Hvaða íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu liggja á flekaskilum um þverbrotabelti sunnanlands? Hvaða íbúðahverfi önnur á höfuðborgarsvæðinu liggja á flekaskilum s.s. Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans?Stutta svarið við spurningunni er að engin íbúðahverfi á höfuðborgarsvæðinu liggja á flekaskilum. Þéttbýl svæði á Suðurlandi, eins og Hveragerði og Selfoss, liggja hins vegar á þverbrotabelti Suðurlands, en beltið er birtingarmynd flekaskilanna þar. Suðurlandsþverbrotabeltið er um 70 km langt og um 10-15 km breitt. Það nær frá Hellisheiði í vestri og austur að Heklu. Vesturendi beltisins tengist síðan flekaskilum Reykjanesskaga. Jarðskjálftar á þverbrotabeltum á Íslandi geta orðið stærri en annars staðar á flekaskilum hér á landi.

Kort 1: Yfirlitskort sem sýnir staðsetningu jarðskjálfta á Íslandi 1995-2014. Flekaskilin eru dregin með bláum lit og þykkt línunnar sýnir mismunandi hraða gliðnunarinnar. Örvarnar sýna rekstefnu flekanna.

Kort 2: Þverbrotabelti Suðurlands. Mældir skjálftar stærri en 0 frá árinu 1991-2006 eru sýndir með svörtum punktum. Einnig sjást kortlagðar sprungur, sprungusveimar og megineldstöðvar.
- Kort 1: Snæbjörn Guðmundsson. Er annar hluti Almannagjár virkilega Norður-Ameríkuflekinn og hinn Evrasíuflekinn? (Sótt 30.11.2023).
- Kort 2: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (aðalritstjóri Júlíus Sólnes), Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, Reykjavík 2013.
- Gunnar B. Guðmundsson, Brotabelti Suðurlands, í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (aðalritstjóri Júlíus Sólnes), Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, Reykjavík 2013, bls. 547-551.