Mig langar að fræðast meira um orðið „mar“ eða sjór. Hver er uppruni orðsins og saga?Orðið mar hefur fleiri en eina merkingu en sú sem hér er spurt um er ‘haf, sjór’. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar (1989: 604) þekkist orðið í öllum Norðurlandamálum, samanber nýnorsku mar, færeysku marrur k., marra kvk. ‘mýri, fen, for’. Það þekkist einnig í öðrum germönskum málum eins og fornensku mere ‘haf, stöðuvatn’, fornsaxnesku mere og fornháþýsku mari, meri, nútímaþýsku Meer ‘haf’. Ásgeir bendir á að orðið hafi verið hvorugkyns í germönskum málum en orðið karlkyns í norrænum málum. Orðið þekkist einnig utan germanskra (norrænna) mála, til dæmis í latínu mare h., fornírsku muir ‘haf’, fornslavnesku morje (sama merking), litháísku mãrės ‘lón’ og gotnesku marei ‘haf’.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Bls. 604. Orðabók Háskólans, Reykjavík. Orðsifjabókina má einnig finna á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undir Málið.is.
- Pexels of sea.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar Kellie Churchman. (Sótt 30.6.2023).