Hver er/var hann þessi Eyjólfur sem við vonumst til að "fari nú að hressast" (og hressist hann eitthvað svo vitað sé)?Elsta heimild um orðasambandið hver veit nema Eyjólfur hressist í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr ritinu Norðanfara sem gefið var út á síðari hluta 19. aldar. Það þekkist enn en engar öruggar heimildir eru um þennan Eyjólf. Jón Friðjónsson (2006:175), sem gaf út ritið Mergur málsins, bók um íslensk orðatiltæki, vitnar í heimildir í talmálssafni Orðabókar Háskólans. Hann segir upprunann ókunnan og enginn viti örugg deili á Eyjólfi en nefnir annars vegar að orðatiltækið gæti átt rætur að rekja til Svartadauða en hins vegar að að baki liggi ef til vill sögnin um tengdamóður Eyjólfs sem á að hafa sagt: „hver veit nema Eyjólfur hressist“ og vitnar þar til nýkvænts tengdasonarins sem enn hafði ekki getið konu sinni barn. Vafalaust eru margar sögur á kreiki í líka veru. Til eru dæmi um viðbótina og … og Bóthildur fái slag en hún heyrist sjaldan. Merking orðatiltækisins er að verið getur að ástandið, til dæmis heilsa eða skap, fari að skána. Heimildir og myndir:
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Önnur útgáfa aukin og endurbætt. Mál og menning, Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Sótt 17.12.2024).
- Yfirlitsmynd: Wellcome Collection gallery. A sick man at home in bed discussing his case with three phy Wellcome L0013914.jpg. Wikimedia Commons. Birt undir CC BY 4.0 leyfi. File:Egyptian plague of boils in the Toggenburg Bible.jpg - Wikipedia. (Sótt 31.01.2025).