Hvenær voru fyrstu kristfjárjarðir á Íslandi stofnaðar? Eru ennþá margar kristfjárjarðir á Íslandi?Í seinni tíð er oft rætt um kirkjujarðir eins og um sé að ræða ótiltekinn jarðapott í eigu þjóðkirkjunnar sem stofnunar. Þessi merking öðlaðist líklega fyrst gildi eftir að ríkið hafði tekið meginþorra þessara jarða yfir og þær voru orðnar að skiptimynt í fjárhagslegum samskiptum þjóðkirkjunnar við ríkisvaldið með svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi í lok síðustu aldar. Þjóðkirkjan var tæpast sjálfstæður lögaðili fyrir þann tíma og gat því ekki farið með slíkan eignarrétt. Eiginleg merking orðsins kirkjujörð er enda jörð sem er eða í það minnsta var í eigu ákveðinnar (sóknar)kirkju. Í sveitasamfélagi fyrri alda var jarðeign helsta undirstaða þess að mögulegt væri að halda uppi starfsemi á borð við kristnihald til langs tíma — hvað þá um aldir alda eins og kirkjan keppti auðvitað að. Allar kirkjulegar stofnanir urðu því að eignast nægilegan jarðahöfuðstól til að mögulegt væri að mæta útgjöldum af starfi þeirra með afrakstrinum. Þetta átti við um sóknarkirkjur, klaustur, biskupsstóla og allar aðrar kirkjustofnanir. Þeirra á meðal voru svonefnd kristbú sem einnig nefndust kristfjárjarðir, kristsjarðir og sálubú. Þetta voru heilar jarðir eða jarðarpartar sem gefnir höfðu verið með þeim kvöðum að af tekjum þeirra skyldi halda uppi tilteknum fjölda fátækra um lengri eða skemmri tíma. Hér var upphaflega átt við þau alfátækustu sem ekki gátu framfleytt sér sjálf eða með hjálp skyldmenna. Fátækratíund var aftur á móti notuð til að halda þeim sem næstum voru sjálfbjarga yfir mörkunum. Tekjur af eignum sem þessum kölluðust kristfé. Það gat einnig fallið til af hlunnindum, ítökum eða kvikfé (kúgildum) sem ánafnað hafði verið og bundið kvöðum, það er gert að kristfé.

Elstu varðveittu máldagar (stofnskrár) fyrir kristbú eru frá því um 1150. Þeir gilda um bú sem stofnuð voru á Dalbæ og Uppsölum í Landbroti og að Keldunúpi og á Breiðabólstað á Síðu. Allar voru þessar jarðir í næsta nágrenni við Kirkjubæ þar sem síðar (1186) var stofnað klaustur. Myndin sýnir svonefnt kirkjugólf á Kirkjubæjarklaustri, en það er stuðlaberg sem myndast þegar basaltbráð kólnar.
- File:KirkjubaejarklausturFloor.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 31.03.2022). Myndina tók Andreas Tille og hún er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-ShareAlike 4.0 International — CC BY-SA 4.0.