Hæ getur einhver sagt mér frá Code civil í Frakklandi á sínum tíma. Ég hef mikinn áhuga en virðist ekki finna neitt nema á frönsku og ensku og á erfitt með að skilja það.Áður en Napóleon Bónaparte varð keisari Frakklands (1804-1815) gegndi hann stöðu fyrsta konsúls franska ríkisins. Eitt af verkum hans þá var að skipa fyrir að lög Frakklands yrðu samræmd í einni lögbók en áður hafði hvert hérað í Frakklandi haft sín eigin lög. Þessi samræmda lögbók kallast á frönsku Code civil des Français (oft stytt sem Code civil) og stundum er einnig vísað til hennar sem Code Napoléon. Á íslensku gengur lagasafnið oftast undir heitinu franska lögbókin eða franska borgaralögbókin. Hún kom fyrst út árið 1804 og einn af höfuðkostum bókarinnar þykir vera skýrt og skiljanlegt mál.
Í sumum efnum breytti Napóleon frumdrögum lögbókarinnar í afturhaldssama átt, einkum að því er varðaði sifjaréttinn, ákvæði um hjónaskilnað, um réttindi óskilgetinna barna, um vald föður yfir börnum og eiginkonu. En þau grundvallarréttindi, er byltingin hafði skapað, héldust óskert: borgaralegt jafnfrétti fyrir lögum, borgaralegur eignarréttur, afnám lénsánauðar og lénskvaða, atvinnufrelsi, samvizku- og trúfrelsi - allt var þetta staðfest í hinni nýju lögbók. Hún hefur haft geysileg áhrif á réttarfar þjóða og ríkja um gervallan heiminn, þegar undan eru skilin lönd engilsaxneskra þjóða.Franska borgaralögbókin er á meðal þekktustu lögbóka veraldar og hún hefur haft mikil áhrif á rétt annarra þjóða, til að mynda á sviði samningaréttar og einkamálaréttarfars. Margt úr lögbókinni er enn að finna í frönskum lögum, sumt að vísu í endurbættri mynd. Páll Sigurðsson, prófessor emeritus við Lagadeild HÍ, hefur skrifað um lögbókina í riti sínu Lagaþættir II: Greinar af ýmsum réttarsviðum. Frekara lesefni:
- Andvari - Tímarit.is. (Sótt 11.10.2022).
- Páll Sigurðsson, Lagaþættir II: Greinar af ýmsum réttarsviðum, Háskólaútgáfan, 1993.
- File:Speyer (DerHexer) 2010-12-19 051.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 11.10.2022).