Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers konar ríma er Tímaríma?

Sveinn Yngvi Egilsson

Árið 1783 kom út í Hrappsey hin óvenjulega Tímaríma Jóns Sigurðssonar Dalaskálds (1685-1720) en hún var áður prentuð í Kaupmannahöfn 1772. Rímur voru almennt kveðnar til skemmtunar og ein helsta dægradvöl þjóðarinnar í aldanna rás. Tímaríma er engin undantekning frá því en hún er um leið gagnrýnin og sver sig í ætt við svokallaðan grobíanisma. Það var sérstök tegund heimsósómakveðskapar sem ættuð var frá Mið-Evrópu og fólst ekki síst í því að öllu var snúið á haus. Lestirnir voru lofaðir en dyggðirnar lastaðar og þannig reynt að ýta við áheyrendum og storka þeim.

Eitthvert þekktasta dæmið um grobíanisma er kvæði eftir Sebastian Brant (1458-1520) sem nefnist Das Narrenschiff (Dárafleyið, 1494), þar sem er dregin upp siglingamynd af persónugervingum helstu lasta, svo sem lygi, undirferli og falsi. Um borð í Dárafleyinu er fanturinn Grobian, það er Ruddi, en hann stingur upp kollinum í ýmsum íslenskum kvæðum og heitir þá ýmist Grobbían, Háðgæla, Viðbjóður og Viðurstyggð. Tímaríma er ort í anda þessara bókmennta þó að reyndar sé hún nokkuð flóknari og ekki látið nægja að draga upp mynd af persónugervingum lastanna heldur er þeim stillt upp gagnvart andstæðum sínum, fulltrúum dyggðanna.

Tímaríma sver sig í ætt við svokallaðan grobíansima en eitt þekktasta dæmið um hann er kvæðið Das Narrenschiff eftir Sebastian Brant sem fyrst kom út 1494. Myndin er trérista úr útgáfu kvæðisins frá árinu 1549.

Talið er að Tímaríma sé lykilverk, það er að segja hún fjalli um þekktar persónur á Íslandi samtímans undir dulnefni. Sá maður sem talið er víst að hafi ort þessa vinsælu rímu, Jón Sigurðsson, var um skeið lögsagnari Odds Sigurðssonar lögmanns (1681-1741) en vinátta þeirra snerist upp í fullan fjandskap. Rímunni kann að vera beint gegn Oddi lögmanni og móður hans Sigríði Hákonardóttur (1648-1733). Oddur átti í málaferlum við voldugustu menn á Íslandi upp úr 1707 og var þá oft gengið á hlut þeirra sem minna máttu sín.

Í rímunni er sögð saga af greifanum Rangláti Reigingssyni og móður hans öfund sem ráða ríkjum á eylandi sem nefnist Ósamlyndi. Einnig kemur við sögu fátækt förufólk, aldurhnigin hjón sem heita Kærleikur og Tryggð. Öfund fær Ranglát son sinn til að stefna hjónunum að ósekju og láta dæma þau til útlegðar í eyðihólma. Öfund heldur veislu til að fagna þessum málalokum en sagan er þó ekki öll. Skömmu síðar ber tvö börn að garði á bæ í grenndinni. Hjónin á bænum ala börnin upp og gefa þeim nöfn Kærleiks og Tryggðar sem þannig fá uppreisn æru. Í rímunni er deilt hart á valdníðslu og lögleysur ráðandi afla.

Grobíanisminn bauð upp á alls kyns ýkjur og öfgafullar, gróteskar lýsingar eins og í erindinu sem lýsir hlátri öfundar: „Kerlingar var kjaftur grár, / keyrður upp með sköllum,/ hafði hún ekki í hundrað ár/ hlegið með honum öllum" (Jón Sigurðsson, 20). Ríman dregur nafn sitt af þeim sem sagan er höfð eftir og heitir Tími.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Sveinn Yngvi Egilsson

prófessor í íslenskum bókmenntum

Útgáfudagur

15.9.2023

Spyrjandi

Ingunn

Tilvísun

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvers konar ríma er Tímaríma?“ Vísindavefurinn, 15. september 2023, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=85460.

Sveinn Yngvi Egilsson. (2023, 15. september). Hvers konar ríma er Tímaríma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85460

Sveinn Yngvi Egilsson. „Hvers konar ríma er Tímaríma?“ Vísindavefurinn. 15. sep. 2023. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85460>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers konar ríma er Tímaríma?
Árið 1783 kom út í Hrappsey hin óvenjulega Tímaríma Jóns Sigurðssonar Dalaskálds (1685-1720) en hún var áður prentuð í Kaupmannahöfn 1772. Rímur voru almennt kveðnar til skemmtunar og ein helsta dægradvöl þjóðarinnar í aldanna rás. Tímaríma er engin undantekning frá því en hún er um leið gagnrýnin og sver sig í ætt við svokallaðan grobíanisma. Það var sérstök tegund heimsósómakveðskapar sem ættuð var frá Mið-Evrópu og fólst ekki síst í því að öllu var snúið á haus. Lestirnir voru lofaðir en dyggðirnar lastaðar og þannig reynt að ýta við áheyrendum og storka þeim.

Eitthvert þekktasta dæmið um grobíanisma er kvæði eftir Sebastian Brant (1458-1520) sem nefnist Das Narrenschiff (Dárafleyið, 1494), þar sem er dregin upp siglingamynd af persónugervingum helstu lasta, svo sem lygi, undirferli og falsi. Um borð í Dárafleyinu er fanturinn Grobian, það er Ruddi, en hann stingur upp kollinum í ýmsum íslenskum kvæðum og heitir þá ýmist Grobbían, Háðgæla, Viðbjóður og Viðurstyggð. Tímaríma er ort í anda þessara bókmennta þó að reyndar sé hún nokkuð flóknari og ekki látið nægja að draga upp mynd af persónugervingum lastanna heldur er þeim stillt upp gagnvart andstæðum sínum, fulltrúum dyggðanna.

Tímaríma sver sig í ætt við svokallaðan grobíansima en eitt þekktasta dæmið um hann er kvæðið Das Narrenschiff eftir Sebastian Brant sem fyrst kom út 1494. Myndin er trérista úr útgáfu kvæðisins frá árinu 1549.

Talið er að Tímaríma sé lykilverk, það er að segja hún fjalli um þekktar persónur á Íslandi samtímans undir dulnefni. Sá maður sem talið er víst að hafi ort þessa vinsælu rímu, Jón Sigurðsson, var um skeið lögsagnari Odds Sigurðssonar lögmanns (1681-1741) en vinátta þeirra snerist upp í fullan fjandskap. Rímunni kann að vera beint gegn Oddi lögmanni og móður hans Sigríði Hákonardóttur (1648-1733). Oddur átti í málaferlum við voldugustu menn á Íslandi upp úr 1707 og var þá oft gengið á hlut þeirra sem minna máttu sín.

Í rímunni er sögð saga af greifanum Rangláti Reigingssyni og móður hans öfund sem ráða ríkjum á eylandi sem nefnist Ósamlyndi. Einnig kemur við sögu fátækt förufólk, aldurhnigin hjón sem heita Kærleikur og Tryggð. Öfund fær Ranglát son sinn til að stefna hjónunum að ósekju og láta dæma þau til útlegðar í eyðihólma. Öfund heldur veislu til að fagna þessum málalokum en sagan er þó ekki öll. Skömmu síðar ber tvö börn að garði á bæ í grenndinni. Hjónin á bænum ala börnin upp og gefa þeim nöfn Kærleiks og Tryggðar sem þannig fá uppreisn æru. Í rímunni er deilt hart á valdníðslu og lögleysur ráðandi afla.

Grobíanisminn bauð upp á alls kyns ýkjur og öfgafullar, gróteskar lýsingar eins og í erindinu sem lýsir hlátri öfundar: „Kerlingar var kjaftur grár, / keyrður upp með sköllum,/ hafði hún ekki í hundrað ár/ hlegið með honum öllum" (Jón Sigurðsson, 20). Ríman dregur nafn sitt af þeim sem sagan er höfð eftir og heitir Tími.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum....