélögum, að minnsta kosti hinum stærri og flóknari og kemur upp aftur og aftur þótt hún geti horfið tímabundið. Litlum og einföldum samfélögum tekst þó oftast að halda henni varanlega niðri.[11]

Tilvísanir:
  1. ^ Guðmundur Ævar Oddsson, „Hugmyndir um stéttleysi Íslendinga.“ Íslenska þjóðfélagið 2 (2011), 27-46.
  2. ^ Bragi Guðmundsson, Efnamenn og eignir þeirra um 1700: Athugun á íslenskum gósseigendum í jarðabók Árna og Páls og fleiri heimildum. Reykjavík 1985; Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson, Ójöfnuður á Íslandi: Skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi. Reykjavík 2017.
  3. ^ Til dæmis: Sverrir Jakobsson, „Frá þrælahaldi til landeigendavalds: Íslenskt miðaldasamfélag, 1100-1400.“ Saga LXIII:2 (2005), 99-129, hér 99-100.
  4. ^ Árni Daníel Júlíusson, Landbúnaðarsaga Íslands 1. Reykjavík 2013, 104-105.
  5. ^ Bjarni F. Einarsson, The Settlement of Iceland: A Critical Approach: Granastaðir and Ecological Heritage. Göteborg (1994), 64 og víðar; Douglas J. Bolender, „House, land, and labor in a frontier landscape: The Norse Colonization of Iceland,“ í The Durable House: House Society Models in Archaeology, ritstj. Robin A. Beck. Carbondale (2007), 400–421, hér 402.
  6. ^ Axel Kristinsson, Expansions: Competition and Conquest in Europe Since the Bronze Age. Reykjavík (2010), 219-221.
  7. ^ Axel Kristinsson, „Voru goðorð arfgeng fyrir 1100? Saga LX:2 (2022), 118-144.
  8. ^ R. Cole. Harris, „The simplification of Europe overseas,“ Annals of the Association of American Geographers 67:4 (1977), 469–483.
  9. ^ Til dæmis: Björn Þorsteinsson, Íslensk miðaldasaga. Reykjavík (1978), 105-106.
  10. ^ Robert K. Merton, „The Matthew effect in science.“ Science 159 (1968), 53-63.
  11. ^ Axel Kristinsson, „Af hverju stafar stéttaskipting? Fyrri hluti: Tristan da Cunha og jöfnuður í smáum samfélögum.“ Demos 1 (2023), 101-108.

Myndir:...