Hvað merkið orðið „sýling“ í heiti á Sýlingarfelli fyrir ofan Grindavík?Sýlingarfell, sem stundum er kallað Svartsengisfell, er um 200 m hátt fell á Reykjanesskaga, rétt austan við Svartsengi. Í örnefnalýsingu fyrir Hóp í Grindavíkurhreppi er heiti fellsins skýrt svo:
Í toppi þess er gígur, sem frá vissum stöðum gerir í það sýlingu, enda er það sums staðar nefnt Sýlingarfell.En hvað er sýling? Sýling merkir skarð eða skora samkvæmt Orðsifjabók en af tiltækum dæmum mætti ætla að sýling sé nánar tiltekið oft skora sem mjókkar niður á við – er svo að segja v-laga. Talað er um sýlingu í sporði á fiskum og í kríustélum; sömuleiðis þekkjast sýlingar í búfjármörkum. Áhugavert er að sýling virðist geta vísað til þess að skarðið sem um ræðir myndi „súlur“ beggja megin við. Þetta kemur til dæmis fram í lýsingu í Búnaðarriti 1918 þar sem lýst er stúfþrísýldu eyrnamarki (sjá mynd). Þar eru einungis tvær skorur eða klaufir klipptar niður í eyrað en mynda þrjár súlur og þaðan er nafnið dregið.
- Björn Bjarnarson. (1918). Búfjármörk. Búnaðarrit, 32:1-2, bls. 118.
- Bára Agnes Ketilsdóttir. Sýlingarfell og Þorbjörn... tvo gullfalleg eldfjöll á Reykjanesi. Fjallgönguklúbburinn Toppfarar. Birt með góðfúslegu leyfi. (Sótt 11.12.2023).
Þetta svar birtist upphaflega á Facebook-síðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og er birt hér með góðfúslegu leyfi.