Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er vísindafræði?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Spyrjandi lét þennan texta fylgja spurningunni:
Það er verið að auglýsa styrkveitingar úr nýjum sjóði sem styrkir m.a. rannsóknir í vísindafræði. En hugtakið vísindafræði er ekki í orðabankanum hjá Árnastofnun og finnst ekki í neinu gagnasafni þar (ekki einu sinni nútímamálsorðabók).[1]

Íslenska nýyrðið vísindafræði er hugsað sem þýðing á enska orðinu ‚science studies‘ sem er oft notað sem safnheiti um vísindasögu, vísindaheimspeki og ‚vísindi í samfélaginu‘ (e. science in society), sem mætti líka kalla félagsfræði vísinda. Einnig má telja vísindamiðlun (e. science communication) þar með, þegar hún er í höndum vísindamanna. Oft er það þó svo um orð af þessu tagi að merking þeirra er ekki skýrt afmörkuð, sérstaklega meðan þau eru að ryðja sér til rúms.

Segja má að vísindafræðin horfi á vísindin utan frá í stað þess að einblína á niðurstöður þeirra eða taka sér stöðu „á gólfinu“, það er í sjálfu starfi vísindamanna. Vísindasagan fjallar þannig um sögu vísindanna, allt frá því að sögur hófust í fornöld og til okkar daga. Þá skiptir sköpum að átta sig á að margt af því sem talið var til vísinda áður fyrr er litið öðrum augum nú á dögum, meðal annars af því að tæki, tól og sjónarhorn hafa gerbreyst. Þetta þarf þó ekki að þýða að þekking fyrri alda hafi á sínum tíma verið „óvísindaleg“ eða einhver órökstudd fjarstæða — kannski má þvert á móti líta á hana sem dæmi um eðlislæga þekkingarleit mannkynsins eftir svörum við gátum tilverunnar og við áskorunum sem auka lífslíkur (samanber til dæmis siglingar). Þessi þekking var þannig í mörgum tilfellum einmitt það sem „best var vitað“ á hverjum tíma og reyndist oft beinlínis til margra hluta nytsamleg.

Segja má að vísindafræðin horfi á vísindin utan frá í stað þess að einblína á niðurstöður þeirra eða taka sér stöðu „á gólfinu“, það er í sjálfu starfi vísindamanna. Á myndinni sést jörðin frá tunglinu.

Sem dæmi um þetta getum við tekið þá hugmynd manna fyrr á öldum að jörðin sé miðja alheimsins og sól, tungl og stjörnur snúist um hana. Sú hugmynd nefnist jarðmiðjukenning og lengi vel höfðu menn litla ástæðu til að draga hana í efa. En þegar stjörnukíkirinn kom til sögunnar upp úr 1600 gerðu menn ýmsar athuganir sem stönguðust á við þessa kenningu og menn sannfærðust þá smám saman um að hitt væri réttara, að sólin sé í miðjunni (sólmiðjukenning).

Svipuðu máli gegnir um þá eldfornu hugmynd að jörðin sé flöt. Meðan menn ferðuðust bæði stutt og sjaldan – og mest á þurru landi – var lítil ástæða til að rengja þá hugmynd. En þegar ferðalög færðust í vöxt og siglingar bættust við, gátu menn séð með berum augum að jörðin er ekki flöt og sannfærðust síðan smám saman um að hún væri nokkurn veginn eins og kúla í laginu.

Þessi tvö dæmi koma úr sögu heimsmyndar og stjarnvísinda en mörg önnur hliðstæð dæmi mætti nefna úr öðrum vísindagreinum um það hvernig nýjar kenningar og hugmyndir ryðja sér til rúms þegar ný gögn og athuganir gefa tilefni til þess. Þróunarkenning Darwins var til dæmis ekki tímabær fyrr en Darwin gat rökstutt hana með margvíslegum athugunum á lífríki margra ólíkra staða á jörðinni. Menn sannfærðust ekki heldur um tilvist erfðaefnisins DNA fyrr en það var tímabært um miðbik 20. aldar – og þannig mætti lengi telja.

Þegar dæmum af þessu tagi fjölgaði fóru menn að átta sig á því að sitthvað var sameiginlegt í því hvernig vísindin vinna og hvernig nýmæli koma til sögu í mismunandi vísindagreinum, en slíkar pælingar teljum við nú á dögum til vísindaheimspeki. Ennfremur hefur vaxandi athygli beinst að víxlverkun vísinda og samfélags, það er að segja bæði að því hvernig samfélagið bregst við niðurstöðum vísindanna og eins hvernig samfélagið hefur áhrif á vísindin. Þessi víxlverkun í samfélagi nútímans veldur síðan aukinni þörf á sérstakri og beinskeyttri vísindamiðlun því að þróun vísindanna er orðin svo ör að þekkingin sem skólar veita ungu fólki dugir skammt þegar áratugum ævinnar fjölgar.

Allt hefur þetta eflst og þróast mjög á 21. öldinni um leið og áhrif vísinda á samfélagið hafa vaxið hröðum skrefum á sífellt fleiri sviðum. Auk raunvísinda á þetta nú við bæði í félags- og hugvísindum þar sem fjallað er meðal annars um hegðun manna, lífshætti og samfélag. Jafnframt hefur tækni sem byggist á vísindum sífellt meiri áhrif á umhverfi okkar og samfélag, og stórstíg fólksfjölgun styrkir einnig hlutverk vísindanna.

Mestan hluta 20. aldar virtist mönnum jörðin svo stór og gjöful að umsvif mannanna breyttu þar litlu, en nú er það liðin tíð. Eyðing ósonlagsins var einn fyrsti forboðinn um þetta þó að mönnum tækist sem betur fer sæmilega að hemja þann vágest. En hlýnun jarðar kom í kjölfarið ásamt fylgifiskum á borð við ört hækkandi sjávarborð, vaxandi hamfarir veðurs og vinda, breytt búskaparskilyrði sem kalla á gríðarlega fólksflutninga og svo framvegis. Og ofan á þetta allt höfum við svo fengið veirufaraldurinn sem hefur krafist skilnings og aðgerða af hálfu almennings og þannig undirstrikað hversu brýnt það er að almenningur skilji sem mest af því sem vísindin hafa fram að færa, nýti sér það, og treysti vísindunum til að vísa veginn í baráttunni gegn vágestinum.

Það fer sem sé ekki milli mála að sjaldan hefur reynt eins mikið á vísindaskilning í samfélaginu og einmitt núna. Vísindafræðin er því sannarleg komin til að vera í fjölskrúðugum garði vísinda og fræða.

Tilvísun:
  1. ^ Orðið er til dæmis að finna í ritmálssafni Orðabókar Háskólans, með dæmi frá síðari hluta 19. aldar. Í efnisflokknum vísindafræði á Vísindavefnum er nokkur fjöldi svara og leit á veraldarvefnum gefur af sér allmargar færslur.

Mynd:

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

6.12.2021

Síðast uppfært

7.12.2021

Spyrjandi

Birna Lárusdóttir

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er vísindafræði?“ Vísindavefurinn, 6. desember 2021, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82577.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2021, 6. desember). Hvað er vísindafræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82577

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er vísindafræði?“ Vísindavefurinn. 6. des. 2021. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82577>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er vísindafræði?
Spyrjandi lét þennan texta fylgja spurningunni:

Það er verið að auglýsa styrkveitingar úr nýjum sjóði sem styrkir m.a. rannsóknir í vísindafræði. En hugtakið vísindafræði er ekki í orðabankanum hjá Árnastofnun og finnst ekki í neinu gagnasafni þar (ekki einu sinni nútímamálsorðabók).[1]

Íslenska nýyrðið vísindafræði er hugsað sem þýðing á enska orðinu ‚science studies‘ sem er oft notað sem safnheiti um vísindasögu, vísindaheimspeki og ‚vísindi í samfélaginu‘ (e. science in society), sem mætti líka kalla félagsfræði vísinda. Einnig má telja vísindamiðlun (e. science communication) þar með, þegar hún er í höndum vísindamanna. Oft er það þó svo um orð af þessu tagi að merking þeirra er ekki skýrt afmörkuð, sérstaklega meðan þau eru að ryðja sér til rúms.

Segja má að vísindafræðin horfi á vísindin utan frá í stað þess að einblína á niðurstöður þeirra eða taka sér stöðu „á gólfinu“, það er í sjálfu starfi vísindamanna. Vísindasagan fjallar þannig um sögu vísindanna, allt frá því að sögur hófust í fornöld og til okkar daga. Þá skiptir sköpum að átta sig á að margt af því sem talið var til vísinda áður fyrr er litið öðrum augum nú á dögum, meðal annars af því að tæki, tól og sjónarhorn hafa gerbreyst. Þetta þarf þó ekki að þýða að þekking fyrri alda hafi á sínum tíma verið „óvísindaleg“ eða einhver órökstudd fjarstæða — kannski má þvert á móti líta á hana sem dæmi um eðlislæga þekkingarleit mannkynsins eftir svörum við gátum tilverunnar og við áskorunum sem auka lífslíkur (samanber til dæmis siglingar). Þessi þekking var þannig í mörgum tilfellum einmitt það sem „best var vitað“ á hverjum tíma og reyndist oft beinlínis til margra hluta nytsamleg.

Segja má að vísindafræðin horfi á vísindin utan frá í stað þess að einblína á niðurstöður þeirra eða taka sér stöðu „á gólfinu“, það er í sjálfu starfi vísindamanna. Á myndinni sést jörðin frá tunglinu.

Sem dæmi um þetta getum við tekið þá hugmynd manna fyrr á öldum að jörðin sé miðja alheimsins og sól, tungl og stjörnur snúist um hana. Sú hugmynd nefnist jarðmiðjukenning og lengi vel höfðu menn litla ástæðu til að draga hana í efa. En þegar stjörnukíkirinn kom til sögunnar upp úr 1600 gerðu menn ýmsar athuganir sem stönguðust á við þessa kenningu og menn sannfærðust þá smám saman um að hitt væri réttara, að sólin sé í miðjunni (sólmiðjukenning).

Svipuðu máli gegnir um þá eldfornu hugmynd að jörðin sé flöt. Meðan menn ferðuðust bæði stutt og sjaldan – og mest á þurru landi – var lítil ástæða til að rengja þá hugmynd. En þegar ferðalög færðust í vöxt og siglingar bættust við, gátu menn séð með berum augum að jörðin er ekki flöt og sannfærðust síðan smám saman um að hún væri nokkurn veginn eins og kúla í laginu.

Þessi tvö dæmi koma úr sögu heimsmyndar og stjarnvísinda en mörg önnur hliðstæð dæmi mætti nefna úr öðrum vísindagreinum um það hvernig nýjar kenningar og hugmyndir ryðja sér til rúms þegar ný gögn og athuganir gefa tilefni til þess. Þróunarkenning Darwins var til dæmis ekki tímabær fyrr en Darwin gat rökstutt hana með margvíslegum athugunum á lífríki margra ólíkra staða á jörðinni. Menn sannfærðust ekki heldur um tilvist erfðaefnisins DNA fyrr en það var tímabært um miðbik 20. aldar – og þannig mætti lengi telja.

Þegar dæmum af þessu tagi fjölgaði fóru menn að átta sig á því að sitthvað var sameiginlegt í því hvernig vísindin vinna og hvernig nýmæli koma til sögu í mismunandi vísindagreinum, en slíkar pælingar teljum við nú á dögum til vísindaheimspeki. Ennfremur hefur vaxandi athygli beinst að víxlverkun vísinda og samfélags, það er að segja bæði að því hvernig samfélagið bregst við niðurstöðum vísindanna og eins hvernig samfélagið hefur áhrif á vísindin. Þessi víxlverkun í samfélagi nútímans veldur síðan aukinni þörf á sérstakri og beinskeyttri vísindamiðlun því að þróun vísindanna er orðin svo ör að þekkingin sem skólar veita ungu fólki dugir skammt þegar áratugum ævinnar fjölgar.

Allt hefur þetta eflst og þróast mjög á 21. öldinni um leið og áhrif vísinda á samfélagið hafa vaxið hröðum skrefum á sífellt fleiri sviðum. Auk raunvísinda á þetta nú við bæði í félags- og hugvísindum þar sem fjallað er meðal annars um hegðun manna, lífshætti og samfélag. Jafnframt hefur tækni sem byggist á vísindum sífellt meiri áhrif á umhverfi okkar og samfélag, og stórstíg fólksfjölgun styrkir einnig hlutverk vísindanna.

Mestan hluta 20. aldar virtist mönnum jörðin svo stór og gjöful að umsvif mannanna breyttu þar litlu, en nú er það liðin tíð. Eyðing ósonlagsins var einn fyrsti forboðinn um þetta þó að mönnum tækist sem betur fer sæmilega að hemja þann vágest. En hlýnun jarðar kom í kjölfarið ásamt fylgifiskum á borð við ört hækkandi sjávarborð, vaxandi hamfarir veðurs og vinda, breytt búskaparskilyrði sem kalla á gríðarlega fólksflutninga og svo framvegis. Og ofan á þetta allt höfum við svo fengið veirufaraldurinn sem hefur krafist skilnings og aðgerða af hálfu almennings og þannig undirstrikað hversu brýnt það er að almenningur skilji sem mest af því sem vísindin hafa fram að færa, nýti sér það, og treysti vísindunum til að vísa veginn í baráttunni gegn vágestinum.

Það fer sem sé ekki milli mála að sjaldan hefur reynt eins mikið á vísindaskilning í samfélaginu og einmitt núna. Vísindafræðin er því sannarleg komin til að vera í fjölskrúðugum garði vísinda og fræða.

Tilvísun:
  1. ^ Orðið er til dæmis að finna í ritmálssafni Orðabókar Háskólans, með dæmi frá síðari hluta 19. aldar. Í efnisflokknum vísindafræði á Vísindavefnum er nokkur fjöldi svara og leit á veraldarvefnum gefur af sér allmargar færslur.

Mynd:...