Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er latína enn notuð í líffærafræði?

Geir Þ. Þórarinsson

Um þetta hefur verið fjallað á almennan hátt í svari við spurningunni Af hverju er latína sem er að deyja út notuð í líffræði? og bendum við lesendum á að lesa það svar fyrst. Sömu ástæður og koma fram í því svari gilda um líffærafræðina. Þar er latína notuð í fyrsta lagi vegna þess að hún hefur verið notuð lengi eða allt frá því að fræðigreinin varð til og mótaðist og var eðlilegt val á þeim tíma. Auðvitað væri hægt að skipta henni út fyrir þjóðtungurnar en því fylgdi mikil þýðingastarfsemi og í raun mjög aukinn lærdómur lækna- og hjúkrunarfræðinema og annarra sem leggja stund á líffærafræði sem þurfa að geta átt samskipti um sín fræði á alþjóðlegum vettvangi. Þannig þjónar latínan enn þá hlutverki sínu vel. Á Íslandi er þó öflug starfsemi íðorðanefnda sem leggja til hugtakaþýðingar og líklega eru hugtök líffærafræðinnar flestum íslenskum læknum og hjúkrunarfræðingum kunn á bæði íslensku og latínu.

Hið alþjóðlega heiti líffærafræðinnar kemur úr grísku en orðið anatomia er myndað úr forskeytinu ἀνα- (ana-), sem þýðir upp, og τομή (tomē), sem þýðir skurður. Myndin er frægt málverk hollenska listmálarans Rembrandts (1606-1669) af kennslustund í anatómíu eða líffærafræði.

Þess má geta að í líffærafræði eru margar grískuslettur í latínu þannig að hugtökin eru í raun á bæði grísku og latínu. Til þess að taka örfá dæmi mætti nefna orð eins og epidermic sem þýðir orðrétt „á húðinni“. Það er sett saman úr forskeytinu ἐπι- (epi-), sem þýðir á eða ofan á, og δέρμα (derma), sem þýðir húð. Annað dæmi er orðið hypothalamus, sem er notað um svæði í heilanum sem á íslensku heitir undirstúka. Í ensku er orðið hypathalamus notað um þetta svæði heilans í daglegu tali og er komið úr nýlatínu en upphaflega úr grísku. Það er sett saman úr forskeytinu ὕπο- (hypo-), sem þýðir undir, og θάλαμος (thalamos), sem þýðir herbergi, salur eða stúka. Hið alþjóðlega heiti líffærafræðinnar er sjálft úr grísku en orðið anatomia er myndað úr forskeytinu ἀνα- (ana-), sem þýðir upp, og τομή (tomē), sem þýðir skurður. Þannig er einmitt þekkingin á innvortis líffærum orðin til, þ.e. með uppskurði eða krufningu en á erlendum málum er orðið fyrir krufningu líka úr grísku komið: autopsy úr αὐτός (autos), sem þýðir sjálfur, og ὄψις (opsis), sem þýðir sjón. Svo vill til að þegar líffærafræðin varð til og mótaðist sem fræðigrein á 16. öld voru einnig að berast og birtast á fyrsta sinn á prenti forn rit grískra lækna og fræðimanna. Rit Hippókratesar birtust fyrst á prenti í Feneyjum árið 1526 og um svipað leyti ýmis rit Galenosar. Enduruppgötvun þessara rita í Vestur-Evrópu hafði þannig áhrif á þróun orðaforða og hugtakaramma líffærafræðinnar og þau áhrif vara enn.

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

28.4.2022

Spyrjandi

Þórarinn Búi

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Af hverju er latína enn notuð í líffærafræði?“ Vísindavefurinn, 28. apríl 2022, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=83615.

Geir Þ. Þórarinsson. (2022, 28. apríl). Af hverju er latína enn notuð í líffærafræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=83615

Geir Þ. Þórarinsson. „Af hverju er latína enn notuð í líffærafræði?“ Vísindavefurinn. 28. apr. 2022. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=83615>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er latína enn notuð í líffærafræði?
Um þetta hefur verið fjallað á almennan hátt í svari við spurningunni Af hverju er latína sem er að deyja út notuð í líffræði? og bendum við lesendum á að lesa það svar fyrst. Sömu ástæður og koma fram í því svari gilda um líffærafræðina. Þar er latína notuð í fyrsta lagi vegna þess að hún hefur verið notuð lengi eða allt frá því að fræðigreinin varð til og mótaðist og var eðlilegt val á þeim tíma. Auðvitað væri hægt að skipta henni út fyrir þjóðtungurnar en því fylgdi mikil þýðingastarfsemi og í raun mjög aukinn lærdómur lækna- og hjúkrunarfræðinema og annarra sem leggja stund á líffærafræði sem þurfa að geta átt samskipti um sín fræði á alþjóðlegum vettvangi. Þannig þjónar latínan enn þá hlutverki sínu vel. Á Íslandi er þó öflug starfsemi íðorðanefnda sem leggja til hugtakaþýðingar og líklega eru hugtök líffærafræðinnar flestum íslenskum læknum og hjúkrunarfræðingum kunn á bæði íslensku og latínu.

Hið alþjóðlega heiti líffærafræðinnar kemur úr grísku en orðið anatomia er myndað úr forskeytinu ἀνα- (ana-), sem þýðir upp, og τομή (tomē), sem þýðir skurður. Myndin er frægt málverk hollenska listmálarans Rembrandts (1606-1669) af kennslustund í anatómíu eða líffærafræði.

Þess má geta að í líffærafræði eru margar grískuslettur í latínu þannig að hugtökin eru í raun á bæði grísku og latínu. Til þess að taka örfá dæmi mætti nefna orð eins og epidermic sem þýðir orðrétt „á húðinni“. Það er sett saman úr forskeytinu ἐπι- (epi-), sem þýðir á eða ofan á, og δέρμα (derma), sem þýðir húð. Annað dæmi er orðið hypothalamus, sem er notað um svæði í heilanum sem á íslensku heitir undirstúka. Í ensku er orðið hypathalamus notað um þetta svæði heilans í daglegu tali og er komið úr nýlatínu en upphaflega úr grísku. Það er sett saman úr forskeytinu ὕπο- (hypo-), sem þýðir undir, og θάλαμος (thalamos), sem þýðir herbergi, salur eða stúka. Hið alþjóðlega heiti líffærafræðinnar er sjálft úr grísku en orðið anatomia er myndað úr forskeytinu ἀνα- (ana-), sem þýðir upp, og τομή (tomē), sem þýðir skurður. Þannig er einmitt þekkingin á innvortis líffærum orðin til, þ.e. með uppskurði eða krufningu en á erlendum málum er orðið fyrir krufningu líka úr grísku komið: autopsy úr αὐτός (autos), sem þýðir sjálfur, og ὄψις (opsis), sem þýðir sjón. Svo vill til að þegar líffærafræðin varð til og mótaðist sem fræðigrein á 16. öld voru einnig að berast og birtast á fyrsta sinn á prenti forn rit grískra lækna og fræðimanna. Rit Hippókratesar birtust fyrst á prenti í Feneyjum árið 1526 og um svipað leyti ýmis rit Galenosar. Enduruppgötvun þessara rita í Vestur-Evrópu hafði þannig áhrif á þróun orðaforða og hugtakaramma líffærafræðinnar og þau áhrif vara enn.

Mynd:...