Þar sem ekki er aðskilnaður ríkis og kirkju hér, get ég svo sem skilið hvers vegna hvítasunnan er frídagur (enda líka sunnudagur hvort sem er) en hvers vegna er næsti dagur á eftir líka frídagur, með tilheyrandi lokunum á opinberum stofnunum og öllum þeim óþægindum sem því fylgir? Og einnig: Hvers vegna er dagurinn eftir páskadag líka frídagur?Hér er væntanlega verið að spyrja um af hverju annar í hvítasunnu er frídagur. Í sjálfu sér er ekkert merkilegt við annan í hvítasunnu, nema það að hann er næsti dagur á eftir hvítasunnudegi. Ástæðan fyrir fríi þennan dag er saga hálfgildings reiptogs kristinna og veraldlegra afla um helgidaga, frí- og vinnudaga. Ýmsir dagar sem tengjast sögu kristinnar kirkju er haldnir hátíðlegir hér á landi. Þeir eru það sem kallast helgidagar og þá tíðkast að gefa vinnandi fólki frí. Hefðin er forn og má meðal annars rekja til sköpunarsögu Biblíunnar þar sem segir að Guð hafi skapað heiminn á sex dögum og hvílt sig þann sjöunda. Í Biblíunni kemur einnig víða fram að mannfólkið skuli hafa hvíldardag sjöunda dag hverrar viku. Frá fornu fari hafa Gyðingar haldið hvíldardaginn á laugardegi en snemma í sögu kristninnar færðu kristnir menn hann yfir á sunnudag. Um þetta má lesa meira í svari við spurningunni Af hverju halda kristnir hvíldardaginn á sunnudögum en ekki laugardögum?
Við siðbreytinguna veiktist staða kirkjunnar gagnvart veraldlegum yfirvöldum en harðnaði heldur í garð lágstétta. Þegar helgidögum var stórum fækkað, og fólk var látið vinna þeim mun fleiri daga, hlaut eðlilega að aukast sá hluti af arði vinnunnar sem rann í vasa meistara og eigenda verkstæða. Hér má greina margar víxlverkanir, en smám saman reis upp ný og efnahagslega voldug stétt sem í fyrstu nefndust borgarar. Það var þessi stétt ásamt leifum af aðli sem einkum hafði hag af því að meira væri unnið en minna yrði um alþýðuskemmtanir. Langt fram eftir 19. öld var helgidögum enn fækkað í áföngum þar til verkalýðsfélög tóku að spyrna við fótum.Heimild:
- Árni Björnsson. (1993). Saga daganna, Mál og menning.
- Fiskvinnslukonur vaska saltfisk í kerjum innanhúss, 1910-1… | Flickr. (Sótt 19.06.2023).