Mig langar að spyrja hvernig mynduðust Knútstaðaborgir í Aðaldalshraun í S-Þingeyjarsýslu. Þetta eru einhverskonar hraunhólf sem sum eru opin að ofan.Knútstaðaborg mun vera hraundrýli (alþj. hornito) en mörg slík eru í Aðaldalshrauni sem er hluti af Laxárdalshrauni yngra. Hraunið er ~2200 ára gamalt, um 60 km langt og því meðal lengri hraunstrauma á landinu. Skýringin á því að hraun geti runnið svo langa leið án þess að „frjósa“ er meðal annars sú að þau renna að mestu „neðanjarðar“: varma-einangrandi skorpa myndast næstum samstundis ofan á yfirborði glóandi hraunbráðarinnar og þykknar smám saman uns fast yfirborð eða þak hefur myndast sem bráðin streymir undir. Aðstreymi kvikunnar að framrás hraunsins fer þannig fram eftir vel einöngruðum pípulaga göngum eða æðum sem með tímanum geta setið eftir sem hraunhellar.
- Knútstaðaborg Travel Guide - Guide to Iceland. Höfundur myndar: Regína Hrönn Ragnarsdóttir. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar. (Sótt 18.3.2022).