Hversu hátt er hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins, ríkis og sveitarfélaga, í prósentum talið miðað við verga landsframleiðslu (enska: GDP) Íslands á ári?Seðlabankinn heldur utan um tölur á þessu sviði og birtir reglulega. Meðal annars er hægt að sjá að í lok september 2024 voru heildarskuldir þjóðarbúsins áætlaðar 3.404 milljarðar króna.[1] Nú er það auðvitað svo að þjóðarbúið hefur ekki kennitölu og skuldar ekkert en þetta er samtala fyrir alla innlenda aðila. Af þessu skuldaði ríkissjóður 406 milljarða og Seðlabankinn 79 milljarða til viðbótar. Innlánsstofnanir skulduðu 929 milljarða og þótt hluti þeirra séu í eigu ríkisins þá teljast þær skuldir ekki með skuldum þess. Það sama má segja um skuldir flestra ríkisfyrirtækja, þar á meðal Landsvirkjunar. Aðrar skuldir hvíla á herðum margvíslegra fyrirtækja, þar á meðal fyrirtækja sem teljast íslensk þótt þau séu í eigu erlendra aðila. Til að setja þessar tölur í samhengi við verga landsframleiðslu þá er hægt að skoða upplýsingar um hana á vef Hagstofunnar. Hún var áætluð 4.321 milljarður árið 2023 en það eru nýjustu tölur þegar þetta svar er tekið saman.[2] Skuldirnar samsvöruðu því um 79% af vergri landsframleiðslu þess árs en verða fyrirsjáanlega aðeins lægra hlutfall af landsframleiðslu ársins 2024 því að hún hefur vaxið að nafnvirði milli ára.

Hægt er sækja ýmis konar talnaefni á vef Hagstofunnar. Þetta myndrit þaðan sýnir heildartekjur og -gjöld hins opinbera frá 1980-2023.
- ^ Erlendar skuldir. (Sótt 6.02.2025).
- ^ Peningalegar eignir og skuldir hins opinbera 1998-2023. PxWeb. (Sótt 6.02.2025).
- ^ Erlend staða þjóðarbúsins. (Sótt 6.02.2025).
- Hagtölur. (Sótt 6.02.2025).
- Fjármál hins opinbera - Hagstofa Íslands. (Sótt 6.02.2025).
- Hagstofa Íslands. (Sótt 6.02.2025).