Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í dag lifir aðeins ein tegund manna á jörðinni, Homo sapiens, sem við tilheyrum. Fyrir 100.000 árum voru hins vegar fjórir ef ekki fleiri hópar (eða tegundir) manna á jörðinni. Auk okkar hafa flestir heyrt um neanderdalsmenn og einhverjir um hina lágvöxnu flóreseyjamenn í Suðaustur-Asíu.[1] Í þessu svari verður fjallað um fjórða hópinn, hina dularfullu denisóvamenn.
Denisóvamenn eru kenndir við Denisóvahellinn í Altaifjöllum í Síberíu. Þeir voru hópur fornmanna sem lifðu að öllum líkindum á meginlandi Austur-Asíu, og mögulega eyjum Suðaustur-Asíu og Melanesíu. Vitneskjan um denisóvafólkið er frekar nýtilkomin því í upphafi aldarinnar var þessi hópur mannfræðingum og fornleifafræðingum algerlega óþekktur. Til að afhjúpa hann þurfti erfðagreiningar á svonefndu fornDNA.
Mynd 1. Denisóvahellirinn í Altaifjöllum í Síberíu.
Denisóvahellirinn er reyndar vel þekktur meðal mannfræðinga, því í honum hafa fundist margvíslegar leifar manna og veiðidýra þeirra. Í hellinum fannst fingurbein úr manni, sem efnagreiningar bentu til að væri í góðu ástandi og ef til vill hægt að ná erfðaefni úr. Sú var og raunin. Beininu var fyrst lýst árið 2008 en óvissa ríkir enn um það hvar staðsetja eigi viðkomandi í þróunartré mannsins. Árið 2012 var fornDNA úr þessu fingurbeini raðgreint og gaf greiningin til kynna að um nýjan hóp manna væri að ræða sem væri skyldur neanderdals- og nútímamönnum.
Erfðaupplýsingarnar, sem spönnuðu stóran hluta erfðamengisins, bentu til þess að þessi einstaklingur og nútímamenn hafi átt sameiginlegan forföður fyrir um það bil 950.000 árum. Merkilegt þótti að gen frá þessu fólki hafa fundist í töluverðri tíðni meðal íbúa Austur-Asíu en það sýnir að denisóvamenn og forfeður okkar eignuðust frjó afkvæmi.[2]
Fingurbeinið var metið um 30.000-48.000 ára gamalt. Denisóvamenn virðast hafa búið í austurhluta Asíu, Suður-Austur Asíu og Melanesíu fyrir um 50.000 árum, mögulega einnig fyrr, en hópurinn er talinn hafa dáið út fyrir um 14 þúsund árum. Gögnin gefa til kynna að denisóvamenn og neanderdalsmenn hafi verið systurhópar (aðskilist fyrir um 640.000 árum). Þessir hópar deildu landsvæði um langa hríð og hafa fundist vísbendingar um að þeir hafi blandast. Árið 2018 var birt grein um stúlku sem nefnd var Denny og átti neanderdalsmóður og denisóvaföður. Beinið sem fornDNAið var einangrað úr er um 90.000 ára gamalt, og gögnin sýna óyggjandi að helmingur af genum hennar eru frá konu úr Neanderdal[3] og helmingur frá denisóvaföður.
Mynd 2. Við vitum ekki hvernig densisóvafólk leit út þar sem engin höfuðkúpa af af denisóvamann hefur fundist. Hér er mynd af afsteypu af tönn, sem fannst í denisóva-hellinum árið 2000.
Þó að denisóvamenn hafi dáið út sem hópur, hefur arfleifð þeirra varðveist í nútímamönnum. Denisóva-erfðaefni finnst í dag í hópum manna í Austur-Asíu, Suður-Austur Asíu, Melanesíu, Ameríku og Ástralíu. Þeir nútímamenn sem hafa mestan skyldleika við denisóvamenn eru „Negritos-fólkið“, fjölbreytur hópur innfæddra Filippseyjinga sem aðskyldust öðrum mönnum fyrir 50.000 árum, en 6% af erfðaefni þeirra kemur frá denisóvafólki. Erfðaefni frá denisóvamönnum finnst að hluta til í Evrópubúum, þar með talið Íslendingum. Það má rekja annað hvort til beinnar blöndunar eða þess að þeir neanderdalsmenn sem blönduðust forfeðrum Evrópumanna höfðu í sér denisóva-erfðaefni.[4]Tilvísanir:
^ Þeir fundust árið 2003 á eyjunni Flores sem tilheyrir Indónesíu, voru um 1 m á hæð, en dóu út fyrir um 50.000 árum. Um þá má lesa til dæmis á vef The Natural History Museum.
^ Ekki má taka orðalagið bókstaflega, neanderdalsmenn bjuggu víðar en í Neanderdal, rétt eins og denisóvamenn bjuggu víðar en í hellinum í Altaifjöllum
^ Í grein í National Geographic frá árinu 2019 má sjá mynd af stúlku sem listamaðurinn Maayan Harel útbjó með hliðsjón af erfðaupplýsingum sem David Gokhman og félagar unnu úr.
Arnar Pálsson og Kristján Þórhallsson. „Hverjir voru denisóvamenn?“ Vísindavefurinn, 9. janúar 2023, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84508.
Arnar Pálsson og Kristján Þórhallsson. (2023, 9. janúar). Hverjir voru denisóvamenn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84508
Arnar Pálsson og Kristján Þórhallsson. „Hverjir voru denisóvamenn?“ Vísindavefurinn. 9. jan. 2023. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84508>.