Hvað þurfti margar nautshúðir í eina bók á Sturlungaöld?Það fór eftir því hve stór bókin var, það er í hve stóru broti hún var, en það fór líka eftir því hversu þykk hún var, það er hve mörg blöð voru í henni. Bókfell er það kallað þegar búið er að verka skinn á þann hátt að hægt er að skrifa á það. Bókfell hefur að langmestu leyti verið gert úr skinnum af spendýrum og oftast úr skinnum húsdýra, svo sem úr sauðargærum og geitarstökum, en eftir því sem skinnið verður þykkra verður erfiðara að búa til bókfell úr því. Þess vegna er yfirleitt ekki hægt að búa til bókfell úr húðum nautgripa sem eru orðnir þriggja mánaða eða eldri. Hins vegar er auðvelt að verka húðir ungra kálfa og svo virðist sem Íslendingar hafi eingöngu notað kálfshúðir í bókfell. Húð af ungum kálfi er ekki stærri en það að hún nægir í tvö blöð (fjórar blaðsíður) í handriti í stóru broti, en fjögur blöð í meðalstórum handritum (í kvartó-broti), og átta blöð í litlum handritum (í oktavó-broti).

Blaðsíður úr Grágásarhandritinu GKS 1157 fol. Líklega þurfti húðir af 47 kálfum í handritið.
- GKS 1157 fol.. (Sótt 18.9.2023).
- Holm. Perg. 15 4to. (Sótt 18.9.2023).