Í stuttu máli
Samkvæmt botnskriðskenningunni[1] gliðnar hafsbotnsskorpan um miðhafshryggi, skorpuna rekur frá hryggnum til beggja átta, basaltbráð fyllir jafnóðum upp í sprunguna. Við kólnun tekur bergið á sig segulstefnu ríkjandi segulsviðs sem gerir kleift að aldursgreina hafsbotninn og meta hraða gliðnunar. [2] Eðlisléttari meginlandsskorpa flýtur með sem „farþegi“. Með því að yfirborðsflatarmál jarðar er stöðugt hlýtur jafnmikil hafsbotnsskorpa að eyðast á niðurstreymisbeltum[3] og myndast á miðhafshryggjum. Með botnskriðskenningunni varð rek meginlanda skiljanlegt, enda létu flestir sannfærast. Botnskriðskenningin byggðist í meginatriðum á túlkun gagna fornsegulfræði og kortlagningu hafsbotna jarðar, án verulegs stuðnings jarðskjálftafræði. Flekakenningin,[4] hins vegar, byggðist einkum á niðurstöðum jarðskjálftafræði[5] auk botnskriðskenningarinnar sjálfrar og stærðfræðikunnáttu eðlisfræðings. Flekakenningin gefur heildarmynd af jarðskorpu hnattarins og afstæðri hreyfingu hinna ýmsu hluta hennar: Samkvæmt kenningunni skiptist jarðaskorpan í fleka (e. Plates, floes) sem hver um sig er stíf heild. Flekarnir hreyfast fram og aftur um yfirborð jarðarinnar með tilliti hver til annars, og jarðskjálftar verða einungis á flekamótum, þar með talið þverbrotabeltum miðhafshryggja. Flekar eru í sífelldri myndun við miðhafshryggina en eyðast á niðurstreymisbeltum – þar eru djúpálar og fellingafjöll. Hreyfingu gliðnunar má lýsa sem snúningi í gagnstæðar áttir eftir smábaugum um sameiginlegan pól (1. mynd).
1. mynd. Á yfirborði kúlu hlýtur færsla fleka (block) 2 miðað við fleka 1 að vera snúningur um eitthvert skaut (pól). Öll þverbrot á mótum flekanna hljóta að vera sammiðja smáhringir við skautið A. (Morgan, 1968).
Lengri texti
Að baki „nýju jarðfræðinnar“ á 20. öld lá að sjálfsögðu landrekskenning Alfreds Wegener.[6] Þótt kenning hans hefði að flestra mati verið kveðin formlega niður á fundi í New York 1926 voru margir sannfærðir um sanngildi hugmyndarinnar sjálfrar — landrek — þótt með öðrum hætti væri en Wegener lýsti. Þeirra á meðal var Bretinn Arthur Holmes (1890-1965), þá prófessor í Durham, sem í víðlesinni kennslubók sinni (1944)[7] birti snið, mjög í nútíma stíl: sjávarskorpa sem ber meginlandsskorpu gliðnar til beggja hliða og sekkur loks niður í jarðmöttulinn undir djúpálum. Rekið taldi Holms knúð af hitaólgu í jarðmöttlinum; hann var upphaflega menntaður í eðlisfræði og vel heima í kjarnorku, meðal annars sem hitagjafa. Annar áhrifamikill „driftari“, Bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906–68), prófessor í Princeton, hafði sem aðmíráll í síðari heimsstyrjöldinni siglt skipi sínu um Kyrrahaf í leit að kafbátum og kortlagt í leiðinni hafsbotninn. Þar fann hann neðansjávarfjöll með öldusorfnum toppi sem hann nefndi „guyots“ og sem dýpkaði á til beggja hliða frá nú-dauðum hrygg, Darwin rise. Jafnframt því að sannfæra Hess um landrek með botnskriði leysti ferlið þverstæðu Darwins um kóralla.[8] Í fyrirlestri 1960 í jarðfræðideild Cambridge á Englandi, lýsti Hess hugmyndum sínum og sýndi all-nútímlegt snið af hafsbotnsskorpu og efra möttli ásamt möttulstreymi og skorpugliðnun; erindið birtist tveimur árum síðar efnislega á bók (1962).[9]
Kort af hafsbotninum eftir eftir Bruce C. Heezen og Marie Tharp, handlitað af Heinrich C. Berann.

3. mynd. Brotabelti á botni Atlantshafs við miðbaug. Brotnar línur eru misgengi, afstæð hreyfing sýnd með örvum. Svört svæði á landi merkja hæð yfir 3000 m, strikaður hafsbotn dýpi minna en 3000 m. Svartir hringir neðansjávarfjöll. (Heezen & Thorp 1965).

4. mynd. Stórhringir hornréttir á strik þverbrota á mið-Atlantshafshryggnum milli 5°S og 15°N. Með einni undantekningu skerast þeir allir innan hrings hrings með miðju á 58°N, 36°V. (Morgan 1968).
- ^ F.J. Vine & D.H. Matthews. (1963). Magnetic anomalies over oceanic ridges. Nature 199: 947–949.
- ^ Sjá Sigurður Steinþórsson. (2024, 19. ágúst). Hvað er segultímatal og hvernig er það notað? Vísindavefurinn.
- ^ Hugo Benioff (1954) sýndi með óyggjandi rökum að djúpskjálfta kringum Kyrrahafið má rekja til misgengja. Hafsbotnsflekinn þrýstist undir meginlandsskorpuna undir 45° horni og skjálftarnir myndast við núninginn – þeir ná niður á 700 km dýpi. H. Benioff. (1954). Orogenesis and deep crustal structure: Additional evidence from seismology. Geological Society of America Bulletin 65: 385–400.
- ^ W.J. Morgan. (1968). Rises, trenches, great faults, and crustal blocks. Journal of Geophysical Research 73: 1959–1982.
- ^ Kjarnorkuvá kalda stríðsins olli því að Bandaríkjamenn settu upp net 125 skjálftamæla undir lok 6. áratugs 20. aldar til að fylgjast með atómsprengingum neðanjarðar. Vísindamenn fengu aðgang að nýjum gögnum samtímis og þá fyrst varð ljóst að jarðskjálftar verða einungis á mjóum beltum sem hlykkjast og hríslast um jörðina.
- ^ Sjá: Sigurður Þórarinsson,1981. Alfred Wegener – Aldarminning I. Maðurinn og verk hans. Náttúrufræðingurinn 51:10–26. Sigurður Steinþórsson. (1981). Alfred Wegener – Aldarminning II. Arfleifð Wegeners. Náttúrufræðingurinn 51: 27–46.
- ^ A. Holmes. (1944). Principles of Physical Geology. Thomas Nelson and Sons Ltd. 13. prentun 1957. (Alls urðu endurprentanir nítján; 2. útgáfa, endurskoðuð og stækkuð, 1965).
- ^ Á ferð sinni með Beagle frá Galapagos til Nýja-Sjálands uppgötvaði Darwin að kóralrif stóðu á fjallstoppum á hundraða metra dýpi, en kórallar geta aðeins lifað í efstu 10 metrum sjávar. Ein skýring, sem þó dugði ekki, var að yfirborð sjávar hefði lækkað svona mikið á ísöld og kórallarnir náð að fylgja sjávarhækkun við ísaldarlok. Nú varð skýringin sú að neðansjávarfjöll mynduðust efst á hryggnum, öldur surfu af toppnum áður en þau rak ýmist til NV eða SA þar sem kórallar byggðu rif sín sem hækkuðu með lækkandi sjávarbotni.
- ^ H.H. Hess (1962). History of ocean basins. Bls 599–620 í Engel, James & Leonard (ritstj.) Petrologic Studies: A volume in Honor of A.F. Buddington. Geol. Soc. Am.
- ^ Sjá til dæmis Sigurður Steinþórsson. (2024, 19. ágúst). Hvað er segultímatal og hvernig er það notað? Vísindavefurinn.
- ^ F.J. Vine & D.H. Matthews. (1963).
- ^ W. Jason Morgan. (1968).
- ^ Sameiginleg brún N-Ameríku- og Evrasíuflekanna liggur yfir Ísland þar sem sjá má tvær hinna þriggja tegunda flekamóta, rekbeltin: framhald Reykjanes- og Kolbeinseyjarhryggja, og þverbrotabeltin: Reykjanes– og Suðurlandsskjálftabelti og Tjörnesbrotabeltið.
- ^ J. Tuzo Wilson. (1965a). A new class of faults and their bearing on continental drift. Nature 207: 343–347.
- ^ J. Tuzo Wilson. (1965b). Submarine fracture zones, aseismic ridges and the International council of Scientific Union lines: Proposed western margin of the east Pacific ridge. Nature 207: 907–910.
- Myndir 1 og 4: W. Jason Morgan. (1968). Rises, trenches, great faults, and crustal blocks. Journal of Geophysical Research 73, 6:1959–1981.
- Mynd 2: Berann, H. C., Heezen, B. C. & Tharp, M. (1977). Manuscript painting of Heezen-Tharp "World ocean floor" map by Berann. Library of Congress. (Sótt 30.10.2024).
- Mynd 3: B.C. Heezen & Marie Tharp 1964. Tectonic fabric of the Atlantic and Indian oceans and continental drift. Philosophical Transactions of the Royal Society of London. Series A, Mathematical and Physical Sciences 258, 90–106.