Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er ekki neitt til sem kalla má algilt líkan til að spá verðbólgu ef með því er átt við að líkanið spái fullkomlega rétt fyrir um verðþróun. Raunar er það eðli allra líkana, jafnt í hagfræði sem öðrum vísindagreinum, að þau eru einföldun á raunveruleikanum og geta því ekki lýst honum fullkomlega.
Að öðru jöfnu má þó gera ráð fyrir að því einfaldara sem fyrirbrigðið er sem verið er að skoða, þeim mun betri skil sé hægt að gera því í einföldu líkani. Líkön hagfræðinga lýsa flest mjög flóknum fyrirbrigðum. Þær stærðir sem hagfræðingar skoða breytast meðal annars fyrir áhrif ákvarðana fjölmargra einstaklinga sem sjálfir eru í eðli sínu flóknar og margbreytilegar verur. Þetta er eitt af einkennum hagfræði og annarra félagsvísinda og gerir þessar greinar krefjandi.
Verðbólga ræðst þannig af fjölmörgum þáttum, bæði ákvörðunum opinberra aðila, til dæmis seðlabanka, og forsvarsmanna ýmiss konar samtaka, til dæmis þeirra sem semja um kaup og kjör á vinnumarkaði. Ákvarðanir forsvarsmanna fyrirtækja um verð á þeirri vöru og þjónustu sem þau selja, verðið á þeim vörum sem miðað er við þegar verðbólga er mæld, er einungis lokahlekkurinn í langri keðju ákvarðana sem fjölmargir aðilar koma að. Ákvarðanir hvers og eins einstaklings um það hvað hann kaupir og af hverjum, hverjum hann selur vinnu sína og jafnvel hvaða vörum hann mælir með við kunningja sína og svo framvegis, allt getur þetta skipt máli. Það einfaldar málið ekki að ákvarðanir í einu landi hafa iðulega áhrif í öðrum löndum.
Það er ógjörningur að spá fyrir um alla þessa þætti og því búa hagfræðingar til einfölduð líkön af hagkerfum, þar sem tekið er tillit til sumra þátta en annarra ekki. Fjölmargir hagfræðingar fást við slíka vinnu. Þeir reyna að komast að því hvaða þætti er best að skoða til að spá fyrir um stærð sem þykir áhugaverð, vega og meta áhrif hvers þáttar og innbyrðis tengsl þeirra. Niðurstaðan úr slíkri vinnu er ekki einhlít, sum líkön virðast spá vel við ákveðnar kringumstæður, önnur betur við aðrar.
Mörg líkön virðast lýsa vel eðli einhvers fyrirbrigðis sem áhugavert þykir að skoða, þannig að hægt er að sjá ágætlega hvaða utanaðkomandi þættir hafa áhrif á fyrirbrigðið og hvernig. Oft er samt lítið gagn í þessum líkönum til að spá vegna þess að ekki liggur fyrir hver þróun þessara utanaðkomandi þátta verður. Í góðu spálíkani verður að byggja spárnar á þáttum sem þekktir eru þegar þær eru gerðar.
Nokkrir aðilar, einkum fjármálastofnanir, gefa út verðbólguspár fyrir Ísland og sennilega byggja þær flestar á einhverjum líkönum að meira eða minna leyti. Það eru því til nokkur haglíkön sem nota má til að spá fyrir um verðbólgu á Íslandi. Flest byggja þau væntanlega að einhverju leyti á erlendum fyrirmyndum eða að minnsta kosti hafa fræðin sem líkönin byggjast á að mestu verið sett fram af erlendum fræðimönnum.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Er til eitthvert algilt líkan til að spá fyrir um verðbólgu? Hefur verið búið til líkan fyrir Ísland? Eru einhver önnur lönd sem búa við lík skilyrði og Ísland sem gætu átt líkön sem væri hægt að færa yfir á Ísland?
Gylfi Magnússon. „Er til algilt líkan til að spá fyrir um verðbólgu?“ Vísindavefurinn, 21. ágúst 2000, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=843.
Gylfi Magnússon. (2000, 21. ágúst). Er til algilt líkan til að spá fyrir um verðbólgu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=843
Gylfi Magnússon. „Er til algilt líkan til að spá fyrir um verðbólgu?“ Vísindavefurinn. 21. ágú. 2000. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=843>.