Blettatígur (Acinonyx jubatus) er rándýr af kattarætt og sprettharðastur allra dýra. Hann getur hlaupið á allt að 90 til 112 km hraða á klukkustund en þeim hraða getur hann aðeins haldið stuttar vegalengdir. Hann nýtir sér framúrskarandi hlaupagetu við veiðar en uppáhalds fæða hans eru gaseðlur og antilópur. Löng þróun hefur gefið blettatígrinum þann vöxt sem gerir hann fádæma sprettharðan. Hann hefur lítið höfuð og langa fætur, skrokklengd hans er 110-150 cm, hæð 70-90 cm og þyngd aðeins um 34-65 kg. Hann getur ekki dregið inn klærnar eins og önnur kattardýr en það kemur sér vel á hlaupunum þar sem klærnar gefa honum örugga fótfestu. Þó að blettatígurinn sé sprettharðastur dýra og mikið veiðidýr þá er hann ekki mjög sterkur og þarf oft að sjá á eftir bráð sinni í gin sér sterkari dýra en helstu keppinautar hans eru ljón (Panthera leo) og blettahýenur (Crocuta crocuta).
Sjá einnig svar við spurningunum: Geta tígrisdýr og blettatígur eignast afkvæmi og hvað kallast það þá? Geta mismunandi kattardýr eignast afkvæmi? og Hvert er hraðskreiðasta dýr í heimi?
Heimildir: Undraveröld dýranna 15. bindi Spendýr 4. hluti 1983. De Wildt Cheetah and Wildlife Centre
Mynd eftir Ellen Goff: Earthwatch Institute