Hvaða íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu liggja á flekaskilum um þverbrotabelti sunnanlands? Hvaða íbúðahverfi önnur á höfuðborgarsvæðinu liggja á flekaskilum s.s. Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans?Stutta svarið við spurningunni er að engin íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu liggja á flekaskilum. Þéttbýl svæði á Suðurlandi, eins og Hveragerði og Selfoss, liggja hins vegar á þverbrotabelti Suðurlands, en beltið er birtingarmynd flekaskilanna þar. Suðurlandsþverbrotabeltið er um 70 km langt og um 10-15 km breitt. Það nær frá Hellisheiði í vestri og austur að Heklu. Vesturendi beltisins tengist síðan flekaskilum Reykjanesskaga. Jarðskjálftar á þverbrotabeltum á Íslandi geta orðið stærri en annars staðar á flekaskilum hér á landi. Lega flekaskilanna á Íslandi sést á myndinni hér fyrir ofan. Inn á myndina eru teiknuð flekskil Evrasíu og Norður-Ameríkuflekanna og upptök jarðskjálfta á tilteknu tímabili merkt með rauðum punktum. Vel sést hvernig jarðskjálftarnir raða sér við flekaskilin. Einnig er vert að birta aðra mynd sem sýnir upptök jarðskjálfta á brotabelti Suðurlands. Ósar Ölfusár sjást til vinstri, rétt fyrir neðan miðju, en þar fyrir austan er Selfoss. Hveragerði er fyrir norðan upptök ósanna. Svæðið fyrir norðan beltið færist til vesturs með Norður-Ameríkuflekanum en svæðið fyrir sunnan fer í austurátt með Evrasíuflekanum. Vel getur hugsast að spyrjandi hafi verið að velta fyrir sér hvort svonefndir sprungusveimar nái inn á höfuðborgarsvæðið. Svarið við því er já. Sprungusveimur Krýsuvíkur nær inn í austustu úthverfi Reykjavíkur, Kópavogs og Garðabæjar. Sprungusveimar eru eins konar merki á yfirborði jarðar um hvar stórir kvikugangar hafa nálgast yfirborðið. Hægt er að lesa meira um þá í svari Páls Einarssonar við spurningunni Hversu langt geta kvikugangar brotið sér leið? Gæti kvikugangur t.d. leitað undir Reykjanesbæ? og þar er líka birt kort sem sýnir legu sprungusveima á Reykjanesskaga. Kort:
- Kort 1: Snæbjörn Guðmundsson. Er annar hluti Almannagjár virkilega Norður-Ameríkuflekinn og hinn Evrasíuflekinn? (Sótt 30.11.2023).
- Kort 2: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (aðalritstjóri Júlíus Sólnes), Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, Reykjavík 2013.
- Gunnar B. Guðmundsson, Brotabelti Suðurlands, í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (aðalritstjóri Júlíus Sólnes), Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, Reykjavík 2013, bls. 547-551.