Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað í raun myndi gerast ef öll þjóðin á sama tíma fengi bara þá hugmynd að kjósa ekki? Myndi alþingið bara hætta? Vonast eftir svari hið snarasta!
Stjórnskipunarlög eru þær lagareglur nefndar sem fjalla um æðstu handhöfn ríkisvalds, hvort sem er löggjafarvalds, framkvæmdarvalds eða dómsvalds. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 geymir margar mikilvægustu stjórnskipunarreglurnar sem svo eru nánar útfærðar í almennum lögum. Þá eru sumar stjórnskipunarreglur byggðar á réttarvenjum og óskráðum meginreglum.
Lýðræði er ein af grunnstoðum íslenskrar stjórnskipunar og ýmsar stjórnskipunarreglur fjalla um útfærslu þess með einum eða öðrum hætti. Meðal slíkra reglna eru ákvæði III. og IV. kafla stjórnarskrárinnar um kjördæmi, framboð til Alþingis, kjörgengi (það er hverjir mega bjóða sig fram til Alþingis), kosningarétt og fyrirkomulag kosninga. Jafnframt gilda um þessi efni lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.
Það er skemmst frá því að segja að í framangreindum reglum er ekki sérstaklega gert ráð fyrir því að sú staða komi upp að enginn greiði atkvæði í kosningum til Alþingis. Það er því engum ákvæðum fyrir að fara sem fjalla beinlínis um hvað gera skuli við slíkar aðstæður. Hér væri því sannarlega komin upp stjórnskipunarkrísa.
Tómir kjörkassar. Ekki er gert ráð fyrir því í stjórnskipunarreglum að svo gæti farið að enginn mundi greiða atkvæði í í kosningum til Alþingis.
Það er almennt viðurkennt í stjórnskipunarrétti að ákveðnar aðstæður geti kallað á beitingu þess sem kallað er stjórnskipulegur neyðarréttur. Þetta getur til dæmis átt við þegar stríðsástand veldur því að ómögulegt er að framfylgja þeim stjórnskipunarlögum sem í gildi eru. Á Íslandi reyndi á stjórnskipulegan neyðarrétt í síðari heimstyrjöld eftir að Þýskaland hernam Danmörku og Bretland hernam Ísland. Þannig ályktaði Alþingi um það hinn 10. apríl 1940 að ráðuneyti Íslands skyldi fara með konungsvaldið. Hinn 17. maí 1941 ályktaði það svo að ríkisstjóri, sem kjörinn væri af Alþingi, færi með konungsvaldið. Þessar ályktanir byggðu á því að konungi var vegna ástandsins ómögulegt að sinna stjórnskipulegum verkefnum sínum hér á landi. Það dæmi sem á jafnvel enn betur við hér er hins vegar ályktun Alþingis frá 15. maí 1941 um að fresta kosningum til Alþingis sem fara áttu fram sumarið 1941. Byggði sú ályktun á því neyðarástandi sem stríðið skapaði, meðal annars með vísan til þess að forystumenn eins stjórnmálaflokks hefðu verið fluttir úr landi. Fóru kosningarnar ekki fram fyrr en í júní 1942 og hafði Alþingi þá setið lengur en því var heimilt samkvæmt gildandi stjórnarskrárákvæðum.
Beiting stjórnskipulegs neyðarréttar þarf ávallt að taka mið af því neyðarástandi sem ríkir. Erfitt er að gera sér í hugarlund hvað gæti orðið til þess að enginn greiddi atkvæði í alþingiskosningum sem á annað borð væru haldnar og þá þannig að ekki einu sinni frambjóðendurnir sjálfir sæju ástæðu til þess að greiða atkvæði. Því er erfitt að fullyrða hvernig best væri að bregðast við aðstæðum. Hvað sem því líður má ganga út frá því að brugðist yrði við, eftir atvikum á grundvelli neyðarréttarsjónarmiða.
Ef við gefum okkur að stjórnkerfi landsins væri virkt að öðru leyti má ætla að komið yrði í veg fyrir að Alþingi lognaðist út af. Tvær leiðir má hugsa sér í þessum efnum.
Önnur leiðin væri að boða til nýrra kosninga, svokallaðra uppkosninga, samanber til dæmis XVIII. kafla kosningalaga en þau ákvæði taka til þess þegar kosning ferst fyrir á hinum ákveðna kjördegi vegna óviðráðanlegra aðstæðna, svo sem vegna óveðurs. Í ímyndaða dæminu okkar fóru kosningar vissulega fram en kjósendur mættu ekki til að greiða atkvæði. Aðstæður kynnu að vera með þannig að rétt væri að líta svo á að um svo sambærilegar aðstæður væri að ræða að rétt væri að grípa til uppkosninga.
Einnig væri hugsanlegt að leitast yrði við að beita ákvæðum 110. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þar er fjallað um hvað gera skuli þegar tveir eða fleiri frambjóðendur fá jafnháa atkvæðatölu en af lagagreininni verður ráðið að þar sé gert ráð fyrir að framboðslistarnir hafi þó fengið einhver atkvæði. Í dæminu sem hér er til skoðunar væri þá litið svo á að allir frambjóðendurnir hefðu fengið jafn mörg atkvæði, það er engin. Hlutkesti myndi þá ráða því hvernig frambjóðendur röðuðust inn á þing í samræmi við ákvæði laganna.
Rétt er að taka fram að á meðan Alþingi er ekki að störfum gerir stjórnarskráin ráð fyrir því að forseti Íslands, með atbeina ráðherra, geti gefið út bráðabirgðalög þegar brýna nauðsyn ber til. Ef Alþingi yrði óstarfhæft um tíma vegna krísunnar myndi framkvæmdarvaldið því taka við hluta löggjafarvaldsins um stundarsakir, það er lagasetningu um allra brýnustu málefnin. Möguleikar til lagasetningar falla því ekki að öllu leyti niður enda þótt Alþingi sé ekki að störfum.
Samkvæmt framangreindu má slá því föstu að Alþingi yrði ekki lagt niður enda þótt enginn greiddi atkvæði í tilteknum alþingiskosningum. Ef við höldum hins vegar áfram með pælingu fyrirspyrjandans og ímyndum okkur að til frambúðar yrði af einhverjum sökum enginn fáanlegur til þess að bjóða sig fram til þingsetu og/eða enginn nýtti kosningaréttinn væri ein meginstoð stjórnskipunar okkar - það er það lýðræðisfyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í stjórnarskránni - brostin og lýðveldið Ísland fallið. Stjórnskipunarrétturinn veitir ekki svör við því hvaða stjórnskipulag, ef eitthvað, tæki við í framhaldinu.
Frekara lesefni:
Björg Thorarensen (2015), Stjórnskipunarréttur II. Handhafar ríkisvalds. Reykjavík.
Ólafur Jóhannesson (1960), Stjórnskipun Íslands. Reykjavík.